Síðla
á 18. öld og snemma á hinni nítjándu var ættflokkurinn Al-Qawasim
valdamestur á þessum slóðum vegna ráðandi stöðu í viðskiptum
við löndin handan hafsins, fiskveiðum og perluiðnaði.
Einnig urðu brezk skip fyrir barðinu á sjóræningjadeild þessa
ættflokks, þannig að brezki sjóherinn var sendur á stúfana og
braut Qasimi-sjóræningjana á bak aftur árið 1819.
Þessi ósigur olli því, að völd og áhrif ættflokksins
minnkuðu til muna og Banu Yas-ættflokkabandalagið í Abu Dhabi tók
við. Þetta
fólk bjó aðallega í vinjunum Al-‘Ayn og Al-Liwa’ í Abu Dhabi og
styrkur þess var mestur á landi.
Al Nahyan-fólkið af Al Bu Falah-ættbálknum hefur verið í
fararbroddi þessa bandalags og Banu Yas hefur verið valdamesta klíkan
síðan um miðja 19. öld.
Valdamestu
furstarnir í furstadæmunum meðfram ströndinni undirrituðu fjölda
samninga við Breta á 19. öld, þ.á.m. almennan friðarsamning 1820,
samning um vopnahlé á hafinu 1853, sem gaf Vopnahlésríkjunum nafnið
og afsalssamning 1892, sem gaf Bretum yfirráð yfir utanríkismálum þessara
furstadæma.
Æðstaráð þessara ríkja hélt reglulega fundi annað hvert
ár frá 1952 til að ræða stjórnsýslumál.
Í janúar 1968 gáfu Bretar út yfirlýsingu um brotthvarf herja
þeirra árið 1971.
Í kjölfarið lýstu Óman og soldánsdæmin Qatar og Bahrain
yfir áætlun um bandalag.
Eftir þriggja ára samningsviðræður ákváðu Qatar og
Bahrain að verða stök, sjálfstæð ríki og fyrrum Vopnahlésríkin,
utan Ra’s al-Khaymah, lýstu yfir stofnun Sambands arabísku furstadæmanna
í desember 1971.
Ra’s al-Khaymah gekk í bandalagið næsta ár.
Abu
Dhabi kom af stað hreyfingu í átt að miðstýringu furstadæmanna í
desember 1973, þegar nokkrir fyrrum ráðherra landsins urðu opinberir
embættismenn.
Í maí 1976 samþykktu furstadæmin sjö að sameina heri sína
og í nóvember sama ár var kafla, sem leyfði bandalagsstjórninni að
stofna her og kaupa vopn, bætt við stjórnarskrána.
Misklíð í stjórninni 1978 leiddu til þess, að Dubay og
Ra’s al-Khaymah neituðu að blanda herjum sínum í hinn sameiginlega
her ríkisins og Dubayy annaðist sín eigin vopnakaup.
Dubayy og Ra’s al-Khaymah neituðu að samþykkja tillögu um
sameiginleg fjárlög og afnám innbyrðis landamæra, þrátt fyrir
mikinn, almennan stuðning við hana.
Dubayy lét af andstöðu sinni, þegar furstinn Rashid ibn
Sa’id al-Maktum bauðst forsætisráðherrastaðan í bandalagsstjórninni
árið 1979.
Zayid ibn Sultan al-Nahyan fursti í Abu Dhabi var endurkjörinn
forseti S.a. furstadæmanna til fimm ára í upphafi árs 1971.
Rashid, fursti Dubayy, dó árið 1990 eftir löng veikindi og
sonur hans, Maktum ibn Rashid al-Maktum tók við stöðum hans sem
fursti Dubayy og varaforseti og forsætisráðherra S.a. furstadæmanna.
Utanríkismál.
Khomeini-stjórnin í Íran og stríðið milli Íraks og Írans
ollu vandamálum í S.a. furstadæmunum.
Uppgangur islamskra öfgasinna ógnaði stöðugleikanum í
Furstadæmunum.
Hann skapaði ólgu meðal íranskra shíta, sem bjuggu í
landinu og blés ungum sunnítum andagift í brjóst.
Þeim fannst stjórnvöld og stjórnskipulagið ekki sýna islömskum
lögum og siðum næga virðingu.
Stríð Íraka og Írana fór að færast nær, þegar Írakar hófu
árásir á olíuskip á Persaflóa.
Þessi þróun leiddi til þess, að S.a. furstadæmin skipuðu sér
í raðir Ómans, Qatar, Sádi-Arabíu, Bahrain og Kúveit til að mynda
Samstarfsráð flóaríkjanna 1981.
Ráðinu var ætlað að auka öryggi þessara landa og vinna að
efnahagslegu samstarfi þeirra.
S.a. furstadæmin tóku þátt í að fordæma Írak fyrir innrásina
í Kúveit 1990 og veitti Vesturveldunum aðstöðu fyrir heri sína og
hernaðarlega aðstoð við endurheimt Kúveit.
Furstadæmin urðu aðilar að Sameinuðu þjóðunum og
Arababandalaginu árið 1991.
S.a.
furstadæmin ásamt Samstarfsráði flóaríkjanna mótmæltu kröftuglega,
þegar Íran efldi stöðu sína á eyjunum Abu Musa og Tunb-eyjum, sem
þeir höfðu náð frá Írökum 1971.
Íranar héldu sínu striki og komu sér æ betur fyrir á
eyjunum allan áratuginn.
Þessar aðgerðir þeirra ollu mikilli spennu í tengslum milli
landanna tveggja.
Furstadæmin hölluðu sér æ meir til vesturs og sýndu Írönum
fjandsamlega afstöðu. |