Medína
heitir Al-Madinah á arabísku.
Fyrrum hét hún Al-Madihah Al-Munawwarah (Upplýsta borgin) eða
Madinat Rasul Allah (Borg sendiboða guðs).
Í fornöld hét hú Yathrib.
Borgin er á Hejaz-svæðinu í Vestur-Sádi-Arabíu, u.þ.b. 160
km frá Rauðahafinu og 455 km frá Mekka um þjóðveginn.
Medína er önnur tveggja heilögustu borga múslima.
Merki hennar stendur vegna sigra Múhammeðs eftir flóttann frá
Mekka 622 og pílagrímar koma til að votta spámanninum virðingu í
gröf sinni í aðalmosku borgarinnar.
Engum öðrum er múslimum er leyft að koma til borgarinnar.
Landslag
og lega.
Medína er í frjósamri vin í 625 m hæð yfir sjó.
Austan hennar er stór hraunbreiða, að hluta úr miklu eldgosi
1207. Á
hinar þrjár hliðarnar eru hæðir Hejaz-fjalla.
Hæst þessara hæða er Uhud-fjall (1231m).
Flugvöllur borgarinnar er rétt utan við mörk hinnar heilögu
borgar og útlendingar fá góða yfirsýn yfir hana við lendingar og
flugtök.
Á Ottómanatímanum var lítil flugbraut við Sultanah í grennd
við herstöðina í suðri.
Þar er nú höll konungs og fjöldi annarra húsa hirðarinnar.
Þar eru líka rústir grafhvelfingar ‘Amr ibn al-‘As, hins
sigursæla hershöfðingja trúarinnar, sem lagði undir sig Palestínu
og Egyptaland.
Gröf Arons er á hæsta tindi Uhud-fjalls.
Meðal
annarra trúar- og og sögulegra staða borgainnar er Quba’-moskan,
hin fyrsta í sögu islam, þar sem spámanninum birtist sýn af Mekka;
Moska hinna tveggja Qiblahs, sem var byggð til minningar um þann
mikla viðburð, þegar múslimar hættu að snúa sér til Jerúsalem
í bænum sínum og Mekka tók við því hlutverki;
Gröf Hamsa, frænda spámannsins, í ar-Rimah, sem féll í
orrustunni við Uhud (625) með félgöum sínum og spámaðurinn særðist
og hellirinn í hlíðum Uhud-fjalls, þar sem spámaðurinn leitaði
skjóls í orrustunni.
Aðrar moskur eru til minningar um, hvar hann klæddist til
bardagans, hvíldist á leiðinni þangað og dró upp herfánann fyrir
orrustuna um síkið (khandaq), sem Múhammeð lét grafa kringum Medína.
Þetta síki var fyllt upp með rústunum eftir brunann mikla á
valdaárum (1839-61) Abdülmecid I, soldáns.
Allir múslimar, sem heimsækja Medína, skoða þessa staði með
lotningu.
Islamski háskólinn í borginni var stofnaður 1961.
Moska
spámannsins, þar sem spámaðurinn sjálfur lagði hönd að verki, er
samt aðalpílagrímastaðurinn.
Í aldanna rás hafa kalífarnir aukið við hana og endurbætt
og híbýli kvenna spámannsins voru sameinuð stækkun moskunnar í
valdatíð Umayyad-kalífans al-Walid ibn ‘Abd al-Malik.
Tvisvar skemmdist moskan í eldi (1256 og 1481) og endurbygging
hennar fór fram á kosnað frómra þjóðarleiðtoga nokkurra
islamskra landa.
Selim II, soldán (1566-74) skreytti moskuna að innan með
gylltu mósaíki.
Múhammeð, soldán, lét reisa kúpulinn 1817 og árið 1939 var
hann málaður í grænum lit, sem er aðallitur trúarinnar.
Abdülmecid I, soldán, lét hefja endurbyggingu moskunnar 1848.
Því verki lauk 1860 og engar breytingar voru gerðar fyrr en
‘Abdul-‘Aziz, konungur, gerði áætlanir um 1948.
Saud, konungur, lét vinna eftir þeim á árunum 1953-55.
Nú er nýr garður, umkringdur súlnagöngum, í norðanverðu
fleti moskunnar.
Allt er þetta verk í sama stíl og 19. aldar verkið en úr
steinsteypu í stað steins úr hæðunum í kring.
Klefinn (Qafas) fyrir konur, sem komu til bæna, var rifinn en suðurhluti
moskunnar er með sama yfirbragði og áður að undanskildum smáviðgerðum.
Þar eru þrjú skrautverk, sem tákna hús spámannsins.
Almennt er álitið, að gröf spámannsins sé undir grænu
hvelfingunni auk grafa fyrstu tveggja kalífanna, Abu Bakr og ‘Umar og
dóttur spámannsins, Fatímu.
Sérstaklega skreyttur hluti súlnaganganna í suðurhlutanum táknar
pálmalundinn (Al Rawdha), þar sem fyrsta, einfalda moskan var byggð.
Nútímavæðing
borgarinnar hefur ekki gengið eins fljótt fyrir sig og í Jidda,
Riyadh og öðrum borgum landsins.
Byggingarframkvæmdir ollu niðurrifi gömlu borgarmúranna, þannig
að gamla borgin hefur tengzt tjaldstæði pílagrímanna (al-Manakh) og
Anbariya-hverfinu handan Abu-Jida’-flóðrásarinnar, sem var fyrrum
viðskiptahverfi, þar sem Tyrkir reistu járnbrautarstöð.
Grunnur gömlu borgarmúranna var lægri en jarðvegurinn
umhverfis en engar fornleifarannsóknir hafa farið fram.
Sömu sögur er að segja um rústasvæði gömlu gyðingabyggðanna.
Hin stærsta þeirra var Yathrib (Lathrippa Ptólómeusar og Stefáns
Byzantius) og nafn hennar var notað um alla vinina þar til islam hélt
innreið sína.
Í grennd við þorpið al-Quraidha eru hæðir og hólar
(‘itm), sem væri forvitnilegt að grafa í til að finna sögulegar
minjar.
Islamska grafasvæðið í al-Baqiya (Baki al-Gharkad) var rúið
öllum hvelfingum og skreytingum grafhýsa, þegar Wahhabi náðu
borginni á sitt vald 1925.
Síðan hafa verið byggðar einfaldar steinsteypugrafir og
veggur umhverfis garðinn.
Íbúar
Medína eru arabískumælandi múslimar, flestir sunnítar.
Hún er einhver fjölmennasta borg Sádi-Arabíu og algengt er, að
pílagrímar setjist þar að.
Landbúnaður og leirkerasmíði eru undirstöður atvinnulífsins
í og umhverfis borgina.
Efnahagslífið
Landbúnaður.
Auk þess að hafa tekjur af pílagrímum rækta íbúar
borgarinnar ávexti, grænmeti og korn.
Borgin er kunn fyrir döðlupálmana og ávexti, sem eru unnir
til útflutnings í verksmiðju frá árinu 1953.
Véldrifnar dælur til áveitna hafa verið í notkun síðan á
tyrkneskum tímum í upphafi 20. aldar.
Drykkjarvatn er leitt frá lindum í suðurhluta vinjarinnar.
Auk nægilegts grunnvatns eru nokkrar ár í grenndinni.
Á veturnar vaxa þær verulega vegna úrkomunnar.
Hinar stærstu þeirra eru Wadi al-‘Aqiq, sem kemur upp í
vesturfjöllunum og önnur, sem sprettur upp á at-Ta’if-svæðinu í
suðri.
Iðnaður.
Fyrrum var Medína þekkt fyrir málmsmíðar, skartgripagerð og
brynjusmíði, þótt landbúnaður og þróun hans væri höfuðatvinnuvegur
allt fram á miðja 20. öld.
Bílaviðgerðir, múrsteina- og flísagerð, teppavefnaður og málmsmíðar
eru nú ofarlega á blaði.
Samgöngur.
Damaskusjárnbrautin (Hejaz) var opnuð 1908 en var eyðilögð
í fyrri heimsstyrjöldinni (1916).
Endurbygging hennar er rædd reglulega en hefur aldrei komizt í
framkvæmd.
Vegir með bundnu slitlagi tengja borgina við Jidda, mekka og
Yanbu’, hafnarborg Medína við Rauðahafið.
Vegur liggur til norðurs um Hejaz inn í Jórdan.
Flugvöllurinn Al-Jiladain þjónar flugi innanlands og til Jórdans,
Egyptalands og Sýrlands.
Sagan.
Elztu heimildir um Medína eru óljósar en þó er vitað, að
gyðingar bjuggu þar á forkristnum tímum.
Mesta aðstreymi gyðinga á þessar slóðir varð eftir að
Hadrían Rómarkeisari rak þá frá Palestínu í kringum árið 135.
Líklega réðu þá arabaættbálkarnir Aws og Khazrai vininni,
þótt gyðingar væru þar fjölmennastir og réðu úrslitum í þróun
svæðisins í kringum árið 400, þegar Abi-kariba As’ad, konungur
Jemen, kom í heimsókn og tók trú gyðinga.
Hann gerði gyðingdóminn að ríkistrú, þegar hann kom heim
aftur, til að koma heiðinni trú í landinu fyrir kattarnef.
Jemensku gyðingarnir, sem fluttust til Ísrael árið 1949, voru
að mestu afkomendur araba, sem höfðu snúizt til gyðingatrúar.
Hinn 20. september 622 olli koma Múhammeðs spámanns til Medína
á flótta sínum frá Mekka straumhvörfum í sögu vinjarinnar.
Þessi flótti, sem er kallaður hijrah (higira), markar upphaf
dagatals múslima.
Gyðingum var vægt framan af en voru síðan reknir frá byggðum
sínum í Hejaz.
Medína varð stjórnsýslusetur hins vaxandi, islamska ríkis og
þeirri stöðu hélt hún til árisins 661, þegar Damaskus, höfuðborg
Umayyad-kalífanna, tók við hlutverkinu.
Eftir
að kalífinn hafði rænt borgina vegna óstýrilætis íbúanna árið
683 nutu ermírarnir í vininni óstöðugs sjálfstæðis, sem sharífarnir
í Mekka og Egyptar rufu af og til.
Eftir að Tyrkir náðu Egyptalandi undir sig stjórnuðu þeir
Medínu með harðri hendi eftir árið 1517 en tök þeirra linuðust
og voru nánast engin, þegar Wahhabis (hreintrúarmúslimar) náðu
borginni fyrst á sitt vald 1804.
Herlið Tyrkja og Egypta náði henni aftur 1812.
Tyrkir héldu borginni til 1912, þegar Wahhabi-hreyfingin var
endurvakin.
Tyrkir lögðu Hejaz-járnbrautina á árunum 1906-08 milli
Damaskus og Medína til að styrkja stoðir heimsveldisins og tryggja
yfirráð Ottómana yfir hajj, skylduferðum pílagríma til borgarinnar
helgu, Mekka.
Veldi Tyrkja lauk í fyrri heimsstyrjöldinni, þegar Husayn ibn
‘Ali, sharífinn í Mekka, gerði uppreisn og eyðilagði járnbrautina
með aðstoð brezka herforingjans T.E. Lawrence (Arabíu-Lawrence).
Husayn lenti síðar í útistöðum við Ibn Sa’ud og árið
1925 komst borgin í hendur ættarveldis Sa’ud. |