Hvíta Rússland sagan,


HVÍTA RÚSSLAND
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landsvæði Hvíta-Rússlands á sér langa byggðasögu.  Forleifafræðingar hafa fært sönnur á búsetu þar á frum- og nýsteinöld.  Þetta svæði var meðal hinna fyrstu, sem slavar námu á 6. – 8. öld.  Fyrstu slavnesku ættbálkarnir, dregovichi, radimichi, krivichi og drevlyane, höfðu þegar þróað furstadæmi, s.s. Pinsk, Turaw, Polatsk, Slutsk og Minsk, á 8. – 9. öld.  Þau voru öll undir yfirstjórn Kænugarðs-Rus, sem var fyrsta slavneska ríkið, sem var stofnað um miðja 9. öld.  Efnahagur svæðisins var byggður á frumstæðri skiptiræktun á ruddum og brenndum ökrum, hungangssöfnun og skinnaveiðum.  Verzlun þróaðist meðfram ánum, einkum Dnepr, sem var hluti af samgöngukerfinu frá Konstantínópel og Býzantíum um Kænugarð og Novgorod til Svartahafs.  Verzlunarstöðum fjölgaði og margar núverandi borg í landinu voru stofnaðar fyrir lok 12. aldar.  Tvær fyrstu, slavnesku borgirnar, sem getið er í heimildum, polatsk og Turaw, koma fram árin 862 og 980.  Brest (fyrrum Brest-Litovsk) var fyrst getið árið 1017 og Minsk 1067.

Yfirráð Litháa og Pólverja.  Ríkið Kænugarður-Rus tvístraðist eftir innrás mongóla árið 1240.  Margar borgir voru lagðar í eyði og komust undir yfirráð Gullhjarðarveldisins.  Næstu 150 árin stækkaði stórhertogadæmið Litháen og náði loks yfir mestallt Hvíta-Rússland.  Undir stjórn þess héldu flest svæði þessi verulegri sjálfstjórn.  Á 13. og 14. öld stækkaði ríki Litháa og innlimaði borgina Smolensk og svæðin austar í grennd við Moskvu og í suðurátt að Kænugarði og að Svartahafi.  Á valdatíma Litháa fór tungumál og þjóðerni Hvítrússa að fá á sig mynd.

Persónutengsl komust á milli Litháen og Póllands á dögum Jagiellonættarinnar árið 1386, þegar Jogaila (pólska:  Wladislaw II Jagiel Io) stórhertogi kvæntist Jadwiga drottningu Póllands.  Rómversk-katólska varð að ríkistrú í stórhertogadæminu Litháen en flestir bændur héldu sig við rétttrúnaðarkirkjuna.  Með vaxandi veldi Moskvu upphófust deilur og átök milli þess og Litháen-Póllands um lönd og áhrif.  Á 15. og 16. öld töpuðust Smolensk og austustu svæði Liháens til Rússlands, þótt Hvíta-Rússland héldist að mestu í höndum Litháens.  Þrír lagabálkar, sem kölluðust Grunnlög Liháens, kváðu á um borgaralegan rétt og eignarrétt í ríkinu á 16. öld.  árið 1557 var tekin upp framfarastefna í landbúnaði, sem byggði á þriggja akra skiptiræktun og breytingu á skyldum leiguliða og landeigenda.  Þessu kerfi var fyrst beitt á eignarlöndum krúnunnar en aðalsmenn tileinkuðu sér það fljótt.  Það var notað með litlum breytingum fram á 20. öldina.  Áhrif þess voru aðallega fækkun leiguliða, sem höfðu áður notið nokkurs ferðafrelsis milli vinnustaða, og fjölgunar ánauðugra.

Lublinsambandið (1569) sameinaði Litháen og Pólland í eitt ríki.  Litháen hélt nafni sínu og lögum en Pólland fékk vesturhéraðið Podlasia, sem var þéttsetið pólskum landnemum og afkomendum þeirra, steppurnar og Kænugarð.  Meðal hvítrússnesku þjóðarinnar þróaðist pólskumælandi, rómversk-katólskur aðall en bændurnir voru rétttrúaðir.  Árið 1596 var gerð tilraun til að sameina katólsku rétttrúnaðarkirkjuna og rómversk-katólsku kirkjuna í ríkinu með samningunum í Brest-Litovsk með því að blanda saman viðurkenningu páfastóls og siðum og hefðum rétttrúnaðarkirkjunnar.  Hin nýja Austurkirkja komst að nokkru á, einkum meðal Hvítrússa og Úkraínumanna en var undir stöðugum þrýstingi frá keisarasinnum og síðar sovézkum yfirvöldum, sem leiddi til þess að margir létu undan og aðhylltust rétttrúnaðarkirkjuna á ný.  Stjórn pólsku landeigendanna var oft harðneskjuleg og óvinsæl og margir Hvítrússar, einkum andstæðingar Austurkirkjunnar, flúðu út á steppurnar, þar sem kósakkar bjuggu.  Kósakkar stóðu fyrir mikilli byltingu á árunum 1648-54 en lendur Hvíta-Rússlands voru áfram undir yfirráðum Pólverja þar til Katrín II hin mikla, keisaraynja í Rússlandi, var við völd (1762-96).  Efnahagsþróun var hægfara, einkum á Pripet-mýrasvæðinu.  Hvítrússar stunduðu nær eingöngu landbúnað en verzlun og viðskipti voru í höndum Pólverja og gyðinga.

Rússnesk yfirráðVið fyrstu skiptingu Póllands árið 1772 fékk Katrín mikla austurhluta núverandi Hvíta-Rússlands, þ.m.t. borgirnar Vitxyebsk, Mahilyow og Homyel.  Við aðra skiptinguna 1793 fengu Rússar Minsk og miðhluta landsins og við þriðju skiptinguna 1795 fengu þeir það, sem eftir var af landinu.

Rússar skiptu landinu í stjórnsýsluhéruð (Hrodna, Minsk, Mogilyov, Vilnia og Vitebsk) og allt fram að stofnun Sovéltlýðveldisins Hvíta-Rússlands árið 1919 var þetta landsvæði nátengt rússneskri sögu.  Napóleon fór með her sinn um Hvíta-Rússland á leið sinni til Moskvu árið 1812 og einnig á bakaleiðinni.  Einhver mesta orrusta, sem hann háði á flóttanum, var við Byarezina-ána.

Á 19. öld fóru lítil iðnfyrirtæki, byggð á innlendu hráefni, að þróast í borgum landsins.  Meðal þeirra voru timburmyllur, glergerð og bátasmíði meðfram ám.  Eftir að ánauðinni var létt af leiguliðum á sjöunda áratugi 19. aldar varð iðnvæðingin hraðari, einkum þó í tengslum við járnbrautasamgöngur, sem hófust á níunda áratugi sömu aldar.  Efnahagur landsmanna var engu að síður bágborinn og margir fluttu úr landi.  Á hálfrar aldar tímabili fyrir rússnesku byltinguna (1917), hvarf 1,5 miljón manns frá héruðunum.  Flestir hinna brottfluttu fóru til BNA eða Síberíu (rúmlega 600 þúsund fóru þangað á árunum 1896-1915).

Fyrsta tilraunin til að koma marxískum flokki á koppinn í Rússlandi var gerð í Minsk árið 1898, þegar lítið þing lagði grundvöllinn að Verkamannaflokki sósíaldemókrata.  Í fyrri heimsstyrjöldinni börðust Rússar og Þjóðverjar hart í landinu og ollu talsverðum skemmdum.  Eftir rússnesku byltinguna tók bráðabirgðastjórn við af keisarastjórninni.  Bolsévíkar steyptu henni og nýja stjórnin undirritaði hina skammlífu samninga (Brest-Litovsk) við Þjóðverja og bandamenn þeirra 3. marz 1918, þar sem Rússar gáfu eftir hluta Hvíta-Rússlands með Úkraínu og Eystrasaltslöndunum.  Þessir skilmálar voru afnumdir eftir sigur bandamanna Rússa á Vesturlöndum.


Fæðing Sovétlýðveldisins Hvíta-Rússlands Hvítrússneskir þjóðernissinnar gerðu sig breiða og byltingaróróa gætti eftir rússnesku byltinguna árið 1905, þegar bændur slógust í lið uppreisnarmanna gegn keisaraveldinu.  Fæðingarhríðir lýðveldisins hófust í fyrri heimsstyrjöldinni og héldu áfram til loka rússnesku byltingarinnar.  Árið 1918, þegar landið var að mestu hersetið Þjóðverjum, var lýst yfir stofnun sjálfstæða lýðveldisins Hvíta-Rússlands.  Eftir stríðið lýstu bolsévíkar yfir stofnun Sovétlýðveldisins Hvíta-Rússlands 1. janúar 1919.  Skömmu síðar ruddust hersveitir nýendurreists Póllands austur að Byarezinaánni en voru hraktar heim árið 1920.  Átökum milli Rússa og Pólverja lauk með samningunum í Riga (18. marz 1921), þar sem Hvíta-Rússlandi var skipt milli Póllands og Sovétríkjanna í samræmi við fyrstu skiptingu Póllands.  Sovétlýðveldið Hvíta-Rússland færðist út til austurs árið 1924, þegar Rússar bættu héruðunum Polotsk, Vitebsk, Orsha og Mogilyov, þar sem margir Hvítrússar bjuggu, við landið.  Sama gerðist með Gomel og Rechytsa árið 1926.  Hvíta-Rússland var meðal hinna fjögurra stofnlýðvelda Sovétríkjanna 30. desember 1922.  Stjórn Jóseps Stalín var andsnúin þjóðernishreyfingum í lýðveldunum og bældi þær niður með góðum árangri.  Eftir að fyrsta fimmáraáætlunin var gefin út árið 1928 var nýr iðnaður innleiddur í Minsk og öðrum stærri borgum.  Í hreinsununum á fjórða áratugnum voru margir stjórnarandstæðingar, menntamenn og aðrir í Hvíta-Rússlandi teknir af lífi.

Síðari heimsstyrjöldin.  Eftir innrás Þjóðverja í Pólland 1939 og undirritun Molotov-Ribbentrop samningsins, þar sem Stalín og Hitler lofuðu að ráðast ekki hvor á annan og skiptu Austur-Evrópu í sovézk og þýzk áhrifasvæði, réðust Rússar inn í austanvert Pólland.  Sovézkar herdeildir lögðu undir sig svæði að Bugánni og Bialystokhérað.  Vestur-hvítrússnesk svæði, sem Pólverjar fengu með Rigasamningnum urðu hvítrússnesk á ný.

Þjóðverjar ruddust yfir Hvíta-Rússland í innrásinni í Sovétríkin 1941, þótt varnarliðið í Brestvirkinu berðist lengi og hetjulega.  Margar stórar orrustur voru háðar á flótta Þjóðverja 1944 (Vitebsk, Borisov og Minsk).  Hernám og flótti Þjóðverja olli gífurlegri eyðileggingu og kostaði aragrúa mannslífa.  Í lok stríðsins afhentu Pólverjar Rússum Vestur-Hvíta-Rússland í samningum.  Pólskir íbúar þessa svæðis voru miskunnarlaust reknir til Póllands í stórum hópum.  Við stofnun Sameinuðu þjóðanna 1945 fengu Hvítrússar sæti í allsherjarráðinu, þrátt fyrir stöðu sína sem eitt Sovétlýðveldanna.  Fyrsta fimmáraáætlun eftirstríðsáranna fjallaði aðallega um endurreisnina eftir stríðið og hún stóðst að mestu.  Þá tók frekari iðnvæðing við og gekk greiðlega í stærstu borgunum.  Íbúafjöldi Minsk náði einni miljón í lok áttunda áratugarins.  Að sama skapi fækkaði íbúum margra smærri borga og þéttbýla í sveitum landsins.

Sprengingin í kjarnorkuverinu í Chernobyl í Úkraínu árið 1986 mengaði mestan hluta landsins með geislavirku úrfalli og flytja varð fólk brott af stórum svæðum með gífurlegum tilkostnaði.  Áhrifa þessa slyss gætir í menguðu landi, sem ekki verður hægt að nota um aldir, og fækkun barnsfæðinga og fæðingargöllum.


Sjálfstætt Hvíta-Rússland Hvítrússar voru rólegri í tíðinni en flest önnur Sovétlýðveldi í kjölfar frjálsræðisstefnu (glasnost) Mikhail Gorbachevs um miðjan níunda áratuginn, þrátt fyrir vaxandi fylgi þjóðernis- og aðskilnaðarsinna í landinu.  Hvítrússar lýstu yfir sjálfstæði landsins 25. ágúst 1991, þegar mestu upplausnarinnar í miðstjórn Sovétríkjanna gætti.  Þegar hún hafði leitt stjórnina til falls og hruns Sovétríkjanna eftir misheppnaða byltingartilraun gegn Gorbachev, var Sovétnafnið skorið framan af nafni lýðveldisins, og Hvíta-Rússland gerðist aðili að CIS (Commonwealth of Indipendent States; Bandalagi sjálfstæðra ríkja).  Kommúnistar sigruðu í almennum kosningum árið 1990.  Þeir frestuðu framkvæmd frjálsrar markaðsstefnu og drógu lappirnar í þrjú ár með samþykkt nýrrar stjórnarskrár (1994).  Hún kvað á um forsetakosningar, sem fóru fram í júlí 1994, þegar Alyaksandr Lukashenka var kjörinn.  Árið 1995 var aftur kosið til þings.  Kosningalög gerður ráð fyrir því, að hver frambjóðandi yrði að fá atkvæði a.m.k. 25% atkvæðabærra manna.  Niðurstaðan var sú, að kjósa þurfti fjórum sinnum þar til lögmæt niðurstaða fékkst í desember 1995, þótt enn þá vantaði 60 þingmenn á fullsetið þing.  Margir fóru í sjálfstætt framboð, þar eð tæpast var um stjórnmálaflokka að ræða, heldur ósamstæðan stuðningshóp Lukashenka, sem reyndi með öllum ráðum að tryggja sér yfirgnæfandi völd í þinginu.  Þjóðaratkvæðagreiðslan árið 1996, sem margir töldu ólöglega, veitti Lukashenka nærri óskorað vald með breytingu á stjórnarskránni og lengdi kjörtímabil hans í fimm ár.  Stjórnarandstaðan í þinginu reyndi að koma Lukashenka úr embætti með kæru um valdníðslu og afnema embætti forseta en þá staðfesti Lukashenka endurskoðaða stjórnarskrá, sem leysti þingið upp og kvað á um nýtt og valdaminna löggjafarþing án stjórnarandstöðunnar.  Tilraunir ríkisstjórnarinnar til nánari tengsla við Rússland nutu víðtækst stuðnings almennings, þótt andstöðu gætti einnig.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM