Árið
1992 var íbúafjöldi landsins 21.206.800 (49 manns á hvern km2).
Úzbekar, sem eru tyrkneskumælandi múslimar, eru 71% þjóðarinnar. Rússar
koma næstir með 8,3% og líkt og í öðrum fyrrverandi Sovétlýðveldum,
hefur Rússum fækkað, því þúsundir þeirra hafa flutzt til Rússlands eða
annað. Tadjíkar eru 4,7%, Kazakar 4,1% og síðan koma tatarar,
Karakalpakar, Kóreumenn, Kyrgyzar, Úkraínumenn, Turkmenar og Tyrkir.
Rússarnir bjuggu næstum eingöngu í Toshkent og öðrum iðnaðarborgum.
Tadjikar búa aðallega í hinum fornu borgum Bukhoro og Samarqand.
Karakalpakar búa aðallega í sínu, samnefnda heimastjórarlýðveldi.
Flestir
íbúar landsins (>60%) búa í dreifbýli. Tashkent, höfuðborg landsins
(2,1 miljón íbúa 1992), er stærsta borg Mið-Asíu. Flestar aðrar helztu
borgir landsins eru í austurhlutanum, s.s. Samarqand, Namangan, Andijon
og Bukhoro. Fólksfjölgunin nemur u.þ.b. 3,5% á ári. Heilbrigðismál eru
í ólestri, þannig að barnadauði er mikill og margir deyja úr læknanlegum
sjúkdómum. Meðallífslíkur eru 65 ár. Þornun Aralvatnsins hefur valdið
geysilegum skorti á drykkjarvatni, sem síðan leiddi til æ bágara
heilsufars íbúanna í vesturhluta landsins. |