Kazakhstan sagan,
Flag of Kazakhstan


KAZAKHSTAN
SAGAN
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Tyrkneskir ættbálkar komu sér fyrir á kazanska svæðinu frá 8. öld.  Á 13. öld komu mongólar undir forystu Genghis Khan og lögðu það undir sig.  Kazakar, blanda tyrkja og mongóla, komu fram á 15. öld.  Rússar fóru að sækja fram á þessu svæði á 16. öld, þegar kósakkar settust að við Úralána í vesturhluta landsins.  Í lok 17. aldar voru komin á opinber samskipti milli keisarastjórnarinnar í Rússlandi og kósakkanna, sem gættu landamæra ríkisins í skiptum fyrir lönd og heimastjórn.  Á 18. öld var stofnuð byggð kósakka og virki byggð á steppunum meðfram norðurlandamærunum til að verjast kazöskum ræningjahópum og öðrum hirðingjum.  Þessi tilhögun hélzt í 70 ár.  Á fjórða áratugi 19. aldar hóf rússneski herinn mikla sókn suður á bóginn og árið 1866 höfðu þeir náð tökum á öllu landi, sem er Kazakhstan nú.  Rússneskir og slavneskir bændur settust að á varnarsvæðum kósakka.  Á árunum 1906-14 komu að meðaltali 140 þúsund landnemar á ári á þessar slóðir en u.þ.b. fimmtungur þeirra snéri aftur til Evrópuhluta Rússlands.

Fljótlega kom til árekstra milli kazaka og nýju landnemanna og spennan jókst árið 1916, þegar stjórnin sendi út tilskipun um herkvaðningu Kazaka, sem mótmæltu með því að drepa þúsundir slavneskra bænda.  Keisarastjórnin brást við með brottrekstri u.þ.b. 300 þúsund Kazaka af löndum þeirra og fjöldi þeirra kom sér fyrir í Xinjianghéraði í Kína.  Árið 1917 hefndu rússnesku landnemarnir sín með því að drepa u.þ.b. 80 þúsund  Kazaka á leiðinni til baka frá Kína.

Sjálfstætt lýðveldi var stofnað í austurhluta Kazakhstan árið 1918 en hersveitir bolsevíka lögðu það undir sig.  Árið 1920 var núverandi Kazakhstan gert að heimastjórnarlýðveldi og árið 1936 varð það eitt Sovétríkjanna.

Síðla á þriðja áratugi 20. aldar neyddi stjórn Stalíns Kazaka til að hefja rekstur samyrkjubúa.  Þessi ráðstöfun varð til þess, að fyrri menning og lífstíll Kazaka hvarf.  Hundruð þúsunda Kazaka voru drepin eða flúðu til Kína.  Árið 1954 hleyptu sovézk stjórnvöld af stokkunum áætlun um aukna landnýtingu og framleiðslu í Vestur-Síberíu og Kazakhstan.  Þá flæddi bylgja slavneskra innflytjenda yfir Kazakhstan og slavar urðu stærsti þjóðernishópur landsins.  Kazakar náðu sér síðar á strik og urðu fjölmennastir aftur með náttúrulegri fjölgun.

Árið 1990 varð Nursultan Nazarbayev forseti landsins.  Hann var einn í framboði í fyrstu lýðræðislegu kosningunum í landinu í desember 1991 og fékk 95% atkvæða.  Síðar í sama mánuði, skökku áður en Sovétkerfið hrundi, lýsti Kazakhstan yfir sjálfstæði.  Forsetinn leyfði öllum nema rússneskum og kazöskum öfgamönnum funda-, skoðana- og ritfrelsi.  Nokkrir rússneskir kósakkar kröfðust þess, að Rússar innlimuðu norðurhluta Kazakhstan en kazaskir öfgamenn kröfðust brottrekstrar allra, sem aðhylltust ekki islam.  Forsetinn umbar alvarlega gagnrýni fjölmiðla en bannaði alla starfsemi, sem kynti undir ólgu milli kynþátta.  Hann efldi náin efnahagsleg-, hernaðarleg- og stjórnmálaleg sambönd við Rússland í andstöðu við kazaska þjóðernissinna en ágreiningur milli Rússa og Kazaka um eldflauga- og geimferðastofnunina í Baikonur allt frá stofnun lýðveldisins gerði þessi sambönd erfið.

Í marz 1994 undirrituðu bæði löndin samning um afnot og stjórn Baikonur næstu 20 árin gegn greiðslu 115 miljóna Bandaríkjadala á ári.  Fyrir aldamótin 2000 var hluti lang- og skammdrægra kjarnorkuflauga gömlu Sovétríkjanna enn þá í skotstöðu í Kazakhstan.  Samkvæmt samningi áttu Kazakar að gera þær óvirkar og eyða þeim eða senda til Rússlands fyrir 1999.  Bandaríkjamenn þrefölduðu efnahagsaðstoð sína til Kazakhstan í febrúar 1994 til að liðka fyrir framkvæmd þessa samnings og bæta efnahag landsins.  Almennar kosningar fóru fram í marz 1994 til að kjósa nýtt þing í stað hins gamla Sovétþings, sem sat enn.  Stuðningsmenn forsetans fengu a.m.k. tvo þriðjunga þingsætanna.  Í marz 1995 leysti Nazarbayev þingið upp eftir að stjórnarskrárdómstóllinn lýsti þingkosningarnar ólöglegar og uppreisnarsinnaðir þingmenn reyndu að koma upp annarri löggjafarsamkundu.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM