Rússneski eyjaklasinn Novosibirskye Ostrova fyrir norðausturströnd
Síberíu í Íshafinu markar skilin milli Laptev-hafs og Austur-Síberíuhafs.
Dmitry Laptev-sund skilur hann frá meginlandinu.
Hann er innan Sakha-héraðs í Síberíu.
Eyjan Novaya Sibir er 6200 km² en heildarflatarmál eyjaklasans
er u.þ.b. 38.000 km². Eyjaklasinn
skiptist í þrennt: Syðst
eru Lyakhovskye eyjar (Bolshoy Lyakhovskye 4600 km²) og milli þeirra
og hinna eyjanna er Sannikova-sund og norðaustast eru smáeyjarnar De
Long-eyjar.
Stærsta eyja aðaleyjaklasans
er Novaya Sibir og næstar að stærð eru Belkovsky, Kotelny og
Faddeyevsky (5000 km²). Milli
hinna tveggja síðarnefndu eyjaklasa er Bunge-eyja, sem er láglend og
verður stundum fyrir óvægnum barningi hafsins. Hæstu staðir þessara eyjaklasa ná allt að 374 m hæð
yfir sjó. Þarna ríkir gríðarkalt
heimskautaloftslag og yfirleitt eru þeir þaktir snjó rúmlega níu mánuði
ársins. Þarna er fátæklegur
túndrugróður og engin merki um runnagróður.
Víða eru sandflæmi og mýrlendi.
Fuglalífið er fjörugt á sumrin og einu landspendýrin, sem þrífast
þarna eru heimskautarefurinn, hreindýr og læmingjar. |