Landbúnaður er undirstöðuatvinnugrein í
Tadjikistan (40% af vergri þjóðarframl. og þriðjungur vinnuafls).
Helzta uppskera hans er baðmull, sem er ræktuð á áveitusvæðum allranyrzt
og í suðausturhlutanum, grænmeti, kartöflur og ávextir. Nautgripa- og
sauðfjárrækt er einnig mikil.
Helztu
verðmæti í jörð eru kol, blý, sínk, járngrýti, olía, náttúrugas og
antimony. Gullbirgðirnar eru verulegar og silfurbirgðir eru meðal hinna
mestu í heimi. Veruleg iðnvæðing hófst á fjórða áratugnum og talsvert
er framleitt af baðmull, silki, vefnaðarvöru, áburði, skóm, víni og
teppum. Tadjikistan framleiðir einnig mikið af raforku, sem er að hluta
nýtt til framleiðslu áls. Frekari nýting vatnsorkunnar er fyrirhuguð en
henni varð að fresta í borgarastyrjöldinni (1992).
Borgarastyrjöldin olli mikilli hnignun efnahagslífsins. Það hrapaði um
35% á árunum 1992-93. Atvinnuleysi fór upp í 13% á þessum árum og halli
fjárlaga nam u.þ.b. helmingi vergrar þjóðarframleiðslu. Yfirvöld fóru
sér hægt í markaðsvæðingu eftir styrjöldina, þannig að um aldamótin var
einungis búið að einkavæða 5% ríkiseigna. Brottflutningur fjölda Rússa,
gyðinga og starfsmenntaðs fólks kom í kjölfar efnahagslægðarinnar og
kann að hafa varanleg áhrif. Tjón á samgöngukerfi landsins í
styrjöldinni (járnbrautir, vegir o.þ.h.) olli m.a. lokun álversins í
Tursunzade, vestan Dushanbe. Nýja, rússneska rúblan (1993) er
gjaldmiðill landsins. |