Heildarflatarmál Armeníu er 29.800 km2 á norðaustanverðri
Armensku sléttunni, sem er geysistór háslétta alla leið suður að
Vanvatni í Tyrklandi. Landslagseinkenni eru fjöll og hálendi.
Meðalhæð landsins yfir sjó er í kringum 1800 m. Aragatsfjall (4090m)
rís hæst. Meðal fjallgarða eru Pambak, Gegam, Vardenis og Zangezur,
sem eru angar út úr Lægri-Kákasusfjöllum. Úrkoma er mjög mismikil
eftir landshlutum og mest í fjallshlíðum. Þurrasta svæði landsins er
meðfram Arasánni, þar sem meðalársúrkoma er innan við 300 mm.
Þéttriðið net lækja og áa kvíslast um Aras-Kura árlægðina. Vegna
þess, hve landið er fjöllótt, er þar fjöldi fossa og flúða. Uppi í
fjöllum er fjöldi stöðuvatna. Hið stærsta er Sevanvatn, sem nálgast
að vera 90% vatnsbirgða landsins. Loftslag, jarðvegur og gróður er
mismunandi eftir landshlutum. Jarðvegstegundir eru tvöfalt fleiri en
í Evrópuhluta Rússlands. Flóran skiptist aðallega í háfjalla-,
hálfeyðimerkur- og steppugróður, þótt talsvert sé um beyki- og
eikarskóga í norðausturhluta landsins. Meðal villtra dýra má telja
villisvín, sjakala, gaupur og sýrlenzka birni. |