Medesþjóðflokkurinn settist að á Azerbaijan-svæðinu í kringum 8. öld f.Kr., og
síðar varð þetta land hluti Persaveldis. Mikill styr stóð lengi um
svæðið og síðla á 7. öld lögðu arabar það undir sig og breiddu út
trú sína og menningu. Tyrkneskir ættbálkar stjórnuðu því á 11. og 12.
öld. Persar náðu aftur yfirhendinni á 17. öld. Þeir létu Rússum landið
eftir í samningum 1813 og 1828. Í kjölfar rússnesku byltingarinnar
(1917) varð Azerbaijdzhan sjálfstætt ríki. Sovétríkin innlimuðu það
árið 1920 auk Georgíu og Armeníu sem Transkákasuslýðveldið (SFSR).
Þegar því var skipt árið 1936 varð landið að sérstöku lýðveldi í
Sovétríkjunum. Landið varð sjálfstætt eftir hrun Sovétríkjanna 1991.
Azerar gerðust meðlimir Sameinuðu þjóðanna árið 1992.
Fyrstu
árin einkenndust af stjórmálaóreiðu og stjórnarskráin var lítt í heiðri
höfð á mörgum sviðum. Ayaz Mutalibov, forseti, (1990-92) neyddist til
að segja af sér í marz 1992 eftir að mörg hundurð Azerar féllu fyrir
herjum Armena í Nagorno-Karabakh, sem Armenar kröfðust. Yagub Mamedow,
bráðabirgðaforseti 1992, réði ekki við ástandið. Þjóðarhreyfingin (APF)
reyndi að steypa stjórnum landshlutanna og Mutalibov reyndi að tryggja
sér völdin á ný án árangurs. Þjóðarflokkurinn náði völdum með stuðningi
hersins í tiltölulega átakalítilli hallarbyltingu í maí 1992. Nýtt
þjóðarráð leysti upp þingið (Mejlis). Í júní 1992 var Abul’faz Elchibey,
formaður Þjóðarflokksins (APF) kosinn forseti í almennum kosningum með
55% atkvæða. Hann átti ekki löngum vinsældum að fagna, því hann réði
ekki við efnahagsástandið og gat ekki bundið endi á styrjöldina í
Nagorno-Karabakh. Hann varð fyrir a.m.k. einni morðárás. Þrýstingurinn
á hann jókst, þegar hann reyndi að afvopna uppreisnarmenn í hernum í
Gäncä í júní 1993.
Surat
Huseinov, ofursti og foringi uppreisnarmanna, fór með her sinn til Baku
og tók völdin, þrátt fyrir mótmæli og ákall Elchibey, sem flúði til
Nakhichevan. Geidar Aliyv, 71 árs leiðtogi kommúnista, fyrrum
liðsforningi í KGB og þáverandi forseti þjóðarráðsins, var skipaður
forseti landsins. Elchibey var felldur úr embætti í
þjóðaratkvæðagreiðslu og í október 1993 var Aliyev kosinn forseti.
Þjóðarráðið skipaði Huseinov forsætisráðherra og fól honum að
skipuleggja hernaðaraðgerðirnar í Nagorno-Karabakh. Sigrar Armena gerðu
báðum þessum leiðtogum erfitt fyrir í upphafi ferils þeirra. Í marz
1995 tókst Aliyev að bæla niður hallarbyltingu og lýsti yfir
neyðarástandi eftir fyrri tilraun í október 1994. Allir
stjórnarandstöðuflokkar voru bannaðir í marz 1995. |