Abu
Dhabi (Abu Zaby) er eitt Sameinuðu arabísku furstadæmanna sjö.
Landamæri þess eru víða óglögg en það er samt stærst þeirra
og nær yfir u.þ.b. 75% heildarflatarmálsins.
Flatarmál Abu Dhabi er 73.060 km² og áætlaður íbúafjöldi
árið 1991 var 800 þúsund. Miklar
olíulindir á landi og í Persaflóa gera það, ásamt nágrannanum
Dubayy, að ríkustu furstadæmunum.
Landið
liggur að norðanverðum Persaflóa með u.þ.b. 450 km strandlengju.
Auðnarleg ströndin er þakin saltfenjum (sabkhah) og eyjar eru
margar. Vestan þess er Qatar, Sádi-Arabía í suðri og Óman
(fyrrum Muscat og Óman) í austri.
Abu Dhabi hálfumkringir Dubayy og á stutt landamæri að
ash-Shariqah.
Allt
frá 18. öld hefur Al bu Falah-fjölskyldan af Bani Yas-ættinni verið
við völd. Hún sat fyrst
í Liwa-vininni (al-Jiwa). Árið
1761 fundust nýtilegar vatnslindir, þar sem Abu Dhabi-borg er nú, og
fjölskyldan flutti sig um set 1795.
Helztu keppinautar hennar voru sjóræningjar í Qawasim frá
Ra’s al-Khaymah og ash-Sharigah furstadæmunum.
Þeir voru fjandmenn soldánsríkisins Muscat og Óman, sem fjölskyldan
tók höndum saman við. Á
19. öld komu upp landamæradeilur milli Abu Dhabi og Muscat og Óman og
átök við Wahhabi frá Naid, forfeður núverandi konungsfjölskyldu Sádi-Arabíu. Þessar landamæradeilur eru enn þá að mestu óleystar.
Ráðamenn
í Abu Dhabi undirrituðu brezka friðarsamninginn 1820, þótt landið
væri ekki álitið sjóræningjaríki, friðarsaminginn á hafinu 1835
og allsherjarsaming um frið á hafinu 1853.
Samkvæmt sérsamkomulaginu frá 1892 féllu utanríkismál
furstadæmisins undir Breta. Á
löngum valdatíma Zayd ibn Khalifah fursta (1856-1908) var Abu Dhabi
voldugast ríkja á Vopnahlésströndinni en snemma á 20. öldinni tóku
ash-Shariqah og Dubayy við því hlutverki.
Þegar Bretar sýndu á sér fararsnið 1968, sömdu Abu Dhabi og
hin Vopnahlésríkin, Bahrain og Qatar um stofnun bandalags níu furstadæma.
Bahrain og Qatar urðu ekki meðlimir, þar sem þau fengu sjálfstæði
1971. Bretar slitu
samningsbundnu sambandi við Vopnahlésríkin og hið nýstofnaða
Bandalag sameinaðra arabískra furstadæma, þar sem Abu Dhabi var í
forystuhlutverki. Abu Dhabi-borg var gerð að höfuðborg bandalagsins í fimm
ár en staða hennar sem slík var framlengd nokkrum sinnum, þar til hún
var gerð að varanlegri höfuðborg snemma á tíunda áratugnum.
Efnahagur
Abu Dhabi hefur byggzt næstum einvörðungu á olíuframleiðslu.
Olía fannst fyrst 1958 neðansjávar í Umm ash-Shayf, u.þ.b.
125 km frá strönd landsins á 2750 m dýpi.
Þessari olíu er dælt um neðansjávarleiðslur til Das-eyjar,
sem var óbyggð og eyðimörkin ein, 32 km vestar, þar sem aðalolíuhöfn
Furstadæmanna var byggð ásamt flugvelli, gasstöð og annarri nauðsynlegri
aðstöðu. Útflutningur
olíu hófst 1962. Mestu olíulindasvæðin
á landi eru Murban og Bu Hasa, 40-65 km frá ströndinni.
Olíuleiðslur tengja þau við höfn norðvestantil í landinu
við az-Zahhah-fjall (Danna). Meðal
annarra olíusvæða á hafsbotni eru az-Zakum, norðvestan Abu
Dhabi-borgar (tengt Das-eyju) og Umm ad-Dalkh, norðan borgarinnar.
Olíubirgðir ríkisins eru áætlaðar 10% af heildarbirgðum
jarðarinnar.
Tekjur
Abu Dhabi af olíuviðskiptum skipa íbúum landsins meðal hinna tekjuhæstu
í heimi. Auk nútímavæðingar
innanlands hefur Abu Dhabi lánað hinum fátækari bandalagsríkjum,
öðrum arabaríkjum og þróunarlöndum mikið fé.
Rannsóknarstofnun í al-‘Ayn hefur einbeitt sér að því að
bæta aðferðir til ræktunar á þurrum eyðimerkursvæðum. |