L'viv
er höfuðborg samnefnds héraðs í Úkraínu. Hún mikilvæg miðstöð samgangna,
iðnaðar (rafeindatæki, farartæki, landbúnaðarvélar, efnavara, vefnaður
og matvæli) og menningar. Þar er Frankoháskólinn (1661), nokkur leikhús
og söfn. Erkibiskupar rómversk-katólskra og rétttrúaðra (úkrainskra og
armenskra) sitja í borginni og þar eru tvær kirkjur frá 14. öld.
L’viv
var stofnuð 1256 og varð brátt talsverð viðskiptaborg. Pólverjar náðu henni 1340 og héldu henni allt til 1772, þegar Austurríkismenn gerðu
hana að höfuðborg Galisíu. Miklir bardagar geisuðu á borgarsvæðinu
í
fyrri heimsstyrjöldinni og í kjölfarið (1919) varð hún pólsk. Sovézkar
hersveitir tóku hana 1939 í upphafi síðari heimstyrjaldarinnar en síðar
hersátu Þjóðverjar hana (1941-44). Árið 1945 létu Pólverjar hana af
hendi til Sovétmanna og hún varð hluti af Úkraínu. Þá var hún skírð
Lvov en árið 1991, þegar Úkraína varð sjálfstætt ríki, fékk hún
núverandi nafn. Áætlaður íbúafjöldi árið 1991 var 802 þúsund. |