Portúgal landið náttúran,
Flag of Portugal


PORTÚGAL
NÁTTÚRAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Vatnasvið.  Allar meginár landsins eiga upptök sín á Spáni og renna um mörg þröng gljúfur í Meseta og eru því ekki nýtilegar til samgangna og fremur hindanir í vegagerð.  Flestar árnar eru skipgengar stuttan spöl frá sjó.  Lengsta áin, sem stemmir að ósi í Portúgal er Douro (330 km).  Lengsta áin, sem á upptök innanlands, í Serra da Estrela, er Mondego (214 km).  Flóð eru algeng, þegar mikið rignir í sunnanroki og sjór stendur hátt við árósana.  Árnar Guadiana, sem hverfur í Cadizflóa og Minho í norðri mynda hluta landamæranna að Spáni.

Loftslagið
skiptir landinu í þrjú gróðursvæði líkt og á Spáni.  Loftslagstegundirnar þrjár eru kenndar við Atlantshafið, Miðjarðarhafið og meginlandið.  Hið fyrstnefnda er ríkjandi og veldur háum loftraka, einkum í norðvesturhlutanum, þar sem það er milt og úrkomusamt.  Meðalhiti sumarsins við sjávarmál er u.þ.b. 24°C en lækkar, þegar ofar dregur.  Vetrarhitinn er 3-4°C, þó öllu hlýrra sunnan Douroárinnar.  Meðalársúrkoma er rúmlega 1000 mm en bæði minni og meiri eftir landshlutum og landslagi.  Meðalhiti er hæstur og meðalúrkoma minnst með suðurströndinni, s.s. í Algarve, þótt dæmið snúist við í fjöllunum ofan hennar.  Madeiraeyjar búa við loftslag kennt við Miðjarðarhafið, Sahara og úthafið, þannig að úrkoman er árstíðabundin og þurrir og heitir vindar inn í milli en hitafarið er tiltölulega stöðugt.  Á Azoreeyjum ríkja lágþrýstisvæði, þannig að veðurfar er mjög breytilegt.  Úrkoman í Horta á Faialeyju getur náð 1000 mm en stundum koma alvarleg þurrkatímabil.

Gróðurinn í Portúgal er blanda vesturevrópskrar og Miðjarðarhafsflóru með dálítlu afrísku ívafi.  Blandan er ójöfn, því að hin evrópska er tveir þriðju hlutar án þess að hún sé mjög áberandi vegna dreifingar hennar á milli landsvæða.  Norðan Mondegodals nær hún 57% (innar í landinu nær hún 86%) og hin síðarnefnda aðeins 26%.  Í suðurhlutanum er skiptingin í sömu röð 29% og 46%.  Þriðjungur tegundanna er innfluttur, að mestu frá fyrrum nýlendum landsins.  Afleiðingar mannvistar í landinu í nokkrar teinaldir eru m.a. þær, að aðeins fjórðungur skóglendis er eftir.  Víða annars staðar er runnalendi og steppur, þar sem land er ekki ræktað.  Blandaðir laufskógar eru í norðurhlutanum, þar sem landslag Minho er grænt nema á heiðum uppi, þar sem ber mest á beitilyngi, sígrænum runnum og burknum.  Á svæðum, þar sem eik (quercus robur) var allsráðandi, hafa fura og korkeik víðast komið í staðinn auk eucalyptus.  Á rómverskum tímum var mikið um ólífurækt og trén vaxa meðfram ströndinni upp í allt að 360 m hæð en inni í landi, þar sem er þurrara loftslag þrífast þau í allt að 670 m hæð.  Í Dourodalnum var stórum breiðum af eini rutt úr vegi vegna vínræktarinnar.

Þéttustu skógar landsins eru í Beira Altahéraði, þar sem skógræktin er takmörkuð við fjórðung þess.  Furan er mest áberandi í norðurhlutanum, kastaníutré á granítsvæðum og beitilyng á grýttum svæðum.  Tegundaskiptingin eftir hæð er mjög áberandi í Serra da Estrela, þar sem pýrenneaeikin er ofar blómaeikinni, kastaníutrjánum og furunni upp að 1700 m hæð og suðurhlíðar eru þaktar runnum (cistus crispus og c. ladanifer).  Á Algarvesvæðinu eru aðallega Miðjarðarhafstré, s.s. ólífutré, vínviður, fíkjutré, möndlutré og (ceratonia siliqua).  Hin tegundaríka flóra Madeira- og Azoreeyja hefur verið Evrópuvædd, u.þ.b. 100 tegundir eru sérstæðar fyrir Madeira, annaðhvort sem upprunalegar eða einstök afbrigði.  Fjöldi margra plöntutegunda, s.s. burkna, mosa, lyngs (allt til jarðlægra runnategunda) og einis eru afleiðingar búfjárbeitar og annarra íhlutunar mannsins í náttúrunni.  Eina eyjan, sem státar af skóglendi, er Madeira, en það er mannanna verk, því að þar hefur mikið verið gróðursett af ösp, furu og tröllatrjám (eucalyptus).

Fána Portúgals er blanda af evrópskum og norðurafrískum tegundum.  Í sveitum landsins eru villigeitur, villisvín og dádýr jafnalgeng og á Spáni.  Úlfar eiga sín síðustu hæli í Serra da Estrela og gaupur í Alentejo.  Refir, kanínur og íberíski hérinn eru algengar tegundir.  Fuglategundir eru fjölmargar, m.a. vegna þess, að Íberíuskaginn er viðkomustaður fjölda farfugla.  Á Azoreeyjum finnast aðeins smávaxnar tegundir spendýra, s.s. kanínur, hreysikettir, merðir, brúnrottur, svartrottur, mýs og leðurblökur.  Fuglategundir, sem leyft er að veiða, eru m.a. akurhænur, lynghænur og hrossagaukar.  Heimkynni munkasela eru á Madeiraeyjum.  Þar verpa 40 tegundir fugla en aðeins músarindillinn er upprunalegur varpfugl.  Tegundafjöldi bjalla, tæplega 700 og mýflugna u.þ.b. 100 (fjórðungur þeirra er innlendur) er einstakur.  Hafið fyrir ströndum Portúgals er ríkt af tegundum, einkum evrópskum sardínum, og krabbadýr eru algeng fyrir klettaströndum norðurhlutans.  Í Aveirolóninu og árósum Tagus- og Sadoánna er mikið um ostrur.  Stærri fiskar, s.s. túnfiskur og mulli, eru veiddir fyrir ströndum Azore- og Madeiraeyja.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM