Armenía efnahagsmál,
[Armenia]


ARMENÍA
EFNAHAGSMÁL

.

.

Utanríkisrnt.

Armenía er mjög iðnvætt ríki, þannig að 46,3% af nettóþjóðarframleiðslu byggðist á iðnaði árið 1992 og árið 1990 voru 41% vinnuaflsins bundin í iðnaði og byggingastarfsemi.  Iðnaður var jafnvel meiri en námuvinnsla (gull, kopar, sink og silfur).  Rafmótorar, vélaverkfæri og efnavörur (gervigúmmí) eru helztu framleiðsluvörurnar.  Iðnaðurinn varð illa úti vegna viðskiptabanns Azerbaijans árið 1991.  Afleiðingarnar voru m.a. skortur á gasi og olíu.  Árið 1994 var ákveðið að endurræsa orkuverið við Mdedzamor, eina kjarnorkuverið á Transkákasussvæðinu, til að hamla gegn orkuskortinum.  Verinu var lokað í kjölfar jarðskjálftanna 1988, þótt það hefði ekki skemmzt.  Ríkisstjórn Azerbaijan mótmælti þessari áætlun af ótta við að kjarnorkuverið yrði notað til framleiðslu kjarnorkuvopna.

Landbúnaður er næstmikilvægasta atvinnugreinin og stóð undir u.þ.b. fjórðungi nettóþjóðarframleiðslunnar árið 1991 og næsta ár undir 40%.  Landbúnaðurinn nýtti u.þ.b. 19% vinnuaflsins árið 1990.  Helztu framleiðsluvörur hans eru hveiti, kartöflur, tóbak, grænmeti, vínber og aðrir ávextir.  Ræktunin byggist að mestu leyti á áveitum, einkum á svæðum í grennd við Arasána í suðurhluta landsins.  Matvælaframleiðslan er ekki nægileg fyrir innanlandsmarkaðinn, svo að mikið er flutt inn.  Á Sovéttímanum fluttu Armenar u.þ.b. 60% af kornvöru inn og næstum tvo þriðjunga af mjólkurvörum.  Viðskiptabann Azerbaijan og borgarastyrjöldin í Georgíu ollu skorti á matvöru en framleiðsla landbúnaðarafurða jókst verulega á fyrri hluta tíunda áratugarins samtímis samdrætti í framleiðslu iðnvöru.  Framleiðsluaukningu landbúnaðarvöru má að mestu leyti rekja til einkavæðingarinnar, sem hófst 1991.

Eftir aðskilnaðinn frá Sovétríkjunum héldu Armenar áfram að nota rúbluna sem gjaldmiðil.  Um mitt ár 1993 neitaði seðlabanki Rússlands að taka við rúblum, sem voru prentaðar fyrir 1993.  Þessi aðgerð olli miklu streymi rúblna til Armeníu og annarra fyrrum Sovétlýðvelda, sem notuðu gamla gjaldmiðilinn áfram.  Rússneski seðlabankinn fylgdi þessum nýju reglum fast
eftir og Armenar neyddust til að taka upp eigin gjaldmiðil, dram, í nóvember 1993.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM