Efnahagskerfi
landsins byggist á fimmáraáætlunum. Andstætt því, sem gerist í þróunarlöndum, er enginn
skortur á fjármagni í Sádi-Arabíu.
Fyrstu fimmáraáætlaniarnar (1970-80) tóku til uppbyggingar
samgöngukerfisins. Stefnt
var að aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu, m.a. uppbyggingu iðnaðar
í tengslum við landbúnaðinn (hveitimyllur o.fl.).
Einnig var stefnt að því að draga úr þörfinni fyrir
innflutt vinnuafls, einkum í stjórnunarstöður, að auka framleiðslu
matvæla, að bæta menntun og auka iðnmenntun, bæta heilbrigðisþjónustu
og efla samstarf héraða landsins.
Iðnþróun er öflugust í borgunum Al-Jubayl við Persaflóa og
Yanbu’ við Rauðahaf, þar sem áætlað er að nýta náttúrulegt
gas í auknum mæli við framleiðsluna.
Náttúruauðlindir.
Efnahagur landsins byggist aðallega á olíu og tengdum iðnaði.
Sádi-Arabía er olíuríkasta land heims með u.þ.b. 25% kunnra
olíubirgða heims. Þær
eru aðallega í austurhluta landsins, sunnan Íraks og Kúveit inn í
Rub’ al-Khali og neðansjávar í Persaflóa.
Vitað er um önnur verðmæt jarðefni og ríkisstjórnin hefur
staðið að rannsóknum og tilraunavinnslu til að auka fjölbreytnina
í efnahagslífinu. Jarðfræðilegar
athuganir á forkambríum flekanum í vesturhlutanum hafa leitt í ljós
gull, silfur, kopar, sink, blý, járn, títaníum, pýrít, magnesít,
platínu og kadmíum. Einnir
eru talsverðar birgðir af kalksteini, kísil, gipsi og fosfati.
Skóglendi (1550 km², að mestu í Asir) og beitiland eru af
skornum skammti.
Landbúnaður.
Konungsríkið fékk hið einfalda efnahagslíf hirðingjaættbálka
í vöggugjöf. Fólkið
stundaði ræktun drómedara, kameldýra, sauðfjár og Geita.
Landbúnaðarframleiðslan var staðbundin og til sjálfsþurfta.
Þessi staðbundna fæðuframleiðsla hefur hlotið sérstaka
athygli í þróunaráætlunum og ríkið hefur stutt landbúnaðinn með
niðurgreiðslum. Á miðjum
níunda áratugnum var rúmlega helmingur vinnuaflsins bundinn í landbúnaði,
sem nam ekki nema 4% af vergri þjóðarframleiðslu.
Tekizt
hefur að gera þjóðina sjálfri sér næga með framleiðslu hveitis,
eggja og mjólkur, þótt hún verði að flytja 70% matvæla inn. Hveiti er aðaluppskeran.
Fóðurgras (sorghum), bygg og hirsi eru líka ræktuð í
talsverðum mæli. Vatnsmelónur,
tómatar, döðlur, vínber, laukur, grasker og aðrar tegundir melóna
eru líka mikilvægar afurðir.
Helztu
hindranir í vegir ræktunar eru vatnsskortur og ófrjósamur jarðvegur.
Stíflur úr steinsteypu og jarðvegi hafa verið byggðar í suðvesturhlutanum
fyrir áveitur. Á slíkum
svæðum hefur tekizt að auka framleiðslu verulega en á svæðum, þar
sem bændur verða að reiða sig á duttlunga náttúrunnar, hefur
framleiðslan dregizt saman. Miklar
grunnvatnsbirgðir hafa fundizt í mið- og austurhlutanum.
Ferskvatnsvinnsla úr sjó er stunduð fyrir borgir og iðnfyrirtæki.
Vatnsveitan í Riyadh byggist á stórri ferskvatnsverksmiðju í
Al-Jubayl við Persaflóa.
Iðnaður.
Uppgötvun olíunnar breytti öllum efnahagsgrundvelli landsins.
Árið 1923 gaf Ibn Sa’ud, konungur, brezku fyrirtæki leyfi
til olíuleitar en það var aldrei notað.
Þótt olían fyndizt 1938 hindraði síðari heimsstyrjöldin
framkvæmdir. Ras Tanura-olíuhreinsunarstöðin
hóf starfsemi 1945 og þróunin var hröð vegna mikillar eftirspurnar
eftir stríðið.
Árið
1951 uppgötvaði Aramco (Arabísk-ameríska olíufélagið) fyrsta olíusvæðið
undir hafsbotninum í Miðausturlöndum við Ra’s As-Saffaniyah, rétt
sunnan hlutlausa svæðisins milli Sádi-Arabíu og Kúveit en þar
fannst olía árið 1953. Stærsta
olíusvæði heims er Al-Ghawar, rétt sunnan Dhahran og vestan
Al-Hufuf. Fyrsti hluti þessa
svæðis fannst í ‘Ain Dar árið 1948.
Mikil leit og rannsóknir hófust á Rub’ al-Khali-svæðinu hófust
1950 og tuttugu árum síðar fannst loks olía þar.
Árið
1950 hleypti Aramco olíu á leiðsluna frá Al-Qaysumah, yfir Jórdaníu
og Syrland til Sidon í Líbanon við Miðjarðarhafið.
Þessi leiðsla var í óstöðugri notkun á áttunda áratugnum
og varð ónothæf árið 1983 nema til að birgja olíuhreinsunarstöð
í Jórdaníu. Árið 1981
var byggð leiðsla fyrir hráolíu frá Al-Jubayl við Persaflóa til
Yanbu’ við Rauðahaf og Hormuz-sunds.
Fyrirtæki í eigu ríkisins annaðist þetta verkefni.
Aramco byggði söfnunarkerfi fyrir náttúrulegt gas og leiðslu
fyrir það meðfram hinni til Yanbu’ árið 1981.
Sádi-Arabía eignaðist Aramco smám saman á áttunda og fyrri
hluta níunda áratugarins og árið 1984 varð fyrsti Sádiarabinn stjórnarformaður
fyrirtækisins.
Framleiðslugeirinn
hefur vaxið gífurlega. Sádi-Arabía
framleiðir m.a. valsað stál, olíuvörur, áburð, pípur, koparvír
og kapla, vörubíla í samsetningarverksmiðjum, kælitæki, plastvörur,
álvörur, málmvörur og sement.
Fjármál. Seðlabanki Sádi-Arabíu (SAMA) var stofnaður 1952.
Hann er æðsta stofnun banka- og fjármála í landinu, gefur út
gjaldmiðil landsins, fer með fjármál ríkisins, heldur utan um
gjaldeyrissjóðinn og sér um fjárfestingar erlendis. Seðlabankinn er ekki ágóðafyrirtæki, þar sem hann er
islömsk stofnun. Samkvæmt
islömskum lögum er bönkum óheimilt að krefjast vaxta en þeir
innheimta þóknun fyrir lán og greiða umboðslaun af innistæðum.
Efnahagsleg verkefni ríkisins ráða taktinum í viðskiptum og
framboði peninga, þótt svo eigi að heita, að það styðji
einkaframtak. Sádi-Arabía
er einhver stærsti lánveitandi heims á sviði hjálpar- og þróunarstarfs.
Viðskipti.
Útflutningurinn er aðallega olía og olíuvörur.
Helstu innflutningsvörur eru vélar og tæki, matvæli og tóbak,
flutningatæki, vefnaðarvara, málmar og málmvörur og efnavörur. Útflutningurinn fer aðallega til Japan, BNA, Ítalíu,
Frakklands og Hollands. Innflutningurinn
kemur aðallega frá BNA, Japan, Þýzkalandi, Ítalíu, Bretlandi og
Taiwan.
Samgöngur.
Nálægt þriðjungur vegakerfisins er með bundnu slitlagi.
Fyrsti vegurinn stranda á milli frá Ad-Dammam við Jiddah-flóa
og Rauðahaf um Riyadh var opnaður 1967.
Aðrar mikilvægar leiðir liggja frá Riyadh til norðvesturs um
Naid til Ha’il, frá Riyadh til suðvesturs til Najran-svæðisins,
milli Mið-Najd-svæðisins og Medína, frá Medína til norðvesturs um
Tabuk to Jórdaníu, frá Medína til vesturs og suðurs til Yanbu’ og
Jiddah, meðfram Rauðahafsströndinni milli landamæra Jórdaníu og
Jemen, frá At-Ta’if til suðausturs meðfram hásléttunni til Najran
um Abha og frá Ad-Dammam við Persaflóa til norðvesturs meðfram olíuleiðslunni
til Jórdaníu. Járnbraut
um Al-Hufuf tengir Riyadh og Ad-Dammam.
Hraðbraut var opnuð til eyríkisins Bahrain 1986.
Hafnaraðstaða
hefur verið bætt í öllum aðalhafnarborgum landsins, s.s. Jiddah,
Yanbu’ og Jizan við Rauðahaf og Ad-Dammam og Al-Jubayl við Persaflóa.
Víða um land eru litlir flugvellir en færri en helmingur þeirra
er með bundnu slitlagi. Saudia
er ríkisflugfélagið. Það
annast bæði innanlands- og millilandaflug.
Aðalflugvellirnir eru í Dhahran, Riyadh og Jiddah. |