Pólland íbúarnir,
Flag of Poland


PÓLLAND
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fram að síðari heimsstyrjöldinni var Pólland þekkt fyrir fjölbreytni íbúa sinna.  Í héruðunum Selesíu, Pommern og Masúríu (þá þýzkt) var stór minnihluti Þjóðverja.  Úkraínskar byggðir voru í suðausturhlutanum, austan Chelm og í Karpatafjöllum austan Nowy Sacz.  Í öllum borgum var aragrúi gyðinga, sem töluðu jiddísku.  Þessi deigla fólks teygði anga sína til Litháen, Belarus og Vestur-Úkraínu.  Pólverjar voru í meirihluta í borgum og víða í dreifbýlinu.  Minnihlutahópar þeirra voru líka í Lettlandi, Minsk (í Belarus) og Kænugarði (Kiev, Úkraína).  Síðari heimsstyrjöldinn olli gífurlegum breytingum á þessu munstri.  Fjöldi fólks féll eða var drepinn landamærin breyttust og hundruð þúsunda fóru á vergang. Afleiðingin varð sú, að Pólverjar eru nú meðal einsleitustu þjóða heims, hvað uppruna snertir.  Langflestir íbúarnir telja sig Pólverja og tala pólsku.  Úkraínumenn eru stærsti minnihlutahópurinn, sem býr dreift í hoðruhluta landsins.  Mun færri Litháar og Belarusar búa í grennd við landamæri Belarus og Litháens.  Gyðingum fækkaði mjög vegna helfarar Hitlers og þeir, sem nú búa í landinu, hafa samlegast öðrum íbúum þess.  Í Selesíuhéraði býr blanda af Pólverjum og Þjóðverjum, sem hagar seglum eftir vindi og segist stundum vera Þjóðverjar eða Pólverjar, allt eftir pólitískum aðstæðum.

Byggðarþróun í landinu var ákaflega mismunandi fram á miðja 20. öld.  Í mið- og austurhlutunum var mikið um lítil og óregluleg þorp sjálfþurftarbænda og hirðingja í skógarrjóðrum og til fjalla teygðust þau eftir fjalladölunum.  Stærri og skipulegri byggðir voru og eru í Neðri-Selesíu, þar sem folk af germönskum stofnum kom sér fyrir á miðöldum.  Í norðurhlutanum byggðist í kringum stóra herragarða prússneskra aðalsmanna.  Í mið-, austur- og suðurhlutunum voru húsin víðast einnar hæðar úr timbri en upp úr miðri öldinni fór þeim að fækka og í staðinn risu tveggja og þriggja hæða múrsteinshús.  Víða hefur verið reynt að halda hefðbundnum byggingarstíl en með mismunandi árangri.  Mestur vöxtur byggðar hefur verið í grennd við stórborgirnar og á vinsælum ferðamannastöðum.

Þjóðfélagslegar breytingar í síðari heimsstyrjöldinni og eftir hana.  Fyrir styrjöldina bjuggu 35 milljónir manna innan landamæra Póllands árið 1939.  Eftir styrjöldina bjuggu 24 milljónir innan nýju landamæranna.  Færsla landamæranna skýrir þennan mun að talsverðu leyti, því að stór hluti af landinu varð hluti af Sovétríkjunum, og einnig sú staðreynd, að mikill fjöldi fólks þar lagði á flótta og yfirgaf heimili sín.  Ekki eru allir á eitt sáttir um tölu fallinna og myrtra en opinberlega er talað um 6.028.000 í landinu eins og það leit út eftir breytinguna á landamærunum eftir styrjöldina.  Milljónir Þjóðverja voru reknir af norður- og vestursvæðunum, sem Pólverjar fengu af þýzku landi 1946-47, og samtímis komu milljónir Pólverja frá Sovétríkjunum í þeirra stað.  Fjöldi Belarusa og Úkraínumanna, sem voru fluttir frá Póllandi til Sovétríkjanna á þessum tíma, er talinn hafa verið u.þ.b. ½ milljón.

Þessir fólksflutningar og fækkun vegna stríðsátaka og útrýmingar olli langvarandi truflun á eðlilegri þróun mannfjöldans.  Í stríðslok voru karlmenn miklu færri en konur, borgarbúar voru mun færri og skortur var á menntuðu fólki.  Fæðingum fjölgaði gífurlega strax í kjölfarið og íbúafjöldinn jókst hratt á ný, einkum í norður- og vesturhlutunum, þannig að sama fjölda og fyrir stríð var náð aftur árið 1977.  Fæðingum fækkaði mjög eftir níunda áratugnum og það hægðist á fólksfjölgun.  Undanfarnar tvær aldir hafa Pólverjar flutt úr landi og gróflega reiknað býr þriðjungur þeirra erlendis.  Hópar pólitískra flóttamanna hafa setzt að annars staðar frá miðri 18. öld en langflestir brottfluttra hafa verið í leit að leiðum til að framfleyta sér.  Upp úr miðri 19. öld fluttu margir til iðnaðarhéraða Evrópu og skömmu síðar til Bandaríkjanna.

Félagsleg staða og uppbygging.  Helztu breytingar í pólsku þjóðfélagi eftir síðari heimsstyrjöldina hafa ráðist af fjölgun iðnverkafólks í borgum og stöðugum straumi fólks úr dreifbýlinu til borganna.  Árið 1946 bjuggu tvöfalt fleiri í sveitum landsins en í borgum, árið 1960 voru jafnmargi í borgum og sveitum og um miðjan tíunda áratuginn hafði hlutfallið frá 1946 snúizt við.  Margir bændur reyndu og reyna að nýta sér störf í iðnaði og búa einir í úthverfum borganna og eiga fjölskyldur sínar í sveitinni.

Kommúnistastjórnin lagði áherzlu á stéttlaust þjóðfélag öreiganna en bændur streittust gegn sameiningu landa sinna fyrir samyrkjubú.  U.þ.b. 2,5 milljónum bænda tókst að halda í eignir sínar allan tímann, sem kommúnistar voru við stjórn.  Samtímis var leyft að stofna lítil einkarekin iðnfyrirtæki.  Flokksforkólfarnir nutu alls konar hlunninda, sem aðrir gátu aðeins látið sig dreyma um.  Síðan 1989 hefur þjóðfélagið orðið mun fjölbreyttara.  Einkareknum fyrirtækjum hefur fjölgað mikið og nokkrir hafa grætt á tá og fingri.  Margt eldra fólk með fastar tekjur hefur orðið útundan og á vart til hnífs og skeiðar.

Tungan er vesturslavnesk eins og fleiri mál í Mið-Evrópu.  Mállýzkur þess samsvara í aðalatriðum gömlu ættflokkaskiptingunni.  Flestir íbúar landsins tala hápólsku, sem er daglega töluð í norðvesturhlutanum, og lágpólsku, sem er daglegt mál í suðausturhlutanum.  Mazovíska er að sumu leyti lík kashubísku en hana tala færri en 200 þúsund manns vestan Gdansk við Eystrasaltið. Selesíska er minna töluð á okkar dögum.  Pólskan hefur ekki farið varhluta af áhrifum annarra tungumála.  Í Selesíu eru svæði, þar sem íbúarnir tala blöndu af pólsku og þýzku.  Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur pólska rutt sér sjálfkrafa til rúms vegna gjörbreyttra aðstæðna, þótt svæðisbundnar mállýzkur séu enn þá við lýði.  Í vestur- og norðurhlutunum, þar sem fjöldi Pólverja frá Sovétríkjunum kom sér fyrir, fór eldri kynslóðin að tala sömu tungu og fólkið í austurhlutanum á öldum áður.  Fámennir hópar tala líka belarusísku, úkraínsku og þýzku auk nokkurra afbrigða af tataramáli.  Pólskt ritmál þróaðist frá miðöldum á grundvelli há- og lágpólsku.  Bæði tal- og ritmálið stóð af sér tilraunir Þjóðverja og Rússa til að gera sínar tungur ráðandi.  Þessar tilraunir urðu einungis til þess að efla þjóðarvitund Pólverja og þjappa þeim saman.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM