Chernobyl’ er borg í Miðnorður-Úkraínu, u.þ.b. 130 km norðan Kænugarðs
(Kiev) og 20 km frá kjarnorkuveri. Einn kjarnakljúfa þess bilaði með
hörmulegum afleiðingum 26. apríl 1986. Þetta var alvarlegasta slys af
þessu tagi, sem gerzt hafði í heiminum. Ástæður þess voru raktar til
ábyrgðalausrar tilraunar með kælikerfi kjarnakljúfsins. Kælikerfinu var
lokað, þannig að kjarninn hitnaði um of og olli gufusprengingu, sem
tætti sundur hlífarnar og geislavirkt efni fór í miklu magni út í
andrúmsloftið. Partur af því dreifðist yfir Norður-Evrópu, alla leið
til Bretlands. Samkvæmt tilkynningum frá Sovétríkjunum fórust 31 manns
í sprengingunni. Ekki er ljóst enn þá (2003), hve margir hafa látizt
vegna geislavirkninnar. Rúmlega 100 þúsund manns voru fluttir af
svæðinu umhverfis kjarnorkuverið. Borgin Chernobyl’ og mörg þorp í
nágrenni þess hafa verið óbyggð síðan. Stjórnendur kjarnorkuversins
voru dregnir fyrir dóm 1987 og sex þeirra voru sendir í vinnubúðir.
Þrír kjarnakljúfar orkuversins voru farnir að framleiða rafmagn sama ár
og svæðið næst því var gert að þjóðgarði. Árið 1991 lofuðu stjórnvöld í
Úkraínu að loka verinu en eftirspurn eftir rafmagni olli töfum á því.
Um mitt ár 1994 gerðu vestræn ríki ráðstafanir til að styrkja Úkraínu
nægilega til að hægt væri að loka þessu óörugga kjarnorkuveri. |