Azerbaijan er fjölmennast ríkja Transkákasussvæðisins (rúmlega
9 miljónir árið 2010). Lífslíkur árið 1991 voru 68 ár. Íbúarnir eru af
mörgum þjóðernum en þjóðin er að verða einsleitari. Azerum, sem hafa
lengst af talið 80% þjóðarinnar, hefur fjölgað eftir að átökin við
Armena vegna Nagorno-Karabakh hófust árið 1990. Fjöldi azerskra
flóttamanna hefur komið frá Armeníu og margir Rússar, Armenar og fólk af
öðrum þjóðernum hefur
farið úr landi. Árið 1989 töldust Armenar í Azerbaijdzhan 6%
þjóðarinnar og bjuggu langflestir í Nagorno-Karabakh. Meðal annarra
þjóðerna í landinu voru og eru lezginar, kúrdar, talysh, tartarar,
Georgíumenn, Úkraínar og avarar. Flest þjóðernin hafa búið í landinu um
aldir, þótt slavar hafi flætt yfir það í iðnbyltingunni á 19. öld.
Lezginar, kúrdar og talysh, sem búa aðallega í norður-, austur- og
suðurhlutum landsins, hafa rekið áróður fyrir auknu sjálfstæði.
Þéttbýlismyndun er mun skemmra á veg kominn í Azerbaijdzhan en hinum
Transkákasuslöndunum (hin eru Georgía og Armenía). Um miðjan tíunda
áratuginn bjuggu 55% íbúanna í þéttbýli. Höfuðborgin Baku er stærst
borga landsins (tæplega 1,1 miljón árið 1991). Aðrar stórar borgir eru
Gäncä, fyrrum Kirovabad (282 þús.), og Sumqayit (236 þús.). Að
meðaltali bjuggu (1991) 84 manns á hverjum ferkílómetra.
Opinbert tungumál landsmanna er azerska, tyrknesk tunga af
Úral-Altaí-stofni. Rússneska er einnig útbreidd, þótt æ færri noti hana.
Hefðbundin trúarbrögð eru islam (shítar), sem gengu í endurnýjun lífdaga
í kringum aldamótin 2000. Rétttrúnaðarkirkjan á ítök meðal Georgíumanna,
Armena og slava. |