Madeira meira Portúgal,
Flag of Portugal
 

Madeira flag Madeira


MADEIRA
MEIRA - PORTÚGAL

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Madeira Island ImageÞjónustulund íbúanna er annar mikilvægur eiginleiki.  Hún kemur í ljós strax og gestir stíga á land.  Það er allt gert til að þeim líði vel, enda er ferðaþjónustan aðalatvinnugrein eyjaskeggja.

Forvitnilegir staðir eru margir á eyjunni.  Þótt Madeira sé lítil eyja, er ótrúlega margt að sjá og skoða.  Boðið er upp á fjölda skoðunarferða, m.a. hringferð um eyjuna, sem enginn skyldi láta fram hjá sér fara.  Þá má nefna dags- eða hálfsdagsferðir upp í fjöllin allt eftir áhuga hvers og eins, en sérstaklega skal bent á ferð í Nunnudalinn.  Í þessum ferðum upplifa ferðamenn stórkostlega náttúrufegurð í djúpum dölum með hrikalegar og brattar fjallshlíðar, sem eru þaktar fjölbreyttum gróðri.  Það er gaman að heimsækja þorp innfæddra í þessum ferðum, setjast niður á kaffihúsum og drekka með þeim kaffi eða hin þekktu Madeiravín.  Fyrir þá, sem vilja ferðast um eyjuna á eigin vegum, skal bent á, að bílaleigur eru fjölmargar.

Gönguleiðir eru margar og mismunandi og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.  Mikið er af fallegum göngustígum upp í fjöllin og þeir eru merktir eftir því, hversu erfiðir þeir eru.  Á gönguferðum um miðborg Funchal er einnig margt að sjá, hvort sem fólk vill skoða fallegar byggingar, iðandi mannlíf eða ganga um höfnina og virða fyrir sér fiskimenn að landa og selja afla sinn eða skútur af öllum stærðum frá ýmsum þjóðlöndum.

Golfarar ættu að taka með sér settið sitt, því tveir fallegir golfvellir eru á eyjunni og á öðrum þeirra var PGA-OPEN mótið haldið 1993.

Höfuðborgin Funchal er mjög falleg og vinaleg  með fallegum skrúðgörðum og torgum, þar sem fágætar blómategundir vaxa.  Í eldri hluta miðborgarinnar eru þröngar, snyrtilegar og vinalegar götur með fjölskrúðugu og skemmtilegu mannlífi.  Í borginni er aragrúi af kaffihúsum og veitinga-stöðum, m.a. við höfnina.  Það getur verið skemmtileg stund að sitja á útiveitingastað við höfnina og virða fyrir sér mannlífið og skútur og skip frá öllum heimsálfum.  Í Funchal er einnig að finna spilavíti, næturklúbba og staði, sem bjóða upp á þjóðdansasýningar, m.a. portúgalska þjóðdansinn Fato.

Verðlag er mjög hagstætt.  Gjaldmiðillinn er hinn sami og í Portúgal, escudo, og er gengi hans kr. 0,42 (1994).  Það er ódýrt að borða og drekka á Madeira og er maturinn mjög góður, góðir kjötréttir og frábærir fiskiréttir.  Þeir, sem eru í verzlunarhugleiðingum, ættu að huga að leðurvörum og tízkufatnaði.

Madeiravínin heimsþekktu er sú afurð eyjarinnar, sem Íslendingar þekkja bezt.  Það er boðið upp á vínskoðunarferð um vínkjallarana í Funchal, þar sem gestum gefst kostur á að smakka á veigunum.

Heimilisiðnaður eyjaskeggja er nokkur og má nefna dúkasaum og annan fallegan útsaum, körfugerð og tréskurð.

Hótel eru mörg og góð, þ.á.m. lúxushótelið Savoy.  Það er fimm stjörnu hótel í göngufæri frá höfninni og miðbænum.  Þetta er glæsilegt hótel í enskum stíl, skreytt fallegum listaverkum með stórum og fallegum setustofum og salarkynnum.  Öll herbergin (341) og svíturnar (12) eru með loft-kælingu, síma, sjónvarpi, smábar, hárþurrku, öryggishólfi og svölum.  Þar eru fimm veitingastaðir, bar, verzlanir, heilsurækt, hárgreiðslustofa, nuddstofa, bókasafn o.fl.  Gengið er í gegnum fallegan garð hótelsins niður að einkaströnd þess.  Ekki er um sandströnd að ræða, því þær finnast fáar á eyjunni, heldur eru sundlaugarnar og öllum aðstaða steypt út í sjóinn.  Þarna eru tvær sundlaugar og öll aðstaða eins og hún gerist bezt.  Sólbekkir, sólhlífar og handklæði eru gestum að kostnaðarlausu, svo og skiptiklefar.  Göngustígur er út í litla eyju, sem tilheyrir hótelinu.  Þar er hægt að synda og stunda ýmsar sjóíþróttir.

Vila Ramos er annað hótel í eigu Savoyhótelkeðjunnar.  Þar eru 350 herbergi og það býður upp á allt hið sama og Savoy-hótelið, nema að það stendur ekki á ströndinni.  Þetta er fjögurra stjörnu hótal uppi í hlíðinni fyrir ofan borgina, innan um bananaekrur með frábæru útsýni yfir  bæinn.  Hótelið er í u.þ.b. 15 mín göngufjarlægð frá Savoyhótelinu, en einnig er boðið upp á ókeypis akstur á milli hótelanna og hafa gestir Vila Ramos frían aðgang að allri aðstöðu á Savoy, bæði innan og utan dyra, þ.á.m. sundlaugum og baðaðstöðu.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM