Rúmenía stjórnsýsla stjórnarfar,
[Romanian flag]


RÚMENÍA
STJÓRNSÝSLA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landinu er skipt í 40 sýslur og höfuðborgina Búkarest (íb. 2.064.474 árið 1990).  Höfuðborgin er miðstöð iðnaðar og viðskipta.  Aðrar aðalborgir eru:  Konstanta (eina hafnarborgin við Svartahaf), Brasov (vefnaður, efnavörur, málmvörur), Timisoara , Iasi, Clu-Napoca, Galafi, Ploiesti (olíuiðnaður).

Stjórnsýsla.  Stjórnarskráin, sem gekk í gildi 1991 í stað hinnar frá 1965, er grundvöllur stjórnsýslu landsins.  Eftir að stjórn Ceausescu var fjarlægð á blóðugan hátt í desember 1989 tók Þjóðarráðið, sem var aðallega í höndum fyrrum kommúnista, við framkvæmdavaldinu.  Forseta- og þingkosningar voru haldnar í maí 1990 og vegna þrýstings frá erlendum hjálparaðilum var ný stjórnarskrá samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu í desember 1991.  Í henni voru ákvæði um fjölflokka þingræði og forsetalýðveldi, sem tryggir þegnum sínum full mannréttindi og frjálst markaðskerfi.

Framkvæmda- og löggjafarvaldið
.  Samkvæmt stjórnarskránni er forseti landsins í fararbroddi ríkisstjórna.  Hann er kjörinn til fjögurra ára í senn í almennum kosningum og skipar forsætisráðherra.  Þingið starfar í tveimur deildum og annast löggjöfina.  Í neðri deild sitja 341, þ.m.t. 11 þingmenn minnihlutahópa, og í öldungadeildinni sitja 143 þingmenn.  Allir þingmenn eru kosnir til fjögurra ára í senn.  Framkvæmdavaldið er í höndum forsetans.  Í forsetakosningunum 1992 var Ion Ilescu endurkjörinn.

Dómsvaldið.  Hæstiréttur er æðsta dómstig landsins og dómarar hans hafa umsjón með lægri dómstigum, s.s. héraðs- og borgardómum.

Stjórnmálaflokkar.  Fram að byltingunni 1989 réði kommúnistaflokkurinn lögum og lofum.  Hann komst gekk undir nafninu Verkamannaflokkur Rúmeníu á árunum 1948-65.  Aðalritari flokksins, Nicolae Ceausescu, var valdamesti stjórnmálamaðurinn og flokkurinn stjórnaði nánast öllu, sem hann vildi stjórna.

Að Ceausescu gengnum leystist flokkurinn upp og margir fyrrum meðlimir hans stofnuðu Þjóðfrelsisflokkinn.  Fyrstu frjálsu kosningar eftir síðari heimsstyrjöldina voru haldnar í maí 1990 og Þjóðfrelsisflokkurinn vann stórsigur.  Lýðræðislegi frelsisflokkurinn, sem var klofningsarmur Þjóðfrelsisflokksins sigraði í þingkosningunum 1992.  Lýðræðisflokkur Rúmeníu, Einingarflokkur þjóðarinnar og Ungverski lýðræðisflokkurinn unnu líka sæti á þingi.  Allan tímann frá þessum kosningum hafa verkföll og mótmælaóeirðir vegna hækkandi verðlags sett svip sinn á þjóðlífið og ógnað völdum ríkisstjórna landsins.

Árið 1968 skipti ríkisstjórnin landinu í 39 (nú 40) stjórnsýslueiningar í tilraun til að dreifa valdinu.  Þar að auki er höfuðborgin, Búkarest, sjálfstæð stjórnsýslueining.


Heilbrigðismál.  Meðallífslíkur frá fæðingu eftir 1990 voru 66 ár fyrir karla og 72 ár fyrir konur.  Almenna tryggingarkerfið er í höndum ríkisins.  Það nær yfir heilbrigðiskerfið, endurhæfingu á heilsubótarstöðum, fjölskyldutryggingar og eftirlaun.  Læknafjöldi í landinu er mikill, 1 læknir fyrir hverja 555 íbúa og 108 íbúar eru um hvert sjúkrarúm.  Þessi staða er til fyrirmyndar en það er galli á gjöf Njarðar.  Sjúkrahús og stofnanir fyrir geðsjúka og munaðarleysingja eru langflestar heilsuspillandi og ónýtar.  Getnaðarvarnir og fóstureyðingar voru bannaðar á stjórnarárum Ceausexcu til að ýta undir náttúrulega fjölgun íbúanna.  Þetta leiddi til mikillar fjölgunar munaðarleysingja, barna, sem enginn kærði sig um og þau voru vanrækt á stofnunum.  Reynt var að loka verstu hælunum fyrir geðsjúklinga og koma þeim fyrir í mannúðlegra umhverfi.

Hermál.  Herskylda í land- og flughernum er 12 mánuðir og 18 mánuðir í sjóhernum.  Snemma á tíunda áratugnum voru 203.100 manns í hernum, 161.000 í landhernum, 19.000 í sjóhernum og 23.000 í flughernum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM