Mekka
er borg í vesturhluta Sádi-Arabíu í Siratfjöllum inn af Rauðahafsströndinni.
Hún er helögust borga múslima.
Múhammeð, upphafsmaður islam, fæddist í Mekka og þangað snúa
allir múslimar sér fimm sinnum á dag í bænum sínum.
Allir frómir múslimar reyna að komast a.m.k. einu sinni á ævinni
í pílagrímsferð (hajj) til Mekka.
Einungis múslimum er heimilt að heimsækja borgina.
Á
20. öld voru gerðar miklar umbætur í borginni.
Svæðið umhverfis helgiskrínin var hreinsað, moskan var stækkuð,
hreinlæti og húsnæði var stórbætt og samgöngur bættar og auknar.
Nú getur Mekka tekið á móti síauknum fjölda pílagríma.
Heildarflötur borgarinnar er 26 km².
Mekka
er í 277 m hæð yfir sjó í þurrum farvegum Ibrahim-árinnar og
nokkurra þveránna. Umhverfis
eru Siratfjöllin. Meðal
tinda þeirra er Jabal Aivad (403m), Jabal Abu Qubays (370m) og Jabal
Qu’ayg’an (425m). Jabal Hira’ (639m) rís í norðaustri. Múhammeð leitaði þar einveru og innblásturs í helli
áður en hann varð spámaður. Þar
fékk hann fyrsta versið (ayat) í kóraninum.
Sunnan borgarinnar rís Jabal Thawr (755m).
Þar faldi spámaðurinn sig fyrir fólkinu í Mekka áður en
hann flutti til Medína.
Leiðin
til borgarinnar liggur um fjögur fjallaskörð.
Eitt snýr í norðaustur, til Mina, Arafat og At-Ta’if til norðvesturs
til Medína, í vestur til Jidda og í suður til Jemen (San’a’).
Borgin hefur stækkað í áttina að þessum fjallaskörðum.
Loftslagið.
Vegna tiltölulega lágrar legu sinnar er hætta á árstíðabundnum
flóðum, þótt ársúrkoman sé lítil, 130 mm á ári.
Mestur hluti hennar fellur á veturna.
Hitinn er hár allt árið og getur náð 45°C á sumrin.
Flóra
og fána. Þarna er varla
stingandi strá og sjaldgæft er að sjá villt dýr vegna hita, þurrka
og hrjóstrugs landslagsins. Þarna
finnast á strjálingi grænir runnar og akadíur.
Villikettir, úlfar, hýenur, refir, mongoose og pokarottur.
Borgarskipulag.
Al-Haram-moskan og heilagi brunnurinn Zamzam inni í henni er miðja
borgarinnar. Þéttbyggt svæðið
kringum moskuna er gamla borgin, sem teygist til norðurs og suðvesturs
og nær að fjöllunum í austri og vestri.
Aðalgöturnar eru al-Mudda’ah og Sug al-Layl til norðurs frá
moskunni og as-Sug as-Saghir til suðurs.
Borgin
hefur þanizt út meðfram vegunum að fjallaskörðunum eftir síðari
heimsstyrjöldina. Meðal nútímaíbúðarhverfa
eru al-‘Azizivah og al-Faysaliyah meðfram veginum til Mina og
az-Zahir, az-Zahra’a og Shan’ al-Mansur við veginn til Jidda og Medína.
Nýjar götu hafa verið lagðar í gömlu borginni og borgin
hefur breyzt í nútímaborg með gosbrunnum á fjórum aðaltorgum
hennar. Ferhyrnd moskan er
stór og glæsileg bygging. Hún
var stækkuð úr 29.126 m² í 160.168 m² og rúmar nú 300 þúsund
manns. Hús í nágrenni hennar hafa verið rifin, þannig að nú
er opið svæði umhverfis hana og breiðar götur með undirgöngum
fyrir gangandi vegfarendur.
Húsnæði.
Þéttbýli er mest í gömlu borginni.
Hefðbundin hús, tveggja til þriggja hæða, eru byggð úr grjóti
úr nágrenninu. Einbýlishús í nýlegum borgarhlutum eru úr steinsteypu.
Fátækrahverfi eru enn þá á nokkrum stöðum.
Þar búa einkum pílagrímar, sem hafa ílenzt.
Íbúarnir.
Þéttbýlið í borginni er mikið.
Flestir búa í gömlu borginni en íbúarnir í nýju íbúðarhverfunum
hafa meira rými. Í pílagrímamánuðnum (ramadam) er múgur manns í
borginni, flestir í gamla borgarhlutanum.
Þá koma u.þ.b. 2 milljónir pílagríma frá öðrum
landshlutum og öðrum löndum múslima.
Múslimum einum er heimil dvöl eða búseta í borginni.
Engu að síður er hún meðal mestu heimsborga, því þangað
sækir fólk úr öllum heimshornum, einkum frá islömskum löndum í
Asíu og Afríku. Víðast
býr fólk af sama þjóðerni saman í ákveðnum borgarhverfum.
Efnahagurinn.
Lítið er um ræktanlegt land og vatn og matvæli eru flutt til
borgarinnar. Grænmeti kemur daglega ferskt frá ræktunarsvæðum, sem næst
liggja (Wadi Fatimah, at-Ta’if, Bilad Ghamid og Bilad Zahran).
Önnur matvæli eru að mestu innflutt um höfnina í Jidda, 72
km til vesturs við Rauðahafið.
Iðnaður
er takmarkaður, aðallega tengdur vefnaði, húsgagnasmíði og ýmsum
áhöldum. Aðaltekjulind
borgarbúa ér verzlun og þjónusta.
Samgöngur.
Aðalþjónustugreinin
byggist á flutningi pílagríma. Þarna
er hvorki flugvöllur né járnbrautir.
Höfnin og flugvöllurinn í Jidda taka við langflestum pílagrímunum
og þaðan eru þeir fluttir í rútum og leigubílum til Mekka.
Fyrsta rútufyrirtækið í Mekka var stofnað 1979.
Þjóðvegir milli Mekka og annarra aðalborga Sádi-Arabíu og nágrannalandanna
eru með bundnu slitlagi.
Aukin
og bætt þjónusta á þessu sviði hefur leitt til fjölgunar pílagríma,
sem færa borginni góðar tekjur, en jafnframt fjölgar íbúunum stöðugt
(rúmlega 2 milljónir árið 2000).
Þeir þurfa húsnæði, mat, vatn, rafmagn, góðar samgöngur
og heilsugæzlu.
Samkvæmt
fastri áætlun um flutning pílagríma verður að flytja þá frá
Mekka til ‘Arafat, 20 km leið, snemma að morgni hins níunda dags
Dhu al-Hijjah-mánaðar. Næstu
nótt ferðast þeir til Mina, tæplega 4 km frá Mekka.
Þremur dögum síðar snúa þeir til Mekka.
Góðir vegir, nægilegur fjöldi farartækja og góð umferðarstjórnun
gerir þessa gífurlegu mannflutninga mögulega.
Stjórnsýsla.
Borgarstjórinn er emírinn í Makkah manatig idariyah, sem er
heldur uppi lögum og reglu í borginni og héraðinu.
Konungurinn skipar ermírana og þeir eru undir stjórn innanríkisráðherrans.
Borgarráðið sér um rekstur borgarinnar.
Það var fyrst stofnað eftir síðari heimsstyrjöldina og er
skipað 14 fulltrúum, sem eru kosnir af borgarbúum og fá síðan
erindisbréf frá innanríkisráðherranum, ef hann samþykkir þá.
Mekka er líka höfuðborg Makkah manatig idariyah, sem nær líka
yfir borgirnar Jidda og at-Ta’if.
Veitur.
Mekka fær drykkjarvatn frá nærliggjandi ám.
Vatnið úr lindum ‘Ayn Zubaydah, sem voru byggðar upp á 8.
öld, flæðir um göng frá Wadi Nu’man, u.þ.b. 33 km suðvestan
borgarinnar. Vatnið frá
Ayn al-‘Aziziyah fer um 100 km langar pípur frá Wadi ash-Shamiyah.
Langflest hús borgarinnar eru tengd vatns- og rafmagnsveitum.
Rafmagnið er framleitt í olíudrifnum orkuverum við veginn til
Medína.
Menntun. Drengir og stúlkur fá fría menntun frá barnaskóla til hálskóla.
Umm al-Qura-háskólinn (1979) er í Mekka auk tveggja annarra,
Madrasat Ahl al-Hadith og Sádiarabíska stofnunin fyrir æðri menntun.
Heilbrigðismál.
Heilsugæzla er frí og hæfileg.
Stundum berast sjúkdómar með pílagrímunum, þótt reynt sé
að gæta allrar varúðar og fyrirbyggjandi ráðstöfunum.
Þarna er enkum um að ræða kóleru og mænusýkingu.
Heilbrigðisyfirvöldum hefur tekizt að halda slíkum sjúkdómum
í skefjum.
Sagan.
Hin forna Mekka var vin við gömlu úlfaldaleiðina til Miðjarðarhafsins
frá Suður-Arabíu, Austur-Afríku og Suður-Asíu.
Hún var miðleiðis milli Ma’rib í suðri og Petra í norðri.
Á rómverskum og býzantískum tímum þróaðist hún í
veigamikla miðstöð viðskipta og trúarbragða.
Samkvæmt
kenningum islam byggði Abraham og sonur hans, sem hann átti með
Hagar, Ka’bah sem guðshús. Það
var pílagrímastaður í Mekka löngu áður en islam kom til sögunnar
á 7. öld. Þessi
teningslaga bygging hefur oft verið lögð í rústir en verið
endurbyggð jafnóðum. Á
tímum biblíunnar réðu nokkrir jemenskir ættbálkar borginni.
Hún varð að nokkurs konar borgríki undir stjórn Quraysh og
hafði traust viðskiptasambönd við Arabíu, Eþíópíu og Evrópu.
Mekka varð miðstöð viðskipta, ljóðahátíða og pílagrímastaður.
Trúarlegt
mikilvægi borgarinnar hófst við fæðingu Múhammeðs í kringum 570.
Spámaðurinn neyddist til að flýja borgina árið 622 en kom
aftur átta árum síðar og tók við stjórn hennar.
Hann lét fjarlægja öll skurðgoð, lýsti borgina miðstöð pílagrímaferða
og helgaði hana Allah. Allar götur síðan hefur hún verið aðaltrúarmiðstöð
múslima. Þegar umferðin
um gömlu úlfaldaleiðina minnkaði, glataði borgin viðskiptalegu
hlutverki sínu og hefur að mestu þrifizt á síauknum fjölda pílagríma
og fjárstuðningi þjóðarleiðtoga islamskra ríkja.
Mekka
var að mestu sjálfstæð, þótt borgarbúar viðurkenndu valdhafana
í Damaskus og síðar Abbasid-kalífana í Baghdad í Írak. Árið 1269 náði mamaluk-soldáninn í Egyptalandi borginni
á sitt vald. Árið 1517 réðu
Ottómanar í Konstantínópel. Ráðamenn
borgarinnar voru kosnir úr röðum sharifs, afkomendum Múhammeðs, og
völd þeirra voru sterk á stóru svæði umhverfis borgina líka.
Þegar Tyrkir misstu tökin eftir síðari heimsstyrjöldina,
deildu sharifs og Al-Sa’ud (wahhabis) í Mið-Arabíu um völdin í
borginni. Sa’ud konungur
kom til borgarinnar 1925 og hún varð hluti konungsríkisins Sádi-Arabíu
og höfuðborg Makkah manatig idariyah.
Undir
stjórn Al Sa’ud var komið á hreintrúarreglum og lögum var fylgt
fram eftir bókstafnum. Húsnæði
og aðbúnaður pílagríma var bættur.
Eftir síðari heimsstyrjöldina jókst nýting olíubirgða
landsins og Mekka hefur notið þess efnahagslega síðan.
|