Úkraína stjórnsýsla,
Flag of Ukraine


ÚKRAÍNA
STJÓRNSÝSLA

.

.

Utanríkisrnt.

Úkraína er sjálfstætt lýðveldi eins og segir í yfirlýsingunni í ágúst 1991.  Þegnar landsins staðfestu hana í þjóðaratkvæðagreiðslu í desember sama ár.  Ný stjórnarskrá var ekki samin og hin gamla frá 1978 er enn þá í gildi.  Stjórnkerfið er að mörgu leyti enn byggt á gamla Sovétmunstrinu.  Mjög hæg þróun frá kommúnismanum er samstiga hægri efnahagsþróun.

Forsetinn er æðsti maður landsins.  Hann er kosinn í almennum kosningum.  Forsætisráðherra skipar ráðherra í ríkisstjórn.  Hann veitti framkvæmdavaldinu forstöðu en Úkraínumenn hölluðu sér síðan að kerfi forsetalýðveldanna BNA, Frakklands og Rússlands, þar sem forsetar landsins hafa miklu meiri völd.

Þingið, Æðstaráðið, með 450 þingmönnum byggist á fyrrum „Supreme Soviet”.  Þingmenn eru kosnir í almennum kosningum til fjögurra ára í senn.  Æðstaráðið deildi við forsetann um valdadreifinguna.  Unnið var að breytingum stjórnarskrárinnar og gert ráð fyrir, að þingið starfaði í tveimur deildum.

Hæstiréttur er æðsta dómstig Úkraínu.  Þar starfa fimm dómarar, sem þingið velur til fimm ára í senn.  Héraðsdómar eru skipaðir dómurum, sem eru kosnir í almennum kosningum.

Fyrrum kommúnistar og bandamenn þeirra standa framarlega flokkakerfi landsins og náðu völdum eftir fyrstu frjálsu kosningarnar í landinu árið 1994.  Helztu stjórnmálaflokkarnir voru þá Kommúnistaflokkurinn, Bændaflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Umbótaflokkur alþýðu og Rukh.  Auk þessara stóru flokka bauð fjöldi smærri flokka fram og fengu kosna fulltrúa á þing.

Úkraínumenn eru herskyldir í 18 mánuði.  Snemma á tíunda áratugnum voru 217.000 manns í landhernum.  Sjóherinn taldi 40.000 og flugherinn 171.000.  Sameiginleg stjórn hertækja og herstöðva fyrrum Sovétríkjanna með Rússum hefur valdið deilum síðan landið fékk sjálfstæði.

Árið 2004 fóru fram sögulegar forsetakosningar í landinu.  Kosningasvik leiddu til endurtekinna kosninga í desember.  Þeim lauk með sigri frambjóðandans, sem varð undir í hinum fyrri.  Talið er víst að einnig hafi verið eitrað fyrir honum í fyrri kosninabaráttunni, þannig að hann afmyndaðist í andliti (díoxín).

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM