Lima
er bæði höfuðborg landsins og sérstakt hérað.
Hún er aðalmiðstöð verzlunar og iðnaðar. Miðborgin er í 156 m hæð yfir sjó á suðurbakka Río Rímac,
u.þ.b. 13 km frá hafnarborginni Callao við Kyrrahafið, og er 70 km²
að flatarmáli. Nafn
borgarinnar er afbökun indíánaorðsins Rímac, sem þýðir ræðumaður.
Borgin er eins og vin á auðnarlegri strandlengjunni og prýdd
Andesfjöllum í bakgrunni. Mikilvægi
borgarinnar fyrir landið kemur e.t.v. bezt fram í gælunafni hennar „Kolkrabbinn”. Stór-Lima
nær yfir stórt svæði og þar býr næstum þriðjungur landsmanna.
Viðgangur borgarinnar byggist ekki sízt á því, hve miðstýring
er mikil en hún þróaðist, þegar leyst var úr ágreiningi og átökum
milli héraða landsins á 19. öld. Löngum var borgin eina góða sambandið milli landsmanna og
umheimsins, því að hún var og er vel í sveit sett í landinu miðju
með hafnarborgina Callao.
Loftslagið.
Borgin er í hitabeltinu en svalur Perústraumurinn
(Humboltstraumurinn) temprar áhrif þess allt árið.
Meðalhitinn er á bilinu 16°C-18°C á veturna og 21°C-27°C
á sumrin. Kæling loftsins
fyrir ströndinni veldur oft skýjuðu veðri á veturna og þéttu
mistri (garúa), sem flæðir inn yfir borgina af hafi.
Úrkoman er sjaldnast meiri en 50 mm á ári og er yfirleitt
afleiðing þessa raka misturs. Loftrakinn
heldur í sér loftmenguninni, þannig að Limabúar geta yfirleitt
fundið bragðið af loftinu. Loftrakinn
veldur líka mikilli oxun, þannig að algengt er að sjá ryðgaða bíla
og járnmannvirki. Margir efnaðir borgarbúar eiga vetrardvalarstaði á ströndunum
norðan eða sunnan borgarinnar eða í La Molina skammt austan Lima, þar
sem hvorki gætir misturs né skýja.
Borgarmyndin
er fjölbreytt og frá ýmsum tímum.
Kjarni gömlu borgarinnar, sem spænskir landnemar sköpuðu á
16. öld og var girt múrum að hluta á 17. öld, er heldur enn þá
ferhyrningslöguðu skipulagi. Hann
nær að Rímac-ánni í norðri og umhverfis eru breiðgötur.
Þarna eru nokkrar endurbyggðar nýlendubyggingar (Torre Tagle-höllin,
dómkirkjan og erkibiskupshöllin) milli 19. og 20. aldar bygginga, sem
voru margar hverjir reistar á grunnum nýlenduhúsa, sem hrundu í jarðskjálftum.
Gömlu múrarnir voru rifnir um miðja 19. öld. Aðaltorgin tvö (Plaza de Armas og Plaza Bolívar) eru enn
miðpunktar áhugaverðrar byggingarlistar.
Forsetahöllin, sem stendur á grunni húss Pizarro) og margar aðrar
byggingar sýna vinsældir franska keisarastílsins. Norðan Rímac-árinnar er gamla nýlenduúthverfið með gömlum
húsum við mjóar og bugðóttar götur og breiðgötuna Alameda de los
Descalzos (Breiðgata berfætta munksins).
Fyrrum
íbúðahverfi miðborgarinnar hefur tekið nokkrum róttækum
breytingum, einkum eftir 1930. Flestum
stóru einbýlishúsanna hefur verið skipt, þannig að í sumum búa
allt að 50 fjölskyldur. Þetta
fátækrahverfi í miðborginni (fyrrum kallað tugurios, corralones og
callejones) hefur aðallega hýst aðflutt fólk úr sveitum landsins,
sem hefur verið að reyna að koma undir sig fótunum.
Hreinlæti í slíkum hverfum er með bágasta móti.
Aðrir
hlutar borgarinnar hafa tekið breytingum vegna niðurrifs og
endurbygginga. Íbúðahverfi
hafa vikið fyrir bönkum, tryggingafélögum, lögmannastofum og stjórnsýslubyggingum.
Lima
stækkaði ekki mikið út fyrir borgarmúrana þar til járnbrautir og
sporvagnar komu til sögunnar um miðja 19. öld.
Næstu 75 árin var vöxturinn stöðugur og borgin fékk á sig
sérstakt yfirbragð. Í
vesturátt til Callao voru byggð iðnfyrirtæki.
Íbúðabyggð reis til suðurs frá Barranco að Magdalena og
til austurs, í átt að Vitarte, spruttu upp verksmiðjur í bland við
lágstéttarhúsnæði. Á
fjórða áratugi 20. aldar byggðust lítil úthverfi í átt til
Strandar. Þessi hverfi
fengu síðar nöfnin La Victoria, Lince, San Isidro og Brena. Fjöldi bændabýla og ræktað land milli úrhverfanna ásamt
gróðursnauðum svæðum voru byggð, þegar aðstreymi fólksins úr
sveitunum jókst. Á sjötta
áratugnum varð borgin kunn fyrir þessi fátækrahverfi (barriadas),
sem voru síðan skírð jóvenes, þegar skipulagi var komið á þau.
Þarna býr nú um þriðjungur íbúa borgarinnar.
Eldri jóveneshverfin, s.s. Comas, hafa samlagazt borgarmyndinni.
Íbúarnir.
Lima er orðin þjóðlegasta borg landsins, deigla fólks úr öllum
landshornum. Áður en hálendisbúarnir
fóru að setjast að í borginni var tiltölulega auðvelt að greina
muninn á hvíta hástéttarfólkinu og blöndu hinna lægra settu.
Nú er deigla kynþátta, þjóðerna og stétta orðin svo flókin,
að skilgreining er ekki auðveld.
Auðgreindasti munurinn er bilið milli ríkra og voldugra og fátæklinga,
sem fer vaxandi. Það þarf
ekki annað en að virða fyrir sér hina velklæddu, sem ganga um
Kennedy-garðinn í Miraflores á laugardagskvöldum og síðan
betlarana í miðborginni til að borgin hefur ekki þróazt, þótt hún
hafi stækkað. Langflestir
borgarbúar hafa ekki aðgang að vatnsveitu, skolpkerfi, ódýrri fæðu
og atvinnuöryggi, sem þá dreymir um.
Langflestir
Limabúar eru rómversk-katólskir og gefa þar með borginni íhaldssamt
yfirbragð. Þetta kemur
m.a. fram í gífurlegri þátttöku í árlegum hátíðum (El Senor de
los Milagros, Santa Rosa de Lima og San Martín de Porres).
Vaxandi fjöldi íbúa í fátækrahverfunum og fátækum úthverfum
gagnrýnir afstöðu kirkjunnar til félags- og stjórnmála vegna boðskapar
presta, sem aðhyllast frjálslega guðfræði.
Efnahagslífið.
Lima er óumdeildur miðpunktur efnahagslífsins í Perú.
Þar fara 60% framleiðslu landsins fram og næstum öll fjármálaumsýsla.
Lima er aðalmarkaður innlendrar og innfluttrar vöru (80%).
Iðnaður
og verzlun.
Aðaliðnaðarhverfi Lima er á svæðunum Callao-Lima-Vitarte og
ný iðnaðarsvæði hafa byggzt við Pan-American-þjóðveginn norðan
og sunnan borgarinnar. Iðnaðurinn
er fjölbreyttur, s.s. skipasmíðar, bílaverksmiðjur, olíuhreinsun,
framleiðsla matvæla, sements, efnavöru, lyfja, plastvöru, vefnaðarvöru
og húsgagna. Flest iðnfyrirtækin
eru fjármagnsfrek og eru rekin langt undir afkastagetu vegna bágrar stöðu
efnahagslífsins í landinu. Stór
og gróin fyrirtæki hafa átt erfitt uppdráttar og upp úr 1970
spruttu upp lítil en vinnuaflsfrek fjölskyldufyrirtæki, sem náðu
verulegri markaðshlutdeild. Þau
sinntu og sinna þörfum markaðarins betur með því að koma sér
undan margs konar opinberri skriffinnsku og stunda svört viðskipti.
Mörg
iðnfyrirtæki komu sér fyrir í Lima vegna vinnuaflsins, auðveldari aðgangs
að opinberum embættismönnum og nauðsynlegrar þjónustu fjármálafyrirtækja
o.fl. Iðnaðurinn hefur ekki leyst úr atvinnuþörfinni, þannig
að alls konar þjónustugreinar hafa sprottið upp á götum úti.
Samgöngur.
Járnbrautin milli Callao og Lima er hin elzta í landinu og
brautin í austurátt um Vitarte inn í Andesfjöllin liggur hæst allra
staðlaðra brautarspora í heimi.
Aðrar járnbrautir liggja m.a. til Paramonga í norðri og Lurin
í suðri. Fjölgun ökutækja hefur leitt til umferðaöngþveitis í
borginni. Gatnakerfið
hefur ekki þróast með aukinni umferð.
Mikið er um stóra leigubíla (colectivos), sem taka allt að 10
farþega og litlar rútur fyrir 20 farþega.
Strætisvagnar borgarinnar eru annaðhvort bilaðir eða á ferðinni
í lélegu og hættulegu ástandi.
Samgöngumálin eru í ólestri og mikið er um leyfislausa
leigubíla.
Stjórnsýsla.
Erfitt hefur reynzt að stjórna vexti borgarinnar, m.a. vegna pólitískrar
skiptingar stórborgarsvæðisins (Callao-Lima) og hrepparígs milli embættismanna.
Stórborginni er skipt í sjálfstæðar einingar, sem hafa eigin
tekjur. Hverfi ríka fólksins
njóta allrar venjulegrar þjónustu en fátæklingarnir geta ekki
greitt fyrir slíkt, þannig að víðast njóta þeir ekki vatnsveitu,
fráveitu o.fl. Ríka fólkið
kýs yfirleitt mið- og hægri sinnaða flokka og fátæklarnir vinstri
sinnaða, þannig að samvinna er annaðhvort ómöguleg eða stirð.
Þessar miklu andstæður gera samskipti borgarstjórnarinnar og
ríkisstjórnarinnar mjög erfið og stundum óvirk.
Menningarlífið.
Þrátt fyrir mörg og stór vandamál borgarbúa, er Lima samt
mesta menningarmiðstöð landsins.
Þar eru beztu háskólarnir, þ.m.t. hinn elzti í Suður-Ameríku
(Universidad Nacional Mayor de San Marcos de Lima; 1551) og katólski háskólinn
(1917) auk fjölda annarra menntastofnana.
Næstum allir æðri skólar, menningarsamtök og rannsóknarstofnanir
eru í Lima.
Fjöldi safna varðveitir m.a. sögulegar minjar indíána og frá
nýlendutímanum. Innan
borgarmarkanna eru velvarðveittir grafreitir Pachacamac, sem var ein stærsta
borg indíána fyrir daga Spánverja í landinu.
Nokkrir aðrir sögulegir staðir bíða fjárveitinga til
fornleifarannsókna en flestir þeirra eru í hættu vegna framkvæmda
í borginni.
Nokkur
dagblöð eru gefin út í Lima. El
Comercio (1839) er elzta og útbreiddasta dagblaðið og Caretas er
vikulegt fréttablað. Nokkrar
sjónvarpsstöðvar starfa í borginni og nokkrir tugir útvarpsstöðva.
Fátt er um bókabúðir og bóklestur lítill.
Aukinn aðgangur að rituðu máli á heimsvefnum og stöðugur
skortur á pappír hafa takmarkað úrbreiðslu hins prentaða orðs. Lesglaðir fátæklingar lesa einkum teiknimyndablöð og skáldsögur,
sem fást leigðar hjá götusölum.
Afþreying
er fjölbreytt og knattspyrna er vinsælasta íþróttin meðal karla og
blak meðal kvenna. Aðrar vinsælar íþróttagreinar eru veðreiðar,
hanaslagur, nautaat, sund, brettabrun, golf, tennis og póló.
Á kvöldin eru kvikmyndahús, leikhús og diskótek vinsæl og
nokkrir næturklúbbar bjóða þjóðlega tónlist.
Veitingastaðaflóran
í miðborginni og með ströndinni er fjölbreytt og hundurð kaffihúsa,
„cevicherías” og „picanterías” framreiða mikinn fjölda ljúffengra
rétta, enda hafa aðfluttir íbúar úr öllum landshornum flutt með sér
matargerðarlist frá sínum fyrri heimkynnum.
Bjórinn, sem er framleiddur í borginni og víðar er ágætur,
koníak úr vínberjum (pisco) og ódýrt vín smakkast vel.
Ein
afleiðinga gífurlegs aðstreymis víðast að úr sveitum landsins er
efling menningartengsla við fyrrum heimabyggðir íbúanna.
Átthagafélögin í höfuðborginni standa fyrir hátiðum með
dansi, s0ng og hefðbundnum mat, þannig að hægt er að kynnast þjóðháttum
flestra Perúmanna í höfuðborginni. Mannamunar gætir ekki milli ríkra og fátækra á ströndinni,
þar sem allir njóta þess að drekka bjór og borða „ceviche” eða
„cebiche”.
Sagan.
Borgarstæðið og umhverfi þess var byggt fólki teinöldum
saman. Þarna voru þéttbýli
áður en inkar komu til sögunnar (200 f.Kr.-600 e.Kr.).
Mikilvægasta borgin þá var Pachacamac, sem var trúarlegur staður,
einnig á tímum inka. Mikill
hluti lausnargjaldsins, sem Francisco Pizarro krafðist fyrir inkahöfðingjann
Atahuallpa, kom frá Pachacamac.
Pizarro
stofnaði Limaborg 6. janúar 1535, á þrettándanum, sem kallaði á
nafngiftina Ciudad de los Reyes (Borg konunga).
Þótt nafnið festist ekki við borgina, varð hún höfuðborg
varakonungdæmis Perú í samkeppni við Cuzco í suðaustri vegna nálægðarinnar
við ströndina, sem gerði sambandið við Spán auðveldara.
Lima
varð miðstöð auðs og valds alls konungsdæmisins.
Þar sat hirðin og varakonungurinn og æðsti dómstóllinn auk
rannsóknarréttarins, sem dæmdi í siðferðis- og trúmálum.
Frá síðari hluta 17. aldar fram á miðja 19. öld óx borgin
hægt. Árið 1746 lagði
jarðskjálfti hana í eyði en hún var byggð upp á ný á glæsilegan
hátt á evrópska vísu. Stjórnmálalega
var hún íhaldssöm og stéttaskipting var mikil.
Borgarbúar héldu tryggð við Spánverja, þegar Rómanska-Ameríka
barðist fyrir sjálfstæði og Perú varð síðasta landið til að lýsa
yfir sjálfstæði í júlí 1821.
Uppbygging
nútímaborgarinnar hófst eftir lagningu járnbrautarinnar til Callao
1851. Í kjölfarið voru
lagðar brautir til Miraflores, Acón og Chosica, sem gerði útfærslu
borgarinnar auðveldari. Smám
saman fluttu auðugir íbúar frá gömlu miðborginni, fjær lágstéttunum,
og byggðu stórhýsi í og í kringum Miraflores.
Á
þriðja og fjórða áratugi 20. aldar voru lagðar götur og þjóðvegir
milli Lima og annarra landshluta, þegar bílaöld hófst og borgin stækkaði
ört. Auðveldara varð
fyrir fólkið í sveitunum að flytja til borgarinnar.
Á árunum 1940-80 fluttust ekki færri en 2 miljónir manna til
Lima og settust þar að í hundruðum þúsunda hreysa í hlíðunum
ofan innri úthverfanna og gróðurlausum stöllunum umhverfis borgina.
Eftir þessa miklu innrás hefur komið til tals að gera Cuzco að
höfuðborg landins. |