Kraká
er höfuðborg Krakáhéraðs í suðurhluta Póllands við ána Vislu.
Hún er miðstöð iðnaðar, menningar og menntunar þessa
landshluta. Hún er líka
miðstöð viðskipta með kol, sink, salt, timbur, nautgripi, landbúnaðarafurðir
og vín. Leninverksmiðjurnar
eru einhverjar stærstu járn- og stálverksmiðjur Austur-Evrópu.
Aðrar verksmiðjur framleiða vélbúnað, sápu og tóbak.
Borgin er í vega- og járnbrautasambandi við aðrar borgir
landsins og Prag.
Borgin
skiptist í miðborgina og nokkur úthverfi.
Miðborgin var umkringd múrum á miðöldum þar sem eru nú göngugötur.
Víða um borgina eru sögulegar byggingar, þ.á.m. gotneska dómkirkjan,
sem var vígð 1359 og helguð heilögum Stanislas, verndardýrlingi Póllands,
sem Boleslav II, konugur Póllands, lét taka af lífi fyrir altari
kirkjunnar árið 1079. Dómkirkjan
var löngum vettvangur krýningarathafna konunga Póllands og er
grafarkirkja frægra manna úr sögu landsins, s.s. John III Sobieski,
konugns, Thaddeus Kosciusko, uppreisnar mannsins og föðurlandsvinarins,
Adam Mickiewicz, ljóðskálds, og stjórnvitringsins Józef Piosudski.
Meðal annarra merkilegra bygginga er kirkja heilagrar Maríu,
gotnesk bygging frá árinu 1223. Í
henni er frægt altari, eftir þýzka myndhöggvarann Veit Stoss. Hann var meðal mestu listamanna 14. aldar í Evrópu.
Bygging hins konunglega Wawel-kastala hófst á 13. öld og hann
var stækkaður síðar. Hið
eina, sem er eftir af miðaldaráðhúsinu er gotneskur turn.
Krakáháskóli
(1364), Tækniháskóli Kraká (1945), nokkrar vísindastofnanir og Þjóðlistasafnið
eru meðal nokkurra mennta- og menningarstofnana borgarinnar.
Upphaf
borgarinnar er óljóst en hún er talin meðal elztu borga landsins.
Samkvæmt þjóðsögunni hófst bygging hennar í tengslum við
kastala í kringum aldamótin 700.
Á 12. öld varð hún höfuðborg konungsdæmisins Póllands og
mikilvæg viðskiptamiðstöð. Tatarar
gerðu innrás í Kraká árið 1241 og lögðu hana í rústir.
Þýzkir innflytjendur endurbyggðu borgina síðar.
Árið 1430 varð hún Hansaborg.
Á fyrri hluta 17. aldar varð Varsjá höfuðborg Póllands.
Árið 1794, á tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar, varð
Kraká miðstöð byltingarinnar, sem Kosciusko leiddi, og árið 1795
lagði Austurríki hana undir sig.
Fjórtán árum síðar innlimaði Napóleon borgina í hertogadæmið
Varsjá. Eftir fall Napóleons
gerði austurríska þingið hana að höfuðborg hins sjálfstæða lýðveldis
Kraká. Þetta lýðveldi
var innlimað í Austurríki árið 1846.
Árið 1914 var borgin vettvangur mikilla bardaga milli þýzk-austurrískra
og rússneskra herja. Eftir
fyrri heimsstyrjöldina varð Kraká aftur pólsk.
Í síðari heimsstyrjöldinni hersátu Þjóðverjar hana til
1945, þegar sovézkar hersveitir náðu henni á sitt vald.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1989 var 750 þúsund. |