Jiddah
er stór hafnarborg við Rauðahaf, vestan Mekka í miðju Hejaz-héraði
í Vestur-Sádi-Arabíu.
Sögulegt mikilvægi borgarinnar felst aðallega í því, að hún
var og er hafnarborg (nú líka flugvallarborg) Mekka og einnig Medína,
heilögustu borga múslima.
Kalífinn ‘Uthman gerði hana að hafnarborg pílagríma á leið
yfir Rauðahafið árið 646.
Árið 1916 gafst tyrkneska setuliðið í borginni upp fyrir
Bretum og varð hluti af Hejaz-konungsdæminu til 1925, þegar Ibn
Sa’ud náði henni á sitt vald.
Árið 1927 viðurkenndu Bretar yfirráð Sa’ud í Hejaz-héraði
með samningum.
Jiddah var að lokum innlimuð í Sádi-Arabíu.
Árið 1947 voru borgarmúrarnir rifnir og borgin þandist
út. Nafn
borgarinnar þýðir formóðir eða amma og er dregið af gröf Evu,
sem ríkisstjórn landsins lét eyðileggja árið 1928 til að draga úr
hjátrú og hindurvitnum.
Eftir
síðari heimsstyrjöldina var borgin nútímavædd og hún bólgnaði
út af olíuauðnum, sem fór að safnast á landið.
Höfnin var dýpkuð og stækkuð til að geta tekið við stærstu
skipum og vatnseimingarstöð var byggð snemma á áttunda áratugnum,
hin stærsta í heimi á sínum tíma.
Grundvöllur efnahags borgarinnar, sem byggðist fyrrum á
straumi pílagríma og fiskveiðum, var gerður fjölbreyttari með plötustálsverksmiðjum,
olíuhreinsunarstöðvum og framleiðslu sements, fatnaðar og leirmuna.
Utan borgar er ræktaður nautpeningur til mjólkurframleiðslu
og margs konar smáiðnaður er stundaður.
Jiddah er líka miðstöð utanríkisþjónustunnar í landinu og
þar er fjöldi erlendra sendiráða og ræðismanna ýmissa ríkja.
Háskóli Abdul Azis, konungs, býður menntun á sviði viðskipta
og stjórnsýslu (1967).
Samgöngur eru góðar um þjóðvegi til Mekka og Medína og um
millilandaflugvöllinn, sem er kenndur við Abdul Aziz, konung.
Áætlaður íbúafjöldi 1983 var 1,5 milljónir. |