Arequipa Perú,
Flag of Peru


AREQUIPA
PERÚ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Arequipa er höfuðborg Arequipa-héraðs og sýslu í Suður-Perú í rúmlega 2300 m yfir sjó í árdal Chili-árinnar.  Í inkaríkinu var hún mikilvæg samgöngumiðstöð á leiðinni frá Cuzco að ströndinni.  Hún var stofnuð á ný árið 1540 samkvæmt skipunum sigurvegarans Francisco Pizarro, sem lét reisa þar virki.  Upprunalegt nafn borgarinnar var Nuestra Senora de la Asunción del Valle Hermoso.  Arequipa er við rætur snævi þakins eldfjallsins Misti, sem teygist upp í 5821 m hæð.  Nokkur önnur snjófjöll eru innan sjónseilingar frá borginni.  Borgin hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum í jarðskjálftum, sem eru venjulega samfara eldvirkni.  Á sjöunda áratugi 20. aldar varð verulegt tjón af þessum sökum.  Loftslagið er þægilegt og loftið þurrt.  Meðalársúrkoman er 100 mm og ársmeðalhiti er 14°C.

Frjósamur jarðvegur dalsins gerir kornrækt kleifa og beitiland er nóg.  Arequipa er aðalmiðstöð ullarvinnslu í landinu og þar er stundaður margs konar iðnaður.  Borgin er einnig aðalmiðstöð viðskipta, stjórnmála og hermála í Suður-Perú.  Samgöngur í lofti, með járnbrautum og á þjóðvegum eru góðar.

Arequipa er meðal fegurstu borga landsins.  Margar byggingar hennar eru byggðar úr hvítum eldfjallasteini (sillar).  Borgin er setur erkibiskups og dómkirkjan var stofnuð 1612.  Einnig er þar fjöldi kirkna frá nýlendutímanum.  San Agustín-háskólinn var stofnaður 1828 og katólski háskólinn Santa María árið 1961.  Ferðamenn sækja í auknum mæli til borgarinnar, sem býður þeim góða baðaöstöðu, heita hveri og inkarústir í grenndinni.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1993 var í kringum 620 þúsund.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM