Borgin Vanadzor í
Norður-Armeníu hét Karaklis til 1935 og Kirovakan til 1993. Hún
er við ármót Pambak, Tandzut og Vanadsoriget. Árið 1826
sameinuðust þorpin Bolshoy og Maly Karaklis og fengu nafnið Karaklis,
sem síðar var breytt í Kirovakan til heiðurs sovézka embættismanninum
Sergey Kirov. Nafnið Vanadzor var tekið upp árið 1993 eftir að
Armenía hafði fengið sjálfstæði frá fyrrum Sovétríkjunum.
Efnaiðnaður borgarinnar (karbítur, ammonía, plast o.fl.) fær rafmagn frá raforkuveri í
grenndinni. Önnur framleiðsla borgarinnar er nákvæmnistæki,
vélbúnaður í efnaverskmiðjur, vefnaðarvörur og matvæli.
Jarðskjálftarnir árið 1988 lögðu borgina að mestu í rústir.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1989 var rúmlega 74 þúsund. |