Landbúnaður
er algengasta atvinnugreinin með rúmlega 40% vinnuaflsins og 25%
vergrar þjóðarframleiðslu.
Af þessum sökum er efnahagslífið háð duttlungum veðurfars
og verðs á heimsmarkaði.
Alfredo Strössner Matiauda hershöfðingi (forseti 1954-89)
hvatti til fjárfestinga innan- og utanlands, einkum í framleiðslulandbúnaði.
Fram á miðjan áttunda áratuginn var lítið um fjárfestingar
almennings og þær beindust aðallega að samgöngu- og fjarskiptaumbótum.
Stofnun nokkurra ríkisfyrirtækja, s.s. Itaipú Binacional
(1973), sem var stofnað til að byggja risastíflu fyrir orkuver við
Paraná-ána, stál-, sements- og áfengisverksmiðja, breyttu þessari
þróun.
Á síðari hluta 20. aldar óx ríkisgeirinn verulega og krafðist
í kringum 10% vinnuafls landsins.
Fram til ársins 1982, þegar Itaipú-áætluninni lauk, tókst ríkinu
að mæta viðskiptahallanum með erlendum lánum.
Það sem eftir lifði áratugarins stóð stjórnin frammi fyrir
vaxandi viðskiptahalla, háum afborgunum af lánum og dvínandi möguleikum
til erlendrar lántöku.
Á
blómaskeiði efnahagslífsins, einkum á áttunda áratugnum, tókst ríkisstjórninni
ekki að nýta það til hagsbóta fyrir þá, sem minnst máttu sín.
Tekjuskatti var haldið lágum, m.a. til að laða að erlenda fjárfesta,
sem einnig annara skattaívilnana. Lögreglan
og herinn fengu til sín stóran skerf fjárlaganna.
Stjórn
Andres Rodríguez hershöfðingja (1989-93) kom á talsverðum umbótum
til að laga efnahag landsins að opnu markaðskerfi.
Fjölgengi var afnumið, dregið var úr styrkjum til opinberra
fyrirtækja, útflutningstollar voru afnumdir og gerðar voru áætlanir
um sölu ríkisfyrirtækja.
Í
valdatíð Strössners hershöfðingja voru verkalýðsfélög undir ströngu
eftirliti, þannig að laun héldust lág og lengst af voru flestir
launamenn meðlimir í stærsta verkalýðsfélaginu (CPT).
Eftir að hann fór frá spratt upp fjöldi sjálfstæðra verkalýðsfélaga.
BNA höfðu afnumið verzlunarfrelsi Paragvæ 1987 vegna ófrelsis
verkalýðsfélaganna en kom því aftur á 1991.
Námugröftur.
Mestur hluti jarðefna landsins finnast austan Paragvæárinnar.
Magnesium finnst nærri Emboscada, malakít og azúrít (kopar) nærri
Caapucú, Encarnación og San Miguel, feldspat og míka nærri Concepcións
og maríugler og píroflít nærri Caapucú og San Miguel.
Járnleir finnst á Cordillera-svæðinu og gips og kalksteinn nærri
Paragvæánni.
Talsverður mór er nærri Pilar.
Marmari, leir (kaolin) og salt er unnið úr jörðu.
Kopar, báxít, járn og uranium hefur fundizt.
Þrátt fyrir fjölbreytni náttúruauðæfa í jörðu, hefur lítið
verið gert til að nýta þau.
Orka.
Mesta
náttúruauðlind landsins er vatnakerfið.
Rafmagn var að mestu framleitt með eldiviði og olíu í Asunción
þar til Acaray-vatnsorkuverið var gangsett 1968.
Það var stækkað í 190 mW.
Rafmagnsframleiðsla fimmtánfaldaðist frá 1970-1990 og mesta
aukningin kom frá vatnsorkuverum.
Rafmagnsveitur ríkisins (1949) stjórna dreifingu orkunnar.
Stórar
virkjanir voru reistar í samvinnu við Brasilíu og Argentínu.
Hafizt var handa við Itaipu-virkjunina við Paraná-ána, u.þ.b.
17 km norðan Vináttubrúarinnar við Ciudad del Este.
Stóru stíflunni var lokið 1982.
Hún er 188 m há og 3715 m löng.
Að baki hennar myndaðist 2260 km² lón á landi Brasilíu og
Paragvæ.
Árið 1990 skilaði virkjunin 60% afköstum og lokið var niðursetningu
síðustu 18 rafalanna 1991.
Stíflan er meðal hinna stærstu í heimi og afköst
virkjunarinnar eru 12.600 mW.
Samkvæmt upprunalegum samningi milli ríkjanna átti Paragvæ að
fá helming orkunnar og var skuldbundið til að selja Brasilíu
umframorku á föstu verði.
Verkið var fjármagnað af einkabönkum og alþjóðlegum fjármálastofnunum
og kostaði í kringum 20 miljarða US$.
Samningi milli ríkjanna um verð umframorku frá Paragvæ var
breytt 1985 og verðið hækkað en paragvæskir þjóðernissinnar eru
enn þá óánægðir með niðurstöðuna.
Virkjunarframkvæmdir í samvinnu við Argentínumenn á Yacyretá-Apipé-svæðinu
við Paraná-ána eru smærri í sniðum (2700 mW).
Þessi virkjun var tekin í notkun um miðjan tíunda áratuginn.
Paragvæ notar aðeins lítinn hluta orkunnar frá báðum þessum
stóru virkjunum og er því orðinn einhver stærsti seljandi orku í
heiminum.
Landbúnaður.
Fimmtungur lands Paragvæ er hentugt til ræktunar en aðeins
5,6% þess eru nýtt.
Mestur hluti þess er setinn sjálfseignarbændum.
Landleigukerfið er brenglað og byggist á landsölu eftir stríð
þríbandalagsins.
Á síðasta hluta 20. aldar átti 1% landeigenda rúmlega 75%
lands.
Fátækum bændum hefur síðan verið úthlutað landi, einkum
í austurhlutanum, en fjöldi landlausra smábænda er samt mikill.
Allt
fram að 1970 byggðist efnahagslífið aðallega á útflutningi
litunarefnis, kjöts, tes og tóbaks.
Framleiðsla þessara vara hefur dregizt saman og mikið er ræktað
af sojabaunum og baðmull.
Aðrar mikilvægar afurðir eru kassava, sykurreyr, maís, hrísgrjón,
hveiti, jarðhnetur, kaffi og sítrusávextir.
Mikið er ræktað af kannabisjurtinni.
Landið er að mestu sjálfu sér nægt með matvæli.
Kvikfjárræktin
byggist aðallega á nautgripum og lítillega á svínum, sauðfé, hænsnum
og hestum.
Nautgriparæktin er aðallega í Chaco og suðurhéruðunum
Misiones og Neembucú.
Kjötið, mjólkurvörur og húðir eru seldar innanlands og
fluttar úr landi.
Timbur hefur löngum verið mikilvægt til útflutnings.
Fiskveiðar
eru ekki stundaðar í stórum stíl.
Ferskvatnsfiskur (surubí, pacú og dorado) er mikilvægur fyrir
innanlandsmarkaðinn.
Iðnaður.
Þrátt fyrir grózku í iðnaði á áttunda og níunda áratugnum,
verður að telja Paragvæ meðal minnst iðnþróuðu landa álfunnar.
Vegna litilla kannaðra birgða hráefna í jörðu, er aðaláherzlan
lögð á nýtingu kalksteins, gips og leirs fyrir byggingariðnaðinn.
Framleiðsluiðnaðurinn er yfirleitt lítill í sniðum og
einkum á sviði vinnslu landbúnaðarafurða, s.s. sojaolíu, sykurs,
kjötniðursuðu, vefnaðar, leðurvöru, áfengis, bjórs og vindlinga.
Byggingariðnaðurinn blómstraði síðla á áttunda og fyrri
hluta níunda áratugarins, þegar Itaipustíflan og aðrar stórframkvæmdir
voru í fullum gangi.
Ríkið rekur margar verksmiðjur, s.s. lítla stálverksmiðju
(frá 1986) og etílalkóhólverksmiðju (frá 1980).
Ferðaþjónustan
er lítilvægur þáttur í efnahagnum.
Flestir erlendir gestir koma frá Brasilíu og Argentínu vegna
mikils úrvals innfluttrar neyzluvöru.
Fjármál.
Helztu ríkisbankarnir eru Banco Central del Paraguay (seðlabanki)
og Banco Nacional de Fomento, sem annast landbúnaðinn, framleiðsluiðnaðinn
og timburframleiðsluna.
Erlendir bankar hafa líka komið sér fyrir í landinu.
Erlendur gjaldeyrir er aðgengilegur í bönkum og skiptibönkum.
Árið 1992 voru samþykkt lög, sem hvetja til erlendrar fjárfestingar
og þróunar kauphallarviðskipta.
Gjaldmiðill landsins, guaraní, hefur verið tiltölulega stöðugur
miðað við önnur latnesk-amerísk ríki.
Verzlun
og viðskipti.
Helztu útflutningsvörur landsins, sojabaunir, baðmull, kjöt,
tungolía og fleiri fræolíur og unnið timbur, eru aðallega fluttar
til Brasilíu, BNA, Argentínu, Hollands, Ítalíu, Þýzkalands og
Sviss.
Helztu innflutningsvörur, vélbúnaður, benzín og olíur,
efnavörur og farartæki, eru fluttar inn frá Brasilíu, BNA, Japan og
Argentínu.
Fyrri hluta níunda áratugarins var halli á viðskiptajöfnuði
landsins.
Vegna mikils smygls gefa opinberar tölur litla hugmynd um
heildarviðskipti landsmanna.
Árið 1988 fækkaði stjórn Rodríguez hershöfðingja
gengisskráningunum niður í eina og lét gengið fljóta og sameinaði
fjölda skattaálagna í fáar.
Þessar ráðstafanir drógu mjög úr smygli til landsins.
Paragvæ
er aðili að LAIA (Latin America Integration Association), sem var
fyrrum LAFTA (Latin American Free Trade Association).
Árið 1991 undirrituðu Paragvæ, Brasilía, Úrúgvæ og Argentína
fríverzlunarsamning (Mercado Común del Cono Sur (Mercosur).
Samgöngur.
Um miðja 20. öldina fór mestu hluti fraktflutninga um árnar
Paragvæ og Paraná frá höfnum við Atlantshafsströndina í Brasilíu.
Flutningar á þjóðvegum hafa aukizt frá Buenos Aires (Argentínu)
og brasilísku borgunum Santos og Paranaguá.
Vegakerfi
landsins er nokkuð stórt og búið þokkalegum brúm en talsverður
hluti þess er enn þá án slitlags.
Aðalþjóðvegirnir tengja Asunción og Ciudad del Este, þar
sem Vináttubrúin liggur yfir Paraná-ána og brasilíska vegakerfið
tekur við.
Þessi malbikaði þjóðvegur heldur áfram til
hafnarborgarinnar Paranaguá, sem annast mestan hluta útflutnings
sojabauna frá Paragvæ.
Annar malbikaður þjóðvegur tengir Asunción við Encamación.
Hengibrú á Pan-American-þjóðveginum tengir Asunción og
Clorinda í Argentínu.
Önnur brú tengir Encarnación og Posadas í Argentínu.
Trans-Chaco-þjóðvegurinn liggur til norðvesturs frá Villa
Hayes til bólivísku landamæranna.
Hann er malbikaður til Filadelfia.
Járnbrautir.
Flest brautarkerfin tilheyra Ferrocarril Presidente Carlos
Antonio López.
Þau eru 375 km löng til suðausturs til Encarnación, þar sem
járnbrautarferja þjónar sambandinu við Posadas í Argentínu.
Flota
Mercante del Estado er ríkisrekið kaupskipafyrirtæki, sem var stofnað
1945 til flutninga á ánum Paragvæ og Paraná.
Einnig er talsvert um einkarekin fyrirtæki á þessu sviði.
Asunción er stærsta hafnarborgin með nútímalegustu höfnina.
Líneas
Aéreas Paraguayas-flugfélagið hefur aukið þjónustu sína mikið síðan
það var stofnað 1962.
Flugfélögin Líneas Aéreas de Transporte Nacional og
Transporte Aéreo Militar þjóna borgum innanlands.
Silvio Pettirossi-alþjóðaflugvöllurinn var opnaður 1980 15
km frá Asunción. |