Callao Perú,
Flag of Peru


CALLAO
PERÚ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Callao er aðalhafnarborg Perú í hinu 147 km² Callao-héraði beint vestur af höfuðborg landsins, Lima.  Héraðið er að mestu þéttbýli og hluti af stórborgarsvæðínu Lima-Callao.  Borgin er við eina fárra náttúruhafna vesturstrandar Suður-Ameríku.  Hún er sunnan Rímac-árinnar í skjóli af San Lorenzo-eyjar (herstöð og kafbátalægi) og löngum höfða.  Til frekara skjóls voru byggðir brimgarðar, þar sem þörf var á.  Nútímahöfn var opnuð þar árið 1935 og þremur árum síðar var stór slippur tekin í notkun.  Þarna er stór bryggja til úrflutnings járngrýtis og upp- og útskipunar í fraktskip.  Olíubryggja var tekin í notkun 1969.  Frekari umbætur fóru fram á höfninni á síðari hluta 20. aldar.

Francisco Pizarro stofnaði borgina 1537.  Höfnin var þungamiðja hennar frá upphafi, því Spánverjar hlóðu þar skip með gulli og gersemum inka.  Sjóræningjar og evrópskir keppinautar Spánverja réðust oft á hana.  Sir Francis Drake rændi hana 1578.  Árið 1746 lagði flóðbylgja í kjölfar jarðskjálfta borgina í rúst en hún var endurbyggð í eins kílómetra fjarlægð frá upprunalegum stað.  Skömmu síðar var hið stóra virki Real Felipe byggt.  Það stóð af sér fjölda umsátra spænska hersins í sjálfstæðisstríðunum.  Simón Bolívar steig þarna á land 1823 og þremur árum síðar var borgin vettvangur endanlegrar uppgjafar Spánverja.

Fyrsta járnbrautin í Suður-Ameríku var tekin í notkun milli Callao og Lima árið 1851.  Spænski flotinn gerði sprengjuárásir á borgina 1866 og 1881 í Kyrrahafsstríðinu.  Síleher tók borgina og skilaði henni aftur 1883 eftir samningana í Ancón.  Eftir jarðskjálftana 1940 varð að endurbyggja borgina og höfnina.

Helztu útflutningsvörur, sem fara um höfnina í Callao, eru hálfunnir málmar, fiskimjöl og lýsi.  Mest er flutt inn af hveiti, vélbúnaði og timbri.  Stærstu fyrirtæki borgarinnar eru bjórverksmiðjur, skipasmíðastöðvar og fiskimjölsverksmiðjur.  Talsvert er ræktað af landbúnaðarafurðum í héraðinu og þær eru að mestu seldar á mörkuðum (grænmeti, ávextir og maís).

Fátt er um markverðar byggingar og menningarviðburði.  Jorge Chávez millilandaflugvöllurinn og herskólar land- og flughers eru í héraðinu.  Borgin státar einnig af tækniháskóla.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM