Musandam skagi,
Flag of United Arab Emirates


MUSANDAM-SKAGI
SAF

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Musandamskagi er framhald Arabíuskaga til norðausturs og skilur að Ómanflóa til norðausturs frá Persaflóa vestan Hormuzsunds í norðri.  Ru’us al-Jibal (Fjallatopparnir), nyrzti hluti al-Gharbi al-Hajar (Vestari-Hajar-fjöll), eru nyrzt á Musandamskaganum og tilheyra Óman.  Sameinuðu arabísku furstadæmin skilja þennan landshluta frá Óman.  Víðast er skaginn u.þ.b. 35 km breiður.  Khawr (sund) ash-Shamm og Ghubbat (flói) al Ghazirah skerast djúpt inn í ströndina frá vestri til austurs nokkrum kílómetrum sunnan Hormuzsunds og litlu munar að þau skeri skagann í tvennt.  Khawr ash-Shamm er u.þ.b. 16 km langt og liggur meðfram 900-1200 m háum hamraveggjum.  Hæsti tindur skagans, Jabal al-Hartim, er 2075 m hár.  Fjöllunum hallar bratt niður að sjó, þar sem ströndin er mjög stórgrýtt og er hættuleg sjófarendum.  Óregluleg úrkoman hefur grafið djúp gil í fjöllin, þar sem talsverður gróður þrífst, og neðar vaxa villt ólífutré.  Einitré vaxa allt upp að fjallatoppum.  Aðaluppskeran á skaganum er döðlur og grænmeti.

Flestir íbúar skagans eru Shihuh, fiskimenn og hirðingjar, líklega afkomendur upprunalegra íbúa Norður-Óman, sem hröktust til fjalla undan innrásum múslima og Portúgala.  Aðalatvinnuvegur íbúanna á skaganum er fiskveiðar og vinnsla, sem fer fram í al-Khasab og Bay’ah.  Undan vesturströndinni eru birgðir olíu í jörðu.  Samgöngur fara að mestu fram á sjó, þar sem engir vegir liggja um þetta erfiða land.  Soldánsdæmið Óman setti á laggirnar þróunarnefnd fyrir Musandam-skagann til að stuðla að smíði fiskibáta, byggingu Khasab-stíflunnar og birgðageymslna og lagningu rafmagns.  Aðalþéttbýlið á skaganum er vinin Diba á suðausturströndinni.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM