Aras-áin (Araks = armenska; Rud-e Aras = persneska; Aras
Nehri = tyrkneska; Araxes = gríska) á upptök sín sunnan
Erzurum í Bingöl Daglarifjöllum í Tyrknesku-Armeníu.
Hún streymir til austurs og myndar 441 km löng landamæri
Armeníu, Norður-Tyrklands og Írans. Handan Jolfa og
járnbrauta- og vegamóta í Íran, rennur hún um breiðan dal
yfir Mugan steppuna. Áin er 1072 km löng. Hún
sameinast Kuraánni í Azerbaijan 121 km frá ósum hennar við
Kaspíahaf. Eftir mikil flóð árið 1897 var meira vatni
beint um eina kvísl Arasárinnar til Kaspíahafs. Þar
voru grafnir miklir skurðir árið 1909.
Arasáin er straumhörð og óskipgeng og flytur mikinn aur með sér til
Kura-Aras-óshólmanna. Helztu þverár Arasárinnar eru Razkan úr
Sevanvatni og Qareh Su, sem á upptök sín í Kuhha-ye Sabalan í íranska
hluta Azerbaijan. Höfuðborg Armeníu, Artaxata (180 f.Kr. – 50
e.Kr.) stóð á eyju í ánni. Margir hafa haldið því fram, að
árdalur Aras sé hinn þjóðsagnakenndi aldingarður Eden. |