Casco
er höfuðborg samnefnds héraðs og Inkasýslu í miðsuðurhluta
landsins. Hún var fyrrum höfuðborg
Inkaríkisins og er ein elzta borg með stöðugri byggð í
Vesturheimi. Þar standa enn þá mörg vönduð steinhús frá nýlendutímanum
eða hlutar þeirra, sem komust á verndunarlista UNESCO árið 1983.
Borgin er hátt uppi í Andesfjöllum (3399m) í vesturenda hins
30 km langa Huatanay-dals, 30 km austan Huambutio.
Um dalinn falla smáárnar Huatanay, Huancaro og Chunchullmayo,
sem eru þverár Vilcanota. Loftið
er oftast þurrt og frost er sjaldgæft á kaldasta árstímanum í júní
og júlí. Regntíminn er
frá nóvember til febrúar.
Nafn
borgarinnar er dregið af orðinu Quechua, sem þýðir „nafli” eða
„miðja”. Það var
nafn höfuöborgar Tawantinsuyu-ríkisins á 11.-12. öld, sem teygðist
1800 km til norðvesturs á 15. öld, næstum alla leið að núverandi
norðurlandamærum Ekvadors, og 2600 km til suðurs, þar sem er nú Mið-Síle
og til suðausturs inn í Bólivíu og Argentínu.
Þegar Spánverjar komu til sögunnar, bjuggu líklega rúmlega
12 miljónir indíána í ríkinu.
Tugþúsundir bjuggu í borginni, e.t.v. allt að 200 þúsund
manns. Inkarústir, sem
bera vott um mikla verkfræðikunnáttu, eru í og umhverfis borgina.
Þar standa enn þá veggir úr óreglulega tilhöggnum steinum,
sem er raðað svo vel saman, að ekki er hægt að smeygja pappír á
milli þeirra. Steinn hinna
tólf engla er gott dæmi um þessa verkkunnáttu.
Upprunalegar götur Cuzco eru mjóar og víða með tröppum.
Hersveitir
Francisco Pizarro náðu Cuzco undir sig í nóvember 1533 og lögðu
borgina í rúst. Pizarro
stofnaði borgarstjórn í marz 1534 í nafni Karls V, keisara, en
mikilvægi borgarinnar dvínaði, þegar hann flutti höfuðborgina til
Lima 1535. Árið 1650 reið
yfir gífurlegur jarðskjálfti, sem olli miklu tjóni í Cuzco.
Endurbygging borgarinnar markar upphaf baroktímans í Cuzco, sem
einkenndist af nærveru mikilvirkra og listrænna iðnaðarmanna á sviði
steinsmíði, málaralistar, höggmynda- og skartgripagerðar og tréskurðar.
Rómversk-katólskir prestar og og munkar stýrðu verkinu eða höfðu
áhrif á það og margar fagrar kirkjur og aðrar byggingar voru
reistar á rústum eða í staðinn fyrir byggingar frá inkatímanum.
Kirkja
Santo Domingo nær yfir grunn og nokkra veggi Koricancha (Gullna garðinn)
Sólarhofsins. Á tímum
inka voru veggir þess þaktir hundruðum gull- og silfurplatna og þakið
var blanda af venjulegum og gullstráum, sem glitruðu í sólinni.
Við hátíðleg tækifæri kom þjóðhöfðingi inka þar fyrir
fagurlega gerðum maísstönglum úr gulli.
Samkvæmt gömlum annálum stóðu einnig gullstyttur lamadýra
fjárhirða, skordýra, blóma og lítilla dýra í garði hofsins.
Þessir dýrgripir voru allir sendir til Spánar og bræddir í
gullstangir. Á tíunda áratugi
20. aldar veitti borgarráðið fé til forleifarannsókna á svæðinu
umhverfis Santo Domingo-kirkjuna, þar sem garðar hofsins voru.
Dómkirkjan
var byggð árið 1654 á grunni inkahallarinnar Viracocha (Huiracocha).
Ríkisháskólinn San Antonio Abad del Cuzco (1534), La Companía-kirkjan
(á grunni Amarucancha, snákahofsins), La Merced-kirkjan og klaustrið
(fyrsta kirkja Cuzco; 1534), Santa Catalina-klaustrið (á rústum
Acllahuasi, húss sólgyðjanna) og fjöldi annarra kirkna og klaustra
eru eftirtektarverð mannvirki. Hús 16. aldar sagnfræðingsins Carciliaso de la Vega er
einnig athyglisvert.
Hið
tröllslega virki Sacsahuamán stendur á 230 m hárri hæð fyrir ofan
Cuzco. Sagt er, að
borgarskipulag inkanna hafi sýnt Cuzco sem skrokk púmu, sem var
heilagt dýr í trú inka, og virkið sem haus dýrsins.
Þessi mynd kemur fram í skörðóttum útlínum þriggja hæða
varnarmúrum virkisins, sem snúa frá borginni.
Margir byggingarsteinar þess vega 100-300 tonn og eru allt að
8,2 m háir. Múrarnir eru
allt að 305 m háir. Varnarturnar
og önnur mannvirki á hæðinni innan múranna eru verk Spánverja.
Bygging Sacsahuamán tók líklega 80 ár og að því unnu stöðugt
í kringum 20.000 verkamenn. Spænski
herinn eyðilagði upprunalegu varnarturnana og byggingar inni í
virkinu. Ekki er vitað,
hvenær það var byggt eða hvaða aðferðum var beitt við verkið.
Andspænis því á stóru hátíðarsvæði er Inkahásætið,
kringlóttur klettur með tilhöggnum sætum, þar sem aðalsmenn inka sátu
við hátíðleg tækifæri. Aðrar
rústir í nágrenninu eru m.a. Inkabaðið (Tambomachay),
Kenco-hringleikahúsið og Puca Pucara-virkið.
Í jarðskjálftum í maí 1950 skemmdust allar kirkjur
borgarinnar og 90% íbúðarhúsa.
Umhverfis
borgina eru ræktaðar kartöflur og korn fyrir íbúa svæðisins og
sauðfé og lamadýr eru þar á beit.
Iðnaðurinn byggist á framleiðslu dúks, teppa, veggteppa, málmsmíði
og bjórs. Íbúarnir eru aðallega
indíánar og mestizo (kynblendingar).
Hinar frægu rústir Machu Picchu eru aðgengilegar með járnbraut
frá borginni og þaðan liggja vegir til Pisaq, þar sem er vikulegur
markaður í rústunum uppi á hæðinni, Ollantaytambo, stöllótts
virkis í enda Vilcanota-dalsins, Urubamba, afþreyngarstaðar inka og
Chinchero-þorpsins. Cuzco
er tengd Puno, Arequipa og öðrum borgum í suðurhluta landsins með járnbrautum
og þjóðvegum, þ.m.t. höfuðborginni Lima. Margir erlendir og innlendir ferðamenn koma fljúgandi til
borgarinnar. Hinn 24. júní
ár hvert er haldin Hátíð sólarinnar (Inti Raymi) til að minnast
sumarsólstöðuhátíðar inka. Áætlaður
íbúafjöldi 1993 var tæplaga 260 þúsund. |