Verg
þjóðarframleiðsla Hvíta-Rússlands árið 1992 var US$ 30,2 miljarðar (US$
2.920.- á mann). Það var landbúnaðarland um aldir en iðnaðurinn er
orðin mikilvægasti atvinnuvegurinn. Landbúnaðurinn stendur undir 25%
nettóþjóðarframleiðslunnar og nýtir u.þ.b. 30% vinnuaflsins.
Kvikfjárrækt og mjólkurframleiðsla eru rúmlega helmingur framleiðslunnar
og akuryrkja er einnig mikilvæg. Mikið er ræktað af kartöflum, hör,
hveiti, sykurrófum og korni (byggi, höfrum og rúg). Stór hluti
mýrarsvæða landsins hefur verið ræstur og breytt í akra, sem eru
einhverjir hinir gjöfulustu og frjósömustu í landinu.
Í
síðari heimsstyrjöldinni var næstum allur iðnaður landsins lagður í rúst,
en hann var byggður upp á ný strax eftir stríð. Um aldamótin 2000 stóð
hann undir helmingi nettóþjóðarframleiðslunnar og nýtti u.þ.b. 30%
vinnuaflsins. Verksmiðjur landsins framleiða m.a. vélknúin ökutæki,
efnavöru, timburvöru, vélbúnað og neyzluvörur (sjónvarpstæki og reiðhjól).
Einnig er talsvert framleitt af hördúk, ullardúk og baðmullardúk. Í
landinu eru miklar birgðir mós, sem er notaður til orkuframleiðslu fyrir
iðnaðinn. Vega- og járnbrautakerfi landsins eru stór í sniðum og árnar
Dnepr-Bug eru tengdar skipaskurðum, þannig að hægt er að sigla milli
Eystrasalts og Svartahafs.
Iðnaðnum hnignaði minna í landinu en öðrum fyrrum Sovétlýðveldanna á
tíunda áratugnum. Efnahagurinn leið fyrir glataða markaði og stöðugt
hækkandi verðlags á olíu og hráefnum frá Rússlandi. Árið 1993 seig
hraðar á ógæfuhliðina, þegar verðbólgan fór yfir 25% og verg
þjóðarframleiðsla minnkaði um 14%. Þetta ástand jók pólitískan þrýsting
þeirra, sem vildu efnahagsbandalag við Rússland. Í apríl 1994 var
undirritaður samningur um gjaldmiðilsbandalag við Rússland ásamt
tilslökunum í viðskipta- og tollamálum. Síðan hafa rúblur verið
gjaldmilill landsins.
Áætlanir um uppbyggingu kjarnorkuvera til að draga úr orkuinnflutningi
voru í smíðum í kringum aldamótin 2000. Hvíta-Rússland varð verst fyrir
barðinu á geislavirkninni vegna Chernobylslyssins árið 1986 í
nágrannaríkinu Úkraínu. |