Rúmensk menning byggist aðallega á hinni rómversku í bland
við menningu hinna mörgu þjóðarbrota, sem búa í landinu.
Ljóðagerð, þjóðsögur og þjóðlög hafa alltaf verið í
hávegum höfð. Bókmenntir,
listir og tónlist náðu hámarki sínu á 19. öld.
Bókmenntir
og listir.
Rúmenskar bókmenntir eru fjölbreyttar og áhugaverðar.
Í grófum dráttum má skipta þeim í fimm tímabil:
15.-18. öld var á trúarlegum nótum og byggðist á frásögnum
um lífshlaup dýrlinga. Síðla
á 18. öld var lögð áherzla á sögu þjóðarinnar, latnesk áhrif
og tungu hennar. Fram að
fyrri heimsstyrjöldinni náðu bókmenntirnar þroska og byggðust á
þjóðareiningu. Þá bar
mest á rithöfundinum Vasile Alecsandri, sögu- og leikritaskáldi.
Rómantíska ljóðskáldið Mihail Eminescu og leikritaskáldið
Ion Luca Caragiale, sem hæddist að og gagnrýndi smáborgaralegan
hugsunarhátt og líferni á síðari hluta 19. aldar.
Á millistríðsárunum voru bókmenntirnar aðallega á þjóðlegum
nótum og smásögur voru í fyrirrúmi.
Fremstur í flokki var Mihail Sadoveanu.
Frá síðari hluta fimmta áratugarins fram að 1990 einkenndust
bókmenntirnar af sovézkri hugmyndafræði ef frá er skilið
skammvinnt tímabil á sjöunda áratugnum, þegar slakað var á ritskoðun
um tíma. Rithöfundurinn
Eugène Ionesco öðlaðist frægð og frama eftir síðari heimsstyrjöldina
í útlegð sinni í Frakklandi.
Nítjánda
öldin var blómaskeið rúmenskra lista.
Meðal áberandi listamanna voruTheodor Aman, andlitsmálari, og
landslagsmálarinn Nicolae Grigorescu.
Á tímabilinu 1945-1990 ríktu sovézk áhrif.
Á höggmyndasviðinu bar mest á rúmenskfædda listamanninum
Constantin Brancusi, sem starfaði í Frakklandi.
Fjöldi tónlistamanna öðlaðist heimsfrægð á tuttugustu öld.
Kunnastur þeirra voru Georges Enesco, fiðluleikari og tónskáld,
sem er líklega kunnastur fyrir rapsódíur sínar, og píanóleikarinn
Dinu Lipatti.
Bókasöfn og önnur söfn.
Helztu bókasöfn
landsins eru ríkisbókasafnið og Akademíska bókasafnið, bæði í Búkarest.
Listasafn Rúmeníu hýsir afbragðs söfn þjóðlegra,
vesturevrópskra og austurlenzkra verka.
Mörg önnur listasöfn er að finna víða um land.
Fjölmiðlar.
Á kommúnistaárunum var hvergi meiri ritskoðun í heiminum en í Rúmeníu.
Hvert einasta tæki og tól til fjölmiðlunar og fjarskipta voru
skráningarskyld, þ.m.t. heimilisritvélar, og oft var synjað um leyfi
til kaupa og eignarhalds slíkra tækja.
Póst- og símaþjónusta er enn þá ríkisrekin í landinu og
á fyrstu árum tíunda áratugarins voru símatæki u.þ.b. 2,4 milljónir
talsins. Útvarpstæki voru
4,6 milljónir og svipaður fjöldi sjónvarpstækja var í notkun. Blaðaútgáfa er mjög bundin landsvæðum. Dagblöð og tímarit eru víða gefin út á tungum hinna ýmsu
þjóðerna, sem byggja landið. Eftir
fall Ceausescustjórnarinnar 1989 fjölgaði dagblöðum úr 36 í 65. |