Verg
þjóðarframleiðsla Úzbekistan árið 1991 var US$ 28,255 miljónir (1.350.-
US$ á mann). Landbúnaður er mikilvægasti atvinnuvegurinn, þótt nokkur
stóriðja sé rekin í landinu. Landbúnaðurinn stendur undir u.þ.b. 43% af
nettóframleiðslunni og nýtir 29% vinnuaflsins. Baðmull er aðaluppskeran
og landið er fjórði mesti útflytjandi í heimi. Einnig er mikið
framleitt af silki og skinnavöru. Aðrar mikilvægar landbúnaðarafurðir
eru hveiti, hrísgrjón, bygg og fjöldi tegunda af ávöxtum og grænmetis.
Vegna hinnar miklu áherzlu, sem lögð er á baðmullarframleiðsluna, hefur
landið orðið að flytja inn verulegt magn matvæla. Það flytur inn u.þ.b
tvo þriðjunga af korni til neyzlu innanlands, 30% af kjötþörfinni,
fjórðung af neyzlumjólk og helming kartaflna.
Iðnaðurinn stendur undir 33% af nettóframleiðslunni og nýtir 18%
vinnuaflsins. Mikilvægust er framleiðsla vélbúnaðar fyrir landbúnað og
vefnaðariðnaðinn, vefnaðarvara, flugvélar, náttúrugas og gull.
Olíusvæði, sem fundust í Ferganadalnum, juku þjóðarframleiðsluna
verulega en samt er landið sjálfu sér ónógt um olíuvörur, sem flytja
verður inn.
Efnahagurinn varð fyrir miklu áfalli við hrun Sovétríkjanna, þegar innri
markaður þeirra flosnaði upp. Þjóðarframleiðslan minnkaði um 14% árið
1992. Vélavarahlutir, eldsneyti og aðrar innflutningsvörur hafa verið
af skornum skammti eftir hrunið. Yfirvöld hafa dregið markaðsvæðingu og
hafa töglin og hagldirnar í efnahagslífinu. Verðlagsstjórnun gildir um
ýmsa nauðsynjavöru og enn þá fá óarðbær fyrirtæki og samyrkjubú
niðurgreiðslur. Einkavæðing er háð miklum takmörkunum og einkahald á
landi er ekki enn þá löglegt. Í nóvember 1993 gaf seðlabanki landsins
út nýjan gjaldmiðil landsins, somkúpon, í stað rússnesku rúbunnar.
Snemma árið 1994 var samið um fríverzlun við Kazakhstan og Kyrgyzstan. |