Úralfjöll
er geysilangur fjallgarður í miðvesturhluta Rússlands og myndar
skilin á milli Evrópu og Asíu. Hann
er u.þ.b. 2500 km langur frá Úralánni í suðri norður að lágum
Pay-Khov-fjallgarðinum, sem teygist áfram 400 km til norðurs, þar
sem Úralfjöllin eru talin enda. Úralfjöllin eru á tæplega 3600 km löngu fjallabelti frá
Aralvatni í suðri að nyrzta odda Novaya Zemlya í norðri.
Mughalzhar-hæðirnar mynda fleyg milli Aralvatna og Kaspíahafsins
í norðvestanverðu Kazakstan. Úralfjallgarðurinn
er tiltölulega mjór, frá 37 til 150 km breiður og liggur um nokkur
loftslagsbelti, allt frá heimskautssvæðunum suður að hálfeyðimörkunum.
Íbúar þessa stóra svæðis eiga sér langa sögu og margir þjóðflokkar
hafa búið þarna frá örófi alda.
Landafræði.
Úralfjöll skiptast í fimm svæði.
Nyrzti hlutinn nær frá Konstantinov Kamen-fjalli í norðaustri
að Khulga-ánni í siðaustri. Flestir
tindarnir á þessum slóðum eru 1000-1100 m háir en Payer-tindur nær
1463 m. Næsta svæði
teygist u.þ.b. 231 km til suðurs að Shchugor-ánni.
Þarna eru hæstu tindar alls fjallgarðsins, þ.á.m. Narodnaya
(1895m) og Karpinsk (1867m). Bæði
þarna og á svæðinu norðuraf ríkir alpaloftslag og víða eru jökulkollar
og túndrur. Sunnar eru Norður-Úralfjöll,
sem ná u.þ.b. 560 km til suðurs að Usa-ánni.
Þar ná fæst fjöll meira en 1000 m hæð.
Hið hæsta er Telpos-Iz (1608m).
Margir tindanna eru flatir, leifar fornra rofshásléttna, sem
hafa risið vegna plötuhreyfinga. Nyrzt hefur rof og uppblástur skilið eftir geysistór stórurðarsvæði
í fjallshlíðum og á fjallatoppum. Syðri hluti Mið-Úralfjalla teygist u.þ.b. 333 km suður að
Ufa-ánni og nær óvíða 500 m hæð en hæsti tindur þessa svæðis
er Sredny Baseg (988m). Tindarnir
eru víðast ávalir. Syðsta
svæðið er Suður-Úralfjöll. Það
teygist u.þ.b. 560 km til suðurs að vesturbugðu Úralárinnar.
Þarna eru nokkrir samhliða fjallgarðar, sem ná allt að 1182
m hæð og rísa hæst í Yamantau (1630m).
Ýmsar
bergtegundir valda fjölbreyttu landslagi Úralfjalla.
Hæstu hlutarnir eru úr kristölluðu bergi, flögubergi og
gabbrói, sem veðrast fremur hægt. Víða eru brattar, flattypptar hæðir úr kalksteini með
árdölum og neðanjarðarám. Í
austurhlíðum Úralfjalla eru færri slíkar kalkhæðir.
Þar er meira um lág og grýtt fjöll og hæðir út frá
meginfjallabákninu.
Jarðfræði.
Fyrir u.þ.b. 280 milljónum ára varð til mikið fjalllendi
vegna jarðskorpuhreyfinga og það veðraðist þar til það varð að
að lágri hásléttu. Þrjátíu milljónum árum síðar sköpuðu
fellingahreyfingar aðra fjallgarða á sama belti og hæst risu þeir
í norðurhlutanum. Á
vatnaskilunum er Ural-Tau Anticlinorium (steinbogar og þröngir dalir)
og í suðurhlutanum, vestan þessara bergmyndana, er Bashkir
Anticlinorium. Bæði þessi
svæði eru mynduð úr allt að 6 km þykkum og ummynduðum berglögum,
s.s. gneiss (flöguberg), kvartsi og schist (hellugrjót), sem eru
570-395 milljóna ára.
Vesturhlíðar
Úralfjalla eru úr setlögum frá paleozoik-tíma (sand- og
kalksteinn), sem eru u.þ.b. 350 milljón ára.
Víða lækka þau í stöllum niður að Cis-Ural-lægðinni,
sem geymir miklar birgðir af rofefni úr fjöllunum frá síð-paleozoik-tímanum
(300 m/ár). Þar eru víða
mjög rofin kalksteins- (karst) og gipssvæði með stórum hellum og neðanjarðarám. Í austurhlíðum skiptast á hraun- og setlög frá miðjum
paleozoik-tima. Þau mynda
Tagil-Magnitogorsk Synclinorium (steinbogar og dalir), sem er hið stærsta
í Úralfjöllum sinnar tegundar. Í
sunnanverðum og miðjum fjallgarðinum hverfa þessi lög niður í lága
rofhásléttuna, þar sem víða er að finna granít og ótrúlegar
flattypptar og brattar hæðir. Norðar
er rofhásléttan hulin lausum og fíngerðum setlögum frá sléttum
Vestur-Síberíu.
Loftslagið.
Meginlandsloftslag ríkir í Úralfjöllum og hitamunur er
verulegur frá norðri til suðurs, og vestri til austurs.
Pay-Khoy-fjallgarðurinn og Heimskautsfjöllin njóta mildandi áhrifa
Norður-Íshafsins, einkum á veturna.
Í Mughalzhar-hæðum og Suðurfjöllunum blása heitir og þurrir
sumarvindar frá Mið-Asíu. Ríkjandi
vindátt er vestlæg og ber með sér raka frá Atlantshafinu.
Fjöllin eru ekki há en hafa samt veruleg áhrif á dreifingu úrkomu,
sem gætir meira í vesturhlíðunum.
Mestrar
úrkomu gætir í miðnorðurhlutanum (1000 mm) en bæði sunnar og norðar
minna (450 mm). Í austurhlíðunum
er hún mun minni (300 mm). Meðalsnjódýpi
í vesturhlíðunum er tæplega 9 sm en í austurhlíðunum 4,5 sm.
Mest er úrkoman á sumrin en á veturna beina háþrýstisvæði
yfir Síberíu köldu og þurru lofti yfir fjöllin.
Kaldast er í austurhlíðunum og veturinn ríkir lengur en
sumarið í öllu fjalllendinu. Meðalhiti
janúar í norðurhlutanum er –21°C og í suðurhlutanum –15°C.
Meðal hitinn í júlí er 10°C og 22°C.
Flóran.
Úralfjöllin ná yfir nokkur gróðursvæði.
Túndrusvæðin í norðri eru vaxin stórum, blönduðum skógum
en sunnar eru steppur og hálfeyðimerkur í kringum Mughalzhar-hæðirnar.
Þar sem moldin er svört eru aðallega fjaðurgras og engi en
steppur, þar sem moldin er lítið eitt ljósari.
Smári, steppugras og fóðurgras eru áberandi.
Sunnan Úralárinnar tekur við hálfeyðimerkurflóra í ljósleitum
jarðvegi, sem er víða mjög saltríkur.
Skóglendi
Úralfjalla er fjölbreytt. Í
vesturhlíðum Suðurfjallanna eru aðallega blandaðir skógar í gráum
fjallajarðvegi. Þar vaxa
breiðlaufungar eins og eik, linditré, álmur, síberíufura og síberíugreni.
Þessir skógar ná upp í tæplega 700 m hæð yfir sjó og þar
fyrir ofan fer að bera á barrtrjám. Í austurhlíðunum eru engir breiðlaufungar nema linditrén
en geysimiklir furuskógar prýða landslagið og sums staðia
er lerki í bland.
Í Mið-Úralfjöllum eru
heimskautsskógar með greni, alls konar furutegundum og lerki í
fjallajarðvegi frá podzolik-tímanum.
Enn norðar eru dekkri barrtré og í Norður-Úralfjöllum er síberískur
sedrusviður útbreiddur. Skógarlinan
er í u.þ.b. 850 m hæð yfir sjó en ofan hennar er strjálingur af
lerki og birki og síðan tekur fjallatúndran við.
Á heimskautssvæðinu tekur túndran við í tæplega 400 m hæð.
Mosatúndrur eru algengar í fjöllunum vestanverðum en fléttutúndrur
í þeim austanverðum. Fjöldi
mosategunda vex í mýrum beggja vegna fjallanna.
Á Pay-Khoy-hryggnum er túndrusvæði með runna-, mosa- og fléttugróðri.
Fánan.
Úralfjöllin státa ekki af neinum kennitegundum vegna þess hve
hæðarmunur er lítill og gróðursamfélagið er svipað í fjöllunum
og á nágrannasvæðunum Evrópu- og Asíumegin.
Mikilvægustu dýrategundirnar á túndrusvæðunum er
heimskautsrefurinn, læmingjar, snæuglur, túndruhænur og hreindýr.
Þarna verpir fjöldi anda-, gæsa- og svanategunda.
Mesta fjölbreytnin í dýralífinu er í skógunum.
Þar hafast við m.a. brúnbirnir, gaupur, úlfar og elgir.
Skinn sumra dýranna eru eftirsótt (safali, hreysiköttur, refur,
mörður, síberíuhreysiköttur og íkornar).
Í norðurbarrskógunum eru margar fuglategundir (skógarorri,
svartorri, kaperorri, gaukur og hezlihæna).
Í blandskógunum með breiðlaufungunum í vesturhlíðum suðurfjallanna
eru dádýr, greifingjar og pólkettir auk fjölda fuglategunda, sem eru
algengar í Evrópuhluta Rússlands (næturgali og gullþröstur).
Algengustu dýrategundir steppnanna og hálfeyðimarkanna eru
nagdýr af ýmsum tegundum. Þar
eru einnig nokkrar snákategundir.
Stöðuvötn og ár í Norður-Úralfjöllum eru full af fiski (nelma
= hvítfiskur, lax, gráurriði og vatnaurriði).
Á þéttbýlli svæðum sunnar er dýralífið mun fábreyttara.
Geysileg iðnvæðing og fólksfjölgun
í Úralfjöllum á 20. öld breytti bæði landslagi og aðstæðum
villtra dýra. Á Sovéttímanum
var gripið til þess að friða mörg svæði, s.s. Pechoro-Ilych,
Basegi, Visim, Ilmen og Bashkir.
Íbúarnir.
Úralfjöll hafa verið byggð fólki frá ómunatíð.
Nenet- og Samoyed-fólkið í Pay-Khoy-fjöllum talar tungumál,
sem tilheyrir Samoyed-tungumálum.
Þau eru víða töluð í Norður-Síberíu.
Komi, mansi og Khanty búa sunnar.
Þeir tala úrgísk mál, sem tilheyra finnó-úrgíska málaflokknum.
Fjölmennasti þjóðflokkurinn er Bashkir, sem hefur búið í
suðurfjöllunum frá örófi alda og talar tyrkneskt mál.
Nokkrir kazakar búa í Mughalzhar-hæðunum í Kazakstan.
Flestir þessara fyrrum hirðingjaþjóðflokka hafa tekið sér
fasta búsetu. Nenet, Komi,
Mansi og Khanty eru í rauninni einu íbúar háfjallanna, einkum í norðurhlutanum,
þar sem þessir þjóðflokkar hafa verið trúir siðum sínum og
venjum, rækta hreindýr og stunda veiðar.
Bashkirfólkið er afbragðsgott í hestatamningum.
Frumbyggjar fjallanna eru nú orðið aðeins fimmtungur íbúanna,
Rússar eru langfjölmennastir. Þeir búa aðallega í borgum (Yekaterinburg, Chelyabinsk,
Perm og Ufa) um miðbik fjallgarðsins og í honum sunnanverðum. Á steppum Suður-Úralfjalla er aðallega stundaður landbúnaður.
Þar er aðallega ræktað hveiti, kartöflur og annar nytjagróður.
Efnahagslífið.
Úralfjöllin búa yfir gnótt verðmætra jarðefna, þótt í
mismunandi mæli sé eftir bergtegundum þeirra. Víða í
austurhlutanum finnst m.a. málmgrýti, magnetít, vanadium, titanium,
kopar, nickel, báxít, króm, gull og platína.
Einnig finns asbest, maríugler, fínn leir o.fl.
Gimsteinar og hálfeðalsteinar eru víða (ametýst, tópas og
smaragðar). Í
vesturhlutanum finnst potassium salt, olía og gas.
Tjörukol og brúnkol eru báðum megin í fjöllunum.
Mestu birgðirnar eru í Pechora í norðurhlutanum.
Skógarnir
í Úralfjöllum eru
mikil auðlind. Þeir eru nýttir
til timburframleiðslu og þeir hýsa líka fjölda vermætra dýrategunda,
sem eru veiddar vegna skinnanna. Á
steppusvæðunum austan sunnanverðra fjallanna er stundaður landbúnaður.
Þar hefur mestur hluti landsins verið nýttur til ræktunar
hveitis, bókhveitis, hirsis, kartaflna og grænmetis.
Meginhluti námuvinnslu, véla- og
efnaiðnaðar landsins er á Úralsvæðinu vegna nálægðarinnar við
hráefnin. Mikilvægustu iðnaðarborgirnar
eru Magnitogorsk, Chelyabinsk, Nizhny Tagil, Perm, Ufa, Orenburg og
Yekaterinburg. |