Landslag.
Arabíuskagi er að mestu slétta, sem rís bratt úr Rauðahafi
og hallar smám saman niður að Persaflóa.
Í norðurhlutanum er Vesturhálendið allt að 1500 m hátt yfir
sjó og lækkar niður í 1200 m við Medína og hækkar þaðan til suðausturs
í rúmlega 3000 m. Vatnaskilin á skaganum eru aðeins 25 km frá Rauðahafi í
norðri og 132 km í suðri við jemensku landamærin.
Strandsléttan, Tihamah, er tæpast til í norðurhlutanum nema
í óshólmum en smám saman breikkar hún til suðurs.
Ár, sem falla til Rauðahafs, eru stuttar og brattar, nema
Al-Hamd-áin, sem kemur upp nærri Medína og rennur rúmlega 160 km
Vegalengd til norðvesturs áður en hún sveigir til vesturs.
Þessi áberandi fjallgarður, sem liggur meðfram Rauðahafinu,
rofnar norðvestan Mekka en færri skörð eru í hann, er sunnar
dregur.
Þegar
innar kemur í landið hallar því niður á breiða Najd-hásléttuna,
sem er þakin hraunbreiðum og eldfjallaösku, gjalli og sandi.
Vestantil er hæðin yfir sjó 1360 m en austantil 760 m.
Á þessu svæði breiða vatnsföllin meira úr sér og kvíslast
en við Rauðahafið. Austantil
eru mörg, lág og löng hæðadrög, brött móti vestri en aflíðandi
til austurs. Þetta svæði
er u.þ.b. 1240 km langt og sveigir til austurs úr norðri og suðri.
Mest áberandi eru Tuwayq-fjöll (Jabal Tuwayq), sem rísa úr
850 m í rúmlega 1060 m hæð suðvestan Riyadh.
Innland
skagans er víða sandi hulið. Rub’
al-Khali (Tómi hlutinn), stærsta sandsvæði heims í suðurhluta
landsins, er rúmlega 650 þúsund ferkílómetrar.
Því hallar úr 790 m nærri jemensku landamærunum til norðausturs,
næstum alveg niður að sjó við Persaflóa.
Einstakar sandöldur ná rúmlega 240 m hæð yfir umhverfið,
einkum austantil. Annað
sandsvæði, An-Nafud, sem er rúmlega
57 þúsund km², er í miðju landinu.
Mikill sandbogi, Ad-Dahna’, næstum 1500 km langt og mjóst 50
km á nokkrum stöðum, tengir An-Nafud við Rub’ al-Khali.
Í austurátt, þar sem sléttunni hallar mjög lítið í átt að
Persaflóa, er fjöldi saltsvæða (sabkhahs) og mýrlendna.
Strönd flóans er óregluleg og grunnsævi er mikið meðfram
henni.
Ár
og vötn.
Það eru varla nokkrar varanlegar ár eða lækir til í
landinu en víða eru árfarvegir (wadi), sem fyllast af vatni, þegar
rignir. Þeir, sem leiða
vatnið til Rauðahafs eru stuttir og djúpir en hinir, sem liggja í
austurátt, eru langir og þróaðri nema í eyðimörkunum An-Nafud og
Rub’ al-Khali. Jarðvegurinn
er víðast hrjóstrugur og ófrjósamur.
Stór svæði eru þakin mismunandi grófri möl.
Árframburður er víða í dölum, lægðum og vinjum.
Saltsvæði eru algengust í austurhlutanum.
Loftslagið.
Eyðimerkurloftslag er ríkjandi víðast í konungsdæminu.
Á veturna hreyfast lægðir venjulega norðan Arabíuskagans til
austurs frá Miðjarðarhafinu. Stundum
ná þær til miðausturhluta Arabíu og Persaflóans.
Sum veðurkerfi hreyfast til suðurs um Rauðahafslægðina og færa
með sér vetrarúrkomu alla leið til Mekka og jafnvel til Jemen.
Í marz og apríl rignir af og til í stríðum straumum.
Á sumrin er næg úrkoma á Asir-hálendinu, suðaustan Mekka,
til að viðhalda gróðri á steppureinum.
Veturinn,
frá desember til febrúar, er svalur og frosts og snævar gætir í suðurfjöllunum.
Meðalhiti köldustu mánaðanna er 23°C í Jiddah, 14°C í
Riyadh og 17°C í Ad-Damman. Sumarið,
frá júní til ágúst, er heitt, 38°C í skugganum á daginn víðast
um landið. Hitinn í eyðimörkunum
fer oft í 54°C á sumrin. Rakastigið er lágt nema með ströndum fram, þar sem það
getur verið hátt og illþolanlegt í hitanum.
Úrkoma er lítil um allt landið, 64 mm í Jiddah, um 80 mm í
Riyadh og 77 mm í
Ad-Dammam. Það getur brugðið
verulega frá þessum meðaltölum hvað úrkomu snertir.
Á hálendinu í Asir hafa mælzt rúmlega 460 mm sum árin, aðallega
í maí til október, þegar sumarstaðvindarnir ríkja.
Í Rub’ al-Khali-eyðimörkinni getur liðið áratugur án úrkomu.
Með
natni má skipta landinu í þrjú loftslagssvæði:
1) eyðimerkurloftslag víðast hvar, 2) steppuloftslag á
vestanverðu hálendinu á svæði,sem er innan við 160 km breitt í
norðri og allt að 500 km á sömu breidd og Mekka og 3) smálandskiki
með hæfilegum raka og hita og löngu sumri á hálendinu rétt norðan
Jemen.
Flóran.
Víðast í landinu er flóran lík hinni norðurafrísku og
indversku í eyðimörkunum. Plönturnar
eru aðlagaðar þurrum skilyrðum og eru að mestu smáar og runnar eru
hentugt fóður. Í suðurhluta Asir eru smásvæði vaxin grasi og trjám.
Döðlupálminn (Phoenix dactylifera) er útbreiddur, þótt þriðjungur
allrar döðluframleiðslunnar fari fram í Ash-Shariqiyah-héraði.
Fánan.
Meðal tiltölulega algengra dýra eru úlfar, hýenur, refir,
hunangsgreifingjar, broddgeltir, babúnar, hérar, sandrottur og stökkmýs.
Gasellur, oryxantillópur, hlébarðar og fjallageitur voru
algengar dýrategundir fram undir miðja 20. öldina, þegar farið var
að veiða þær úr farartækjum á ferð.
Meðal algengra fuglategunda eru fálkar (veiddir og þjálfaðir
í veiðum), Ernir, haukar, gammar, uglur, hrafnar, flamingóar,
egretfuglar, pelikanar, dúfur og akurhænur.
Nokkrar tegundir snáka þrífast í landinu og margir þeirra
eitraðir. Talsverður fjöldi
eðlutegunda er um allt land. Aragrúi
tegunda fiska er í hafinu báðum megin við landið.
Húsdýr eru aðallega drómedarar, kameldýr, sauðfé, geitur,
salukis, asnar og hænsn.
|