Portúgal efnahagslífið,
Flag of Portugal


PORTÚGAL
EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landbúnaður.  Landbúnaðarframleiðslan, hvort sem er kornvara eða kjöt, er minni en í öðrum Evrópulöndum vegna lítillar fjárfestingar, frumstæðra búnaðarhátta, lítillar notkunar áburðar og eignarréttar lands.  Aðaluppskeran byggist á hveiti, byggi, maís, hrísgrjónum, kartöflum, ólífum, vínberjum og tómötum.  Landið er meðal stærstu útflytjenda tómatsósu og gæðavína.  Þessi útflutningur vegur á móti innflutningi hveitis og kjötmetis.  Víðast, einkum í norðurhlutanum, eru lítil býli með dreifðu eignarhaldi, sem kemur í veg fyrir samvinnu í ræktun og hagkvæma skiptingu korntegunda.  Í suðurhlutanum, nema í Algarve, eru stórbýli í eigu auðugra landeigenda, sem búa fjarri rekstrinum og hafa engan áhuga á að fjárfesta í vélbúnaði, áburði og öðrum tæknibúnaði til að auka framleiðsluna og gera hana arðbærari.  Eftir byltinguna voru stór landbúnaðarsvæði sunnan Tagus þjóðnýtt og fyrrum eigendum greiddar nokkrar bætur.  Þessum aðgerðum var aðallega ætlað að bylta stóreignakerfinu, gefa smábændum frumkvæði, lækka skatta, kynna nýja ræktunarmöguleika, auka ræktun húsdýrafóðurs og gera ræktun búfjár hagkvæmari.  Stór svæði urðu að samyrkjubúum.  Þessi snöggu umskipti ollu stjórmálalegri spennu og minni framleiðslu í landbúnaði.  Eftir 1976 varð stefnubreyting.  Stjórn sósíalista beitti sér fyrir nútímavæðingu og aukinni framleiðslu býla í einkaeign.  Þriðjungur landsins er skógi vaxinn og fjalllendið er víðast vel fallið til skógræktar, sem tók fjörkipp á síðasta fjórðungi 20. aldar, einkum á svæðum, sem voru illa farin af uppblæstri.

Fiskveiðar eru mikið stundaðar á gjöfulum miðum meðfram ströndinni.  Mikið er veitt af sardínu, ansjósu og túnfiski auk þorsks úr Norður- Atlantshafi.  Fiskiðnaðurinn hefur blómstrað og afurðirnar eru seldar á mörkuðum um allan heim.  Helztu hafnirnar eru Matosinhos, Setúbal, Portimão og nokkrar í Algarve.  Þrátt fyrir mikla útgerð, nægir aflinn ekki fyrir innanlandsmarkaðinn, þannig að mikið er flutt inn af saltfiski frá Íslandi, skreið frá Noregi og sardínum frá Rússlandi.  Portúgalar stunduðu miklar fiskveiðar á fjarlægum miðum í aldanna rás (sjá „Ævisaga þorsksins” í þýðingu Ólafs Hannibalssonar).

Námuvinnsla.  Benzín og olíuvörur eru fluttar inn.  Kolavinnslan, sem hefur aukizt mikið síðan á níunda áratugnum, nemur u.þ.b. 5% af orkuþörf landsins.  Þriðjungur rafmagsins er framleiddur í vatnsorkuverum.  Járnblendisnám, s.s. tungsten (wolfram), tin og króm, er talsvert í landinu og mestur hluti tungstens er fluttur út.  Kolin úr námunum í Moncorvo eru að mestu notuð til stálframleisðlu í Stálverksmiðjum ríkisins.  Kopar er numinn í Neves og Corvo.

Iðnaður.  Aðaliðnaðarsvæði landsins eru á Lissabon-Setúbalsvæðinu í suðurhlutanum og Porto-Braga-Aveirosvæðinu í norðurhlutanum.  Í suðurhlutanum eru olíuhreinsunarstöðvar, sementsverksmiðjur, stáliðjuver, skipasmíðar, bílaframleiðsla, elektrónísk tækjaframleiðsla, trákvoðu- og korkframleiðsla.  Í norðurhlutanum er meira um léttari iðnað, s.s. vefnaðarvörur, skó, húsgögn, vín og fullunnar matvörur.  Aveiro er miðstöð trjákvoðuframleiðslunnar og timburvöru, Braga sér um fatnað, hnífapör og elektrónísk tæki og í Sines, sem er hafskipahafnarborg u.þ.b. 150 km sunnan Lissabon, eru olíuhreinsun og orkuframleiðsla efst á listanum.  Stóriðnaðurinn var þjóðnýttur í kjölfar byltingarinnar árið 1974.  Eftir inngönguna í Evrópusambandið 1986 tók þróun í einkavæðingarátt við og í kringum 1990 var búið að einkavæða flest þjóðnýttu fyrirtækin.  Eignarhald iðnfyrirtækja er nú með þrennum hætti:  Almenn hlutafélög um þungaiðnað, einkarekstur léttari iðnaðs og alþjóðavæðing tæknifyrirtækja.

Banka- og fjármál.  Bankar og tryggingarfyrirtæki voru þjóðnýtt árið 1975 og síðan einkavædd smám saman á níunda áratugnum.  Í byrjun hins níunda námu ítök ríkisbankanna u.þ.b. 90% og tryggingarfyrirtækja 60% á markaðnum.  Ríkisbankarnir líða fyrir löggjöfina, sem skuldbindur þá til að lána fé á lágum vöxtum til einkaframtaksins og ríkisins til að jafna fjárlagahalla landsins.  Síðan landið varð aðili að Evrópusambandinu hafa þróast fjármagnsmarkaðir, sem búa við frjálsa samkeppni.

Verzlun og viðskipti. 
Portúgal býr við óhagstæðan viðskiptahalla.  Innflutningur matvöru, hveitis, hráolíu, vela, bifreiða og hráefna hefur verið meiri en útflutingur vefnaðarvöru, fatnaðar, trjákvoðu, víns, korks og tómatsósu.  Aðalviðskiptalönd landsins eru Bretland, Frakkland, og önnur lönd í Evrópusambandinu.  Viðskipti við fyrrum nýlendur landsins eru orðin að engu.  Viðskiptahallinn hefur einkum verið jafnaður með peningum, sem farandverkamenn senda heim til fjölskyldna sinna, og ferðaþjónustunni.  Gjaldeyrisforði landsins fór að aukast eftir aðildina að ESB vegna erlendra fjárfestinga.  Á árunum 1974-84 var allur gjaldeyrisforði landsins nýttur til að jafna viðskiptahallann.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM