Túrkmenistan stjórnsýsla,
Flag of Turkmenistan


TÚRKMENISTAN
STJÓRNSÝSLA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Stjórnkerfi Túrkmenistans er hið fornlegasta og líkist áfram því, sem tíðkaðist í fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna áður en aðalritari Kommúnistaflokks Sovétríkjanna, Mikhail Gorbachev (1985-91), var við lýði.  Allar ákvarðanir eru í höndum forsetans, Saparmurad Niyazov (1985-), fyrrum félaga í sovézka kommúnistaflokknum (Politburo) og eina forseta Sovétlýðveldanna í Mið-Asíu, sem var í embætti, þegar Gorbachev varð aðalritari flokksins 1985.  Æðsta valdastofnun Túrkmenistans er allsherjarþingið, Khalk Maslakhaty, sem kemur saman a.m.k. einu sinni á ári.  Mejlis, lögrétta landsins, tilkynnir ný lög eða breytingar í fjarveru þingsins.  Í lögréttu sitja 50 þingmenn, sem kosnir eru til fimm ára í senn.  Ráðherrar ríkistjórna, sem bera í orði kveðju ábyrgð gagnvart þinginu, eru undir stjórn forsetans.

Í raun og veru hefur forsetinn, Niyazov, alræðisvald.  Eftir hrun Sovétríkjanna 1991, kom hann til leiðar, að Kommúnistaflokkur Túrkmenistans yrði endurskírður Demókrataflokkur Túrkmenistans, annar tveggja löglegra flokka landsins.  Hinn er Réttlætisflokkur bænda, sem á að heita að vera stjórnarandstöðuflokkur, en er yfirlýstur stuðningsflokkur forsetans og stefnu hans.  Múslimaklerkar, sem ríkið hefur í vasanum, styðja einnig forsetann og samþykktu kjör hans.  Árið 1992 greiddu 99½% kjósenda honum atkvæði sín, þannig að hann tryggði sig í sessi til 2002.  Samkvæmt stjórnarskránni frá 1992, hefur forsetinn völd til að leysa lögréttuna upp og reka alla dómara.  Hann er umkringdur dyggum stuðningsmönnum og götur, háskólastyrkur, samyrkjubú, fraktskip og vísindaakademía landbúnaðarins var nefnd eftir honum.  Pólitískt frelsi er ekki til, mótmælendum er haldið í skefjum og ritfrelsi var numið brott úr stjórnarskránni.  Túrkmenistan er í CIS (Commonwealth of Independent States), þótt stjórnarhættir landsins geti ekki fallið undir skilgreiningu slíkra samtaka.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM