Rúmenía efnahagsmál,
[Romanian flag]


RÚMENÍA
EFNAHAGSMÁL

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fram að síðari heimsstyrjödlinni byggði þjóðin afkomu sína að mestu leyti á landbúnaði.  Síðan breyttu hinar svonefndu „5 ára áætlanir” þeim grundvelli og iðnaður varð ofan á.  Þessi breyting olli stöðugum skorti á nauðsynjum, miklum náttúruspjöllum og mengun.  Síðla á níunda áratugnum var verg þjóðarframleiðsla áætluð 151,3 milljarðar US$ (6.570.- á mann) og lækkaði um 5,5% árlega.  Aðlögun að frjálsu markaðskerfit hefur verið hæg.

Eftir fall stjórnar Ceausescu í desember 1989, hrundi hagkerfi landsins og útflutningur varð næstum að engu.  Umbótaáætlanir á næsta ári gerðu ráð fyrir gengislækkun, afnámi niðurgreiðslna á flestum neyzluvörum og einkavæðingu ríkisfyrirtækja til að aðlaga hagkerfið frjálsum markaðsbúskap.  Árið 1991 var áætluð verg þjóðarframleiðsla 31 milljarður US$ (1.620.- á mann).  Alþjóðabankinn veitt landinu 700 milljóna US$ lán í maí 1994 með því skilyrði að öllum ráðum yrði beitt til að draga úr 256% verðbólgu og ná henni niður fyrir 100%.  Fjárlögin 1995 fólu í sér 8,1 milljarð US$ í tekjur og 9,1 milljarð US$ gjöld ríkisins.

Landbúnaður.  Landnýting til landbúnaðar (beitar og ræktunar) er u.þ.b. 62% og u.þ.b. 19% vinnuaflsins er bundin í þessari grein.  Samyrkjubú stóðu undir 90% framleiðslunnar á miðjum 9. áratugnum.  Iðnvæðingaráform ríkisstjórnarinnar ollu stöðnum í landbúnaðnum og skortur varð á matvælum í kjölfarið.  Í kjölfar skiptingar samyrkjubúanna hafði u.þ.b. 46% lands verið skilað til upprunalegra eigenda eða afkomenda þeirra árið 1994.

Á fyrri hluta 9. áratugarins var mest ræktað af maís (6,9 milljónir tonna á ári), hveiti og rúgi (3,2 m.t.), sykurrófum (2,9 m.t.), kartöflum (2,6 m.t.), vínberjum (906 þúsund t.) og ýmiss konar ávöxtum.  Mikill þurrkur á þessu tímabili olli uppskerubresti.  Rúmenía framleiðir mikið af víni.  Á fyrri hluta tíunda áratugarind var fjöldi nautgripa 4,4 milljónir, svína 11 milljónir, sauðfjár 13,4 milljónir og hænsna 106 milljónir.

Skógarhögg og fiskveiðar.  Skóglendi þekur u.þ.b. 28% lands, sem er í ríkiseign.  Timburframleiðslan var u.þ.b. 14,8 milljónir rúmmetra á ári á fyrri hluta tíunda áratugarins.  Svæðin við Svartahaf og ósar Dónár eru þekkt fyrir styrjuveiðar og talsvert er veitt í Atlantshafi.  Snemma á tíunda áratugnum nam heildaraflinn að meðaltali 124.900 tonnum á ári.

Námugröftur.  Olíulindir eru meðal helztu náttúruauðlinda landsins.  Á fyrri hluta tíunda áratugarins var meðalársframleiðsla hráolíu í kringum 59 milljóna tunna og náttúrulegs gass 28,3 milljarðar rúmmetra.  Ploiesti er aðalmiðstöð olíuframleiðslunnar.  Snemma á níunda áratugnum fundust talsverðar olíubirgðir undir hafsbotni í Svartahafi.  Áætlað var að olíubirgðir landsins yrðu þrotnar í kringum árið 2000.  Í vestanverðum Transylvaníuölpunum eru birgðir tjörukola og járns og víða eru talsverðar birgðir brúnkola.  Árleg kolaframleiðsla á fyrri hluta 9. áratugarins var í kringum 36,3 milljónir tonna.  Mikil saltlög í Karpatafjöllum gáfu af sér rúmlega 3,3 milljónir tonna árlega.

Framleiðsla.  Mikil áherzla var lögð á hraða iðnvæðingu eftir síðari heimsstyrjöldina.  Einkum var stefnt að þungaiðnaði (framleiðslu vélbúnaðar og efnaiðnaði) en sáralítill áhugi var á framleiðslu neyzluvara.  Hrástálsframleiðslan var u.þ.b. 13,9 milljónir tonna í kringum 1990 en féll niður í 7,1  milljón tonna næstu árin.  Aðrar mikilvægar framleiðsluvörur voru m.a. tilbúinn áburður (1,1 m.t.), útvarps- og sjónvarpstæki, bílar, unnin matvara, gúmmívörur, baðmull, vefnaður úr ull og silki, fatnaður, skór og kælitæki.

Orkubúskapur.  Snemma á tíunda áratugnum var orkuframleiðslan u.þ.b. 73,1 milljarðar kílóvattstunda (35,8 milljarðar 1970).  Þetta rafmagn var aðallega framleitt með brennslu olíu, gass og lággæða kola og minnstur hluti með vatnsorku.  Stærsta vatnsorkuverið, Járnhlið I í Dóná, er sameign Rúmeníu, Serbíu og Svartfjallands.  Rafmagns- og eldsneytisskortur á níunda áratugnum leiddi til skömmtunar.  Eldsneytisskorturinn varð vegna áherzlu á útflutning eldsneytis vegna skorts á gjaldeyri.  Árið 1991 voru sjö kjarorkuver í byggingu og tvö þeirra voru ætluð til rannsókna.

Fjármál.  Gjaldmiðill landsins er leu = 100 bani.  Gengi hans hefur fylgt markaðsverði síðan 1991.  Landsbankinn (1880) prentar seðla og annast yfirstjórn fjármála allra ríkisfyrirtækja.  Aðrar bankastofnanir eru m.a. Búnaðarbankinn, Fjárfestingarbankinn og sparisjóðir.

Utanríkisviðskipti voru öll ríkisrekin á árunum 1945 og fram á níunda áratuginn.  Árið 1993 var gerð áætlun um endurbætur í efnahagsmálum, þ.á.m. einkavæðingu.  Verðmæti útflutnings voru u.þ.b. 4,3 milljarðar US$ á ári í upphafi tíunda áratugarins og mest var flutt út af eldsneyti, vélbúnaði, húsgögnum, vefnaðar- og efnavörum.  Samtímis voru útgjöld vegna innflutnings u.þ.b. 5,2 milljarðar US$.  Mest var flutt inn af hráolíu og tækjum til iðnaðar.  Sovétríkin og önnur kommúnistaríki voru aðalviðskiptalönd Rúmeníu en viðskipti jukus verulega við Þýzkaland, Sviss, Ítalíu, Bandaríkin, Bretland og Egyptaland eftir 1970.  Árið 1992 varð landið aðili að samstarfssamningi Svartahafsríkja um efnahagsmál.  Sama árið gerði Rúmenía viðskiptasamning við fríverzlunarsamband Evrópu og næsta ár var gerður sambandssamningur við ESB.

Samgöngur.  Járnbrautanet landsins er u.þ.b. 11.348 km langt og vegakerfið u.þ.b. 72.800 km.  Helztu hafnarborgir landsins eru Constanta við Svartahaf og Galati og Braila í ósum Dónár.  Giurgiu við Dóná er tengd olíuvinnslusvæðinu við Ploiesti með olíuleiðslu.  Constanta og Cernavoda við Dóná voru tengdar með skipaskurði 1984.  Kaupskipaflotinn er u.þ.b. 5,8 milljónir brúttótonn.  TAROM-ríkisflugfélagið og LAR, sem er einkarekið, sjá um innanlands- og millilandaflug.

Vinnuafl landsins skömmu eftir 1980 taldi u.þ.b. 10,8 milljónir og u.þ.b. 22% vinnandi fólks voru aðilar að sjö stærstu verkalýðsfélögunum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM