Serbía sagan,
Flag of Serbia and Montenegro


SERBÍA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

300 f.Kr.                stofnuðu Grikkir nýlendur m.a. í núverandi Cavtat og Trogir og Föníkíumenn m.a. í Budva.  Frá þessum nýlendum var rekin verzlun við illýra inni í landi.

229-228 börðust Rómverjar við illýrska sjóræningja og náðu smám saman fótfestu á allri strandlengjunni.  Via Egnatia var lagður milli Rómar og Saloniki.  Bæir eins og Pula í Ístríu, Salona í Dalmatíu, Sirmium við Sava og Bitola í Makedóníu áttu lifðu þá sitt blómaskeið.

395 e.Kr.                var Rómarveldi skipt.  Serbía, Makedónía, Svartfjallaland og meiri hluti Bosníu fell til hins Aust-rómverska ríkis og aukinna áhrifa frá Konstantínópel fór að gæta.

500-700 fluttust slavneskir þjóðflokkar frá Dnjepr-svæðinu til landsins.  Þá hurfu víðast menjar um rómverska byggð, nema með ströndum fram.

830                         stofnaði Vlastimir prins fyrsta serbneska ríkið, 'Raska', sem Búlgarar lögðu undir sig árið 917, en var Caslav prins endurreisti það síðan og stækkaði, þannig að það náði yfir Zeta, núverandi Svartfjallaland.

910                         varð Tomislav konungur í Króatíu, sem átti sitt blómaskeið á 10. og 11. öld, þar til Ungverjar náðu henni undir sig árið 1102.

976                         var fyrsta Makedóníuríkið stofnað af Samuilo keisara, en 40 árum síðar lagði Konstantínópel Serbíu og Makedóníu undir sig.

1159                       braust út uppreisn í Novi Pazar undir stjórn Stefans Nemanja (1169-96) og lauk með stórsigri uppreisnarmanna.  Stefan var af Nemanja höfðingjaættinni, sem leiddi hið serbneska miðaldaríki til mesta blómaskeiðs þess.  Sonur hans, Stefan Provencani var krýndur konungur (1194-1224) Serbíu.  Hann lýsti kirkju Serbíu sjálfstæða undir stjórn bróður síns, Rastko, sem síðar var tekinn í dýrlingatölu.
  Rastko var hinn fyrsti, sem ritaði serbo-króatísku.  Nálægt 850 voru hin helgu rit þýdd úr grísku á kýrillísku af munkinum Kyrillos, sem kom frá Grikklandi til Ohrid  Alla næstu öld uxu veldi og áhrif Serbíu undir stjórn Urosar (1243-76), Milutins (1281-1321) og reis hæst undir stjórn Dusan (1331-55), sem lagði undir sig alla Serbíu, vann Makedóníu alla leið til Saloniki og Skopje og var krýndur sar yfir Serbum og Grikkjum.  Kodex Kusans er meðal þýðingarmestu lagabálka samtíðarinnar.  Klaustur og kastalar voru reistir víða um ríkið og vitna enn þá um auðlegð og vald Serba.

1389                       var örlagaríkt ár, þegar Tyrkir gjörsigruðu serbneska herinn í orrustu á Kosovosléttunni norðan Skopje.  Tyrkirnir voru harðskeyttir og kæfðu allar tilraunir til sjálfstæðis í fæðingu.  Mörgum kirkjum og klaustrum var breytt í moskur, listaverk eyðilögð og kalkað yfir freskamyndir.  Í upphafi 15. aldar tryggðu Feneyjar sér mestan hluta Adríahafsstrandarinnar, en Tyrkir náðu Dalmatíu undir sig árið 1460.

1500-1800                höfðu öll slavnesku ríkin glatað sjálfstæði sínu.  Landið ólgaði í bændauppreisnum, sem voru allar bældar niður.  Snemma á 19.öld reyndi Napóleon að stofna ríkið Illýríu, sem naði yfir Króatíu, Slóveníu og Dalmatísku ströndina, en það tókst ekki að festa það í sessi.

1807                  brauzt út fyrsta stóra uppreisnin gegn Tyrkjum undir stjórn Karadjordje.  Eftir 9 ára stríð var hún bæld niður.  Árið 1815 stjórnaði Milos Obrenovic nýrri uppreisn, sem leiddi til sjálfstæðis hluta hins serbneska ríkis, sem varð að sjálfstæðu furstadæmi.

1855                       voru uppi fyrstu áætlanir um lagningu járnbrautar frá Belgrad suður að Adríahafi.  Fjalllendið á leiðinni var þröskuldurinn, sem þær strönduðu á, þannig að göngin (254) voru ekki grafin fyrr en á árunum 1952-1976.  Heildarlengd brautarinnar milli Blegrad og Bar er 114,5 km og hún nær upp í 1000 m hæð yfir sjó á köflum.  Mala-Rijekabrúin er 201 m há og 500 m löng og þar með hæsta járnbrautarbrú Evrópu.  Stundum verður að fella niður ferðir vegna slæmra veðurskilyrða í fjöllunum.

1878                       Sjálfstæði Svartfjallalands og Serbíu var viðurkennt á Berlínarfundinum, en Bosnía-Herzegóvína lá undir Austurríki/Ungverjaland, sem Slóvenía og Slóvenía tilheyrðu þá þegar.

1903                       stóðu Makedóníumenn að Ilinden-uppreisninni og lýstu yfir stofnun Krusevo-lýðveldisins, sem stóð aðeins í 14 daga.

1912                       Balkanstríðin leiddu til endanlegs hruns Tyrkjaveldis.

1914                       myrti serbneskur stúdent, Gravrilo Princip, ríkiserfingja Austurríkis/Ungverjalands 28. júní í Sarajevo.  Austurríki/Ungverjaland lýstu yfir stríði á hendur Serbíu og fyrri heimsstyrjöldin brauzt út. 

1918                       Eftir friðarsamningana var stofnað konungsríki Serba, Króata og Slóvena, sem hlaut viðurkenningu í Versalasamningunum.

1929                       leysti Alexander konungur upp þingið og innleiddi einræði með aðstoð hersins.

1934                       var Alesander myrtur, þegar hann dvaldi í Marseille.  Peter II tók við ófullveðja.

1941                       Spennan milli hinna sundurleitu ríkja Júgóslavíu slaknaði ekki.  Stjórnin hafði samið við möndulveldin og var hliðholl þeim.  Uppreisn var gerð, þegar hún ætlaði að undirrita samning við þau í Vín 27. marz 1941.  Þessi uppreisn var tilefni innrásar Hitlers í landið 4. júlí.  Júgóslavar veittu vopnað viðnám undir forystu Josip Bronz Tító.  Í nóvember 1943 var sett á laggirnar bráðabirgðastjórn.  Eftir frelsun Júgóslavíu yfirtók þjóðarráðið völdin, sem útlagastjórnin hafði farið með.

1945                       29. nóvember var fyrsta sambandslýðveldi alþýðunnar stofnað, sósíalískt samfélag jafnrétthás fólks.  Ný stjórnarskrá tók gildi 30. janúar 1946.

1947                       tók fyrsta fimm ára áætlunin gildi og Júgóslavía fékk Ístríu frá Ítölum, landið norðan Trieste, eyjarnar Cres og Losinj og höfnina í Zadar.

1949                       sleit Júgóslavía Kominform-sambandinu við Rússa og viðskiptasamstarfi við Sovjetríkin og önnur austantjaldsríki.  Júgóslavar sigruðust á vandamálum sínum eftir stríðið og leituðu samstarfs og styrks hjá vestrænum ríkjum.

1959                       tók gildi stjórnarskrárbreyting, sem fól í sér framleiðsluráð.  Sama ár var gerður Balkansáttmálinn við Grikki og Tyrki.

1961                       Bandalagslausu þjóðirnar héldu fyrsta fund sinn í Belgrad.

1970                       Þjóðernishreyfingar Króata voru gerðar aflvana með hreinsunum í flokksstjórn.

1971                       var gerð víðtæk breyting á grundvallarlögunum, sem leiddi af sér heildstæða stjórn, forsetaráð og endanleg útfærsla stjórnarskrárinnar tók gildi 11. janúar 1974.

1980                       féll Tító frá, 88 ára.

1983                       var Júgóslavía orðin eitt skuldugasta ríki Evrópu.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn greip inn í að kröfu skuldaeigenda og knúði stjórnvöld til að reyna að ná tökum á efnahagsmálum landsins.  Sjálfstjórnarkerfið í Júgóslavíu var þegar komið lengra á braut markaðsvæðingar en í flestum öðrum Austantjaldsríkjum en var samt sem áður allt of lokað, m.a. vegna þess, að einokun komst á laggirnar, þegar miðstýringin hvarf.  Tregða serba í markaðsvæðingu skrifast aðallega á reikning Stalínista og úreltra framleiðsluaðferða.

Serbar stóðu frammi fyrir annarri ógn, þegar hrun einokunaraðstöðu og stefnu kommúnista blasti við og frjálslyndari öfl færðu sig upp á skaftið.  Þeir eru dreifðastir um öll fyrrum lýðveldin og óttuðust, að stöðu þeirra yrði ógnað, þar sem þeir voru í minnihluta, ef fjölflokkakerfi tæki við af kommúnistaflokknum.  Albanski minnihlutinn fór þegar fram á fullgilda þátttöku í stjórn landsins eða sjálfstæði ella.  Slobodan Milosevic, fyrrum viðskiptafulltrúi,  notfærði sér þessa stöðu til að komast til valda með aðstoð kommúnistaflokksins í upphafi árs 1986.  Hann stjakaði stjórn Ivans Stambolics frá völdum með kröfu um afnám skrifræðisstjórnar.  Hann bauð áætlunum ríkisstjórnarinnar um aukið frelsi í efnahagsmálum birginn og kynnti mun hægari breytingar.  Árið 1990 breytti stjórnarskránni vegna sjálfstæðisbrölts lýðveldanna, sem urðu ekki nema nafið eitt.  Þegar Serbía neyddist til að almennar, fjölflokka kosningar í desember 1990, var kommúnistaflokkurinn skírður sósíalistaflokkur Serbíu (SPS).  Hann kom út með mikinn meirihluta á þingi (Skupstina).   Með yfirráðum yfir fjarskiptum og fjölmiðlum tókst Milosevic að koma í veg fyrir myndun stórra andstöðuflokka.

Tregða Milosevics við að innleiða fjölflokka kerfi tafði þróun í þá átt í öllum fyrrum lýðveldunum.  Þetta gerði stjórninni líka ókeift að skipuleggja breytingar í stjórnmála- og efnahagslífinu  Lýðræðislegir leiðtogar neituðu að leggja blessun sína yfir kúgunina í Kosovo.  Enn frekari árekstrar ollu síðan falli kommúnista í janúar 1990 og næstu tólf mánuði geisaði borgarastyrjöld.

Stefna serba í styrjöldinni byggðist á því að vernda sérhagsmuni lýðveldisins og jafnframt sérhópa serba í öðrum hlutum fyrrum Júgóslavíu.  Hernarðaraðgerðirnar í þessa veru voru skipulagðar með hagsmuni sósíalistaflokksins í huga.  Þegar Slóvenía og Króatía hótuðu að segja sig úr ríkjasambandinu 25. júní 1991, kom til 10 daga bardaga milli Júgóslavíuhers, sem var að mestu skipaður serbum og Svartfellingum og landvarnar- og varaliðs Slóveníu.  Júgóslavneski herinn varð að hörfa með lafandi skottið og serbar létu þar við sitja, þar sem fáir serbar bjuggu í Slóveníu.  Þeir skiptu sér ekki af sjálfstæðisyfirlýsingu Makedóníu í september 1991 af sömu sökum.  Króatía og Bosnía-Herzegóvína voru annað mál.  Þar voru serbar 14% og 31% íbúanna.  Serbía studdi þessa serba í borgarastyrjöldinni til að ná hlutum þessara lýðvelda undir sig.

Hlutar Króatíu við landamæri Bosníu og Vojvodinahéraðs voru gerðir að lýðveldinu Serbía Krajina.  Króatíska borgin Vukovar gafst upp fyrir serbum í nóvember 1991.  Í janúar 1992 var komið á vopnahléi milli serba og þjóðvarðliðs króata fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna, sem tóku við gæzlu á stríðssvæðunum.

Serbar sameinuðu nokkur svæði í  Bosníu í marz 1992 og kölluðu lýðveldið Bosníu-Herzegóvínu.  Þá brauzt út hatrammt stríð milli stuðningsmanna stjórnar Bosníu, króatískra hersveita, sem voru að reyna að efla samstöðu meðal króata og króatíska meirihlutans í Bosníu, og serbneskra aðskilnaðarsinna.  Straumur flóttamanna jókst gífurlega, þegar serbneskar sveitir hófu útrýmingu annarra þjóðerna til að ná fótfestu á blönduðum svæðum.  Bosníska höfuðborgin, Sarajevo, var umsetin serbneskum herjum frá maí 1992 til desember 1995 og íbúarnir liðu ómældar þjáningar og tjón.

Hinn 27. apríl 1992 var ný Júgóslavía stofnuð á landsvæði Serbíu og Svartfjallalands.  Höfuðborg þess varð Belgrad.  Þetta nýja ríki fékk ekki viðurkenningu alþjóðasamfélagsins í heild vegna stríðsrekstrar í öðrum fyrrum lýðveldum landsins.  Hert var á viðskiptabanni Sameinuður þjóðanna frá 1991 og það olli hraðri efnahagshnignun í þessu nýja ríki.  Milosevics tókst að sigra í kosningum í desember 1993, þrátt fyrir sívaxandi andstöðu vegna harðræðisins, sem hann hafði leitt yfir þjóðina.  Sósíalistaflokkurinn var áfram stærsti flokkurinn í þinginu og tókst að mynda ríkisstjórnir með öfgafullum þjóðernissinnum með loforðum um stuðning við sjálfstæðiskröfur minnihlutahópa serba í Króatíu og Bosníu.  Árið 1994 myndaði Milosevics stjórn með andstæðingum sínum, lýðræðisflokknum til að koma sér í mjúkinn hjá alþjóðasamfélaginu.  Hann hélt aftur af hernum, þegar króatar réðust inn á hertekin svæði Krajina sumarið 1995 og drápu eða ráku alla serba á brott.  Margir þeirra settust að í Kosovo og Vojvodina.  Serbar létu líka hjá líða að koma löndum sínum til hjálpar, þegar samtök króata og múslima (bosnía) létu til sín taka.

Uppgjöf Bosníuserba í kjölfar afturhvarfs Serbíu frá stuðningi við þá og þrýstingur Sameinuður þjóðanna neyddi þá til að undirrita samninga í Dayton í Ohio, BNA, í desember 1995.  Milosevic studdi þessa samninga og fékk þar með mörgum þáttum viðskiptabannsins aflétt.  Hann komst lengra á þessari braut 1996 með því að draga úr herstyrk serba og skila aftur hernumdu landi í Austur-Sóveníu. 

Ríkisstjórn Milosevics hóf umbætur í efnahagsmálum í janúar 1994.  Tekið var til hendinni í framleiðslu- og markaðsmálum og svarti markaðurinn gerður næstum óvirkur.  Undir niðri vann Milosevics og sósíalistaflokkurinn ljóst og leynt að því að halda völdum, þrátt fyrir yfirgnæfandi andstöðu.  Sósíalistaflokkurinn komst aftur til valda eftir kosningarnar 1996 með samvinnu við aðra flokka.  Stjórnin varð síðan að viðurkenna stórkostleg kosningasvik.  Milosevic beitti efnahagsaðgerðum, sem mögnuðu verðbólgu og glæpi og ollu pólitískri morðöldu.

Sósíalistar héldu áfram að beita pólitískum kúgunum og reyndu mjög á sambandið við Svartfellinga, sem vildu fyrir alla muni aðlagast alþjóðaviðskiptum og efnahagsmálum sem allra fyrst.

