Úkraína
var háiðnvætt land. Iðnaðurinn stóð undir rúmlega 40% af
þjóðarframleiðslunni og nýtti u.þ.b. fjórðung vinnuaflsins. Landið var
fjórði stærsti framleiðandi stáls í heiminum. Eftir hrun kommúnismans
og Sovétríkjanna kom í ljós að samkeppnisgeta landsins var takmörkuð
vegna Innri viðskipta í austurblokkinni. Verðbólga hljóp upp úr öllu
valdi (1445% árið 1992). Nokkurn tíma tók að hefja efnahagslegar
umbætur á tíunda áratugnum. Verðstöðvun á matvælum, samgöngum og
annarri þjónustu var numin úr gildi í janúar 1993 og verðlag hélzt lágt
miðað við nágrannalöndin. Stjórnin gaf út einkavæðingarskírteini og
gerði borgina L’viv að módeli fyrir einkavæðinguna. Gefinn var út nýr
bráðabirgðagjaldmiðill, karbovanet, og áætlanir um útgáfu varanlega
gjaldmiðilsins, hryvnia, voru gerðar. Á síðari helmingi 1993 hrundu
umbótaáætlanirnar. Einkavæðingin dróst á langinn vegna andstöðu
embættismanna og getuleysis þeirra til að hrinda áætlununum í framkvæmd,
þannig að 95% ríkiseigna voru óseld. Ríkisstjórnin greip þá til beinna
aðgerða og afskipta og verðstöðvun var komið á aftur. Landið gerðist
aðili að CIS (Commonwealth of Independent States) árið 1993 til að
tengja efnahagslífið við önnur fyrrum Sovétlýðveldi og bæta það. Árið
1992 var verg þjóðarframleiðsla Úkraínu US$ 86,8 miljarðar (1.670.- US$
á mann). Fjárlög ársins 1995 námu US$ 16,2 miljarðar í tekjur og 18,5
miðjarðar í gjöld.
Landbúnaðurinn nemur u.þ.b. 30% af þjóðarframleiðslu og 25% af vinnuafli.
Meðal fjölda afurða, sem landið flytur út, eru hveiti og sykurrófur.
Hvergi annars staðar í heiminum er meira ræktað af sykurrófum. Mikið er
ræktað af kartöflum, grænmeti, ávöxtum, sólblómum og hör. Kvikfjárrækt
er einnig mikilvæg. Landbúnaðarframleiðslunni hnignaði mjög eftir að
landið varð sjálfstætt og neyzla innanlands minnkaði. Rekstur
samyrkjubúanna, sem var haldið áfram, var dragbítur á framfarir og
framleiðslu. Á fyrstu árum tíunda áratugarins var ársframleiðsla
sykurrófna 38,6 miljónir rúmmetra, 20,4 miljónir af kartöflum, 19,5
miljónir af hveiti og 2,1 miljón af sólblómafræjum. Á sama tíma var
fjöldi nautgripa 7,9 miljónir, svína 2,7 miljónir og sauðfjár og geita
2,3 miljónir.
Timburframleiðslan nam á þessum árum 8,9 miljónum rúmmetra. Fiskimið
landins í Svartahafi og Azovhafi eru mjög menguð vegna notkunar kemískra
efna í landbúnaði. Veiði í fljótum og ám er mikilvæg atvinnugrein.
Árlegur heildarafli landsmanna nam 1,3 miljónum tonna.
Undirstöður
iðnaðarins í landinu og framtíðargrózku efnahagslífsins hvíla að mestu á
gríðarlegum náttúruauðæfum í jörðu. Stærstu hindranirí vegi
nauðsynlegrar þróunar er stjórnkerfið, sem á rætur í gömla
Sovétlýðveldinu, og lamandi verkföll, sem draga úr framleiðslu. Árleg
kolavinnsla úr námunum nam 133,6 miljónum rúmmetra, 75,7 miljónum af
járngrýti og 5,8 miljónum af mangan.
Helztu
iðnaðarsvæði landsins eru í Donetslægðinni í grennd við námurnar.
Fyrrum framleiddu þau þriðjung járns og stáls og efnavöru í
Sovétríkjunum. Nýting og uppbygging iðnaðar á öðrum svæðum fór hægt af
stað en var spor í áttina að styrkingu efnahagslífsins, því gömlu
verksmiðjurnar voru löngu úreltar miðað við vestrænan iðnað og því ekki
samkeppnishæfar. Þær fengu ómælda ríkisstyrki og niðurgreiðslur, sem
ríkið hefur ekki efni á að halda áfram. Helztu framleiðsluvörur
landsins eru járn og stál, þungavélar, efnavörur, flutningatæki,
vefnaðarvörur og matvæli.
Kol og
kjarnorka eru undirstöður rafmagnsframleiðslu (30% hvort).
Innflutningur olíu og náttúrugass frá öðrum fyrrum Sovétlýðveldum er
verulegur og verðlagið hækkaði verulega á tíunda áratugnum. Á þessum
tíma dró nokkuð úr innlendri orkuframleiðslu og landið varð háðara
innflutningi hennar. Þessi rafmagnsskortur neyddi ríkið til að halda
fimm óöruggum kjarnorkuverum gangandi. Meðal þeirra var Chernobylverið,
þar sem hörmulegt slys varð árið 1986. Árleg raforkuframleiðsla upp úr
1990 nam 252,6 miljarðum kílóvattstunda.
Gjaldmiðill landsins er karbovanets síðan hann var tekinn í notkun í
nóvember 1992 í stað rússnesku rúblunnar. Hann var til bráðabirgða, þar
til hryvna yrði tekin í notkun. Eftir útgáfuna rauk verðbólgan upp úr
öllu valdi og frekari áætlanir um hafa verið lagðar á hilluna, unz
tekizt hefur að koma efnahagslífinu á sporið á ný. Seðlabanki landsins
var stofnaður 1991.
Járnbrautakerfi landsins er u.þ.b. 22.800 km langt, u.þ.b. fjórðungur
rafvæddur, og það er mikið notað til flutninga frá námunum til
verksmiðjanna og frá þeim til kaupenda framleiðslunnar. Vegakerfið er
167.800 km langt. Talsverðir flutningar fara fram um Svartahaf Azovshaf
og vatnaleiðir innanlands og árnar Dóná, Bug og Dnepr. Helztu
hafnarborgirnar eru Odesa, Kerch’ og Mariupol’. Áætlanir eru uppi um að
breyta fljótinu Dnepr í hafskipaleið. Helzti alþjóðaflugvöllurinn er
við Kænugarð (Kiev) og ríkisflugfélagið er Avialinie.
Snemma
á tíunda áratugnum nam dreifing dagblaða 26,8 miljónum eintaka. Stærstu
dagblaðið er Vechernyi Kyiv. Rannsóknarblaðamennsku var um tíma mætt
með hótunum og morðum rússnesku mafíunnar. Ríkisútvarp og sjónvarp eru
rekin auk nokkurra einkarekinna útvarps- og sjónvarpsstöðva. Á fyrri
hluta tíunda áratugarins voru 6,9 miljón símar í landinu, 14,5 miljón
útvörp og 17 miljónir sjónvarpstækja. |