Zaporizhzhya (Zaporozhye) er höfuðborg samnefnds héraðs við Dneprána í
Suðaustur-Úkraínu. Hún er mikilvæg miðstöð járnbrauta og umskipunar í
Donets’k kolalægðinni og mikil iðnaðarborg. Borgarbúar framleiða m.a.
ál, mangan, járn og stál, farartæki, efnavöru og landbúnaðarvélar. Hin
stóra vatnsaflsvirkjun Dneproges, sem var byggð árið 1932 og endurbyggð
1947 eftir síðari heimsstyrjöldina, er í borginni. Þar eru einnig
læknaskóli og verkfræðiskóli. Árið 1770 var byggt virki á borgarstæðinu
og borgin óx umhverfis það. Hún var þekkt undir nafninu Aleksandrovsk
til 1921. Á nærliggjandi Khortitsaeyju í Dnepránni var Kastali
Zaporizhzhya-kósakka á 16. – 18. öld. Áætlaður íbúafjöldi árið 1991 var
tæplega 900 þúsund. |