Milosevic var rekinn frá völdum sem forseti Serbíu en kom málum þannig fyrir, að hann var kosinn forseti sambandsríkisins í júli 1997.  Í stjórnarandstöðukosningum í september sama ár var Milo Djukanovic kosinn forseti Svartfjallalands.  Þingmenn Svartfellinga á sambandsþinginu urðu áhrifalausir og sambandsríkið varð nafnið eitt.

Átökin í Kosovo.  Versnandi ástand í Kosovohéraði var hættulegt viðkvæm jafnvægi innanlands og ógnaði ímynd serba á alþjóðavettvangi.  Árið 1989 hóf forsprakki Albana í Kosovo, Ibrahim Rugova, friðsamleg mótmæli gegn afnámi heimastjórnar héraðsins.  Róttækari mótmælendur en Rugova fengu byr undir báða vængi, þegar alþjóðasamfélagið neitaði að taka tillit til aðstæðna í Kosovo við samningaborðið í Dayton.  Það var víst, að breytingar á ástandinu þar myndu leiða til hernaðarátaka.  Árið 1996 kom frelsisher Kosovo fram á sjónarsviðið.  Hann gerði í fyrstu óreglulegar árásir á lögreglustöðvar og jók aðgerðir sínar hægt og bítandi, þannig að þær voru orðnar að fullvaxinni byltingu árið 1998.  Gagnaðgerðir serbnesku stjórnarinnar til að endurheimta yfirráð sín í héraðinu leiddu til hörmulegra grimmdarverka og öldu flóttamanna.  Sívaxandi áhyggjur á alþjóðavettvangi drógu ekki úr sókn serba gegn frelsishernum, sem náði hámarki í febrúar 1999.  Samningaviðræður, sem stofnað var til í Rambouillet í Frakklandi, fóru út um þúfur og þá greip NATO til loftárása á hernaðarleg skotmörk í Serbíu.  Viðbrögð serba voru þau, að reka hundruð þúsunda Albana út úr Kosovo til Albaníu, Makedóníu og Svartfjallalands.

Eftir margra vikna loftárásir og margar miðlunartilraunir Rússa og Finna samþykkti Serbíustjórn að setjast að samningaborði í júní.  Serbneskar hersveitir héldu frá Kosovo ásamt flestum serbneskum íbúum svæðisins og Albanarnir snéru til baka.

Sambandi serba og Svartfellinga hrakaði stöðugt eftir 1992 og tilraunir til að komast að samkomulagi um landamæri Svartfjallalands og Króatíu á Prevlakaskaga fóru út um þúfur vegna afskipta hagsmunaaðila í Belgrad.  Svartfellingum misbauð æ meir drottnunargirni serba í sambandsríkinu og tregðu þeirra í efnahagsumbótum.  Hernaðaraðgerðir Júgóslavíuhers í Bosníu og Króatíu urðu til þess að Svartfellingar kölluðu sinn hluta hersins heim.

Árið 1997 kom til uppgjörs, þegar sósíalíski demókrataflokkurinn í Svartfjallalandi klofnaði í hópa stuðningsmanna Milosevics og andstæðinga hans.  Gjáin breikkaði, þegar vinur og stuðningsmaður Milosevic, Momir Bulatovic, féll fyrir Milorad Djukanovic í forsetakosningum.  Djukanovic hóf strax sjálfstæðar aðgerðir og umbætur og innan árs höfðu Svartfellingar dregið sig út úr flestum áhrifastöðum innan ríkjasambandsins.  Nýi forsetinn gagnrýndi líka aðgerðir serba í Kosovo og óttaðist, að Milosevic beitti Svartfellingar þrýstingi, þegar hann væri búinn að jafna um Albana.  Þessi afstaða Djukanovic kom ekki í veg fyrir loftárásir NATO á Svartfjallaland, því að fjarskipta- og hernaðarmannvirki í Bar voru sprengd í loft upp.

Milosevic var handtekinn á heimili sínu í Belgrad 2. apríl 2001 fyrir spillingu og stríðsglæpi. Alþjóðadómstóllinn í Haag og Sameinuðu þjóðirnar krefjast framsals hans samkvæmt alþjóðalögum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM