Gdansk Pólland,
Flag of Poland


GDANSK
PÓLLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Gdansk er stjórnsýslumiðstöð Gdanskhéraðs í Norður-Póllandi og hafnarborg fyrir hafskip við Danzigflóa í skjóli Helskagans.  Tvær kvíslar árinnar Vislu renna um borgina og yfir þær er fjöldi brúa.  Yfirbragð borgarinnar er miðaldarlegt nema í hinum nýlegu iðnaðarhverfum og Langgarten.  Í miðaldahlutanum eru mjóar og bugðóttar götur með gaflhúsum prýddum svölum úr úthöggnu grjóti.  Þar ber mest á kirkju hl. Maríu (1343-1505), sem hýsir síðasta dóminn eftir  Hans Memling.  Aðrar merkilegar byggingar eru ráðhúsið í gotneskum stíl, kauphöllin (fyrrum Kaupmannagildið; 1379) og kirkja hl. Katrínar.  Langgarten-hverfið kom í staðinn fyrir borgarmúrana frá 1895-96, sem voru fjarlægðir úr vestur- og norðurhlutum borgarinnar, nær yfir stóran almenningsgarð, breiðar götur og fjölda nútímabygginga.  Helztu menntastofnanir Gdansk eru Listaháskólinn (1945), Borgarháskólinn (1970) og fjöldi lista-, tónlistar- og viðskiptaskóla.  Meðal menningarstofnana er Borgarbókasafnið og fjöldi leikhúsa.

Gdansk er ein helzta viðskiptaborg Póllands.  Þar er ekki einungis góð hafnaraðstaða tengd vatnaleiðum innanlands heldur einnig þéttriðið járnbrautanet til allra helztu borga og staða í landinu og á meginlandinu.  Bæði erlend og innlend skipafélög annast þjónustu við höfnina og um hana fer lunginn af innflutningi og stór hluti útflutnings landsmanna.  Borgin varð illa úti í síðari heimsstyrjöldinni, en endurreisnin hófst fljótlega og iðnaðurinn var byggður upp á ný.  Helztu framleiðsluvörur borgarinnar eru skip, járnbrautavagnar, húsgögn, sykur, tilbúinn áburður, vopn, múrsteinar, vindlingar og mikið af neyzluvöru.


Sögulegur uppruni borgarinnar er hulinn móðu tímans en þó er vitað um borgina í kringum árið 970.  Fyrstu þrjár aldirnar í skráðri sögu hennar skiptust Danir, Svíar og Pommern á um árásir og aðfarir að henni.  Teiftónsku riddararnir náðu henni á sitt vald árið 1308.  Árið 1358 var Gdansk að Hansaborg og næstu aldirnar, einkum á 16. og 17. öldum, var hún í fremstu röð verzlunarborga Evrópu.  Í sænsk-pólsku stríðunum á 17. og 18. öld missti hún yfirburði sína á viðskiptasviðinu.  Árið 1793, þegar Póllandi var skipt, varð borgin hluti af Prússlandi.  Árið 1807, eftir sigur Napóleóns á Prússum við Jena, varð hún fríríki undir stjórn Frakka og saxa.  Prússland fékk hana aftur 1815 eftir Vínarfundinn.  Samkvæmt skilmálum Versalasamninganna í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar (1919) varð borgin enn að fríríki (1953 ferkm) undir stjórn Þjóðabandalagsins.

Í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar (1939) lögðu Þjóðverjar allt Pólland undir sig.  Á Potsdamráðstefnunni 1945 fengu Pólverjar yfirráðin.  Árið 1970 hófst órói meðal verkamanna í Gdansk, sem markaði upphafið að mótmælum gegn kommúnistastjórninni um allt land.  Árið 1980 leiddu frekari mótmæli og verkföll í skipasmíðastöðvum borgarinnar til stofnunar Einingar (Solidarity).  Þessi hópur átti drýgstan þátt í frjálsu kosningunum 1989 og leiddi samsteypustjórnina, sem komst til valda að þeim loknum.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1991 var rúmlega 465 þúsund.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM