Asunción,
höfuðborg Paragvæ, er á skógi vöxnu nesi milli Paragvæárinnar og
Pilcomayo-ár í 53 m hæð yfir sjó.
Borgin fékk nafn sitt 15. ágúst 1537 á uppstigningardegi
heilagrar Maríu. Árið
1541 réðust pampa-indíánar á Buenos Aires og íbúarnir flúðu til
Asunción. Borgin var aðalaðsetur
spænskra yfirvalda í austurhluta Suður-Ameríku í nærri hálfa öld
áður en Buenos Aires var byggð á ný.
Árið 1588 stofnuðu jesúítar trúboðstöðvar við Paraná-ána
til að boða guaraní-indíánum trú.
Þeir tóku Spánverjunum vel og lærðu af þeim reiðmennsku og
að drekka kaffi. Blönduð
hjónabönd leiddu til kynblöndunar (mestizo), sem einkennir þjóðina
nú.
Eftir
aðskilnaðinn frá Buenos Aires 1617 minnkaði vegur Asunción.
Ástæðurnar voru margar og meðal þeirra fjarlægðin frá Spáni
og sjálfstæðisbaráttu þjóðernis- og aðskilnaðarsinna, sem hófst
snemma í landinu. Jesúítar
voru reknir úr landi 1767 og sjálfstæði var lýst yfir um miðnætti
14./15. maí 1811. Hernaðarlega
mikilvæg lega borgarinnar við stór ármót, sem tengdu landið við
Argentínu, Brasilíu og Úrúgvæ, andstæðingana í Paragvæstríðinu
1864-70, leiddi til hernáms Brasílíumanna, sem skiluðu borginni ekki
aftur fyrr en 1876.
Margir
og stórir skrúð- og skemmtigarðar og blómstrandi tré prýða
borgina. Niðri við ána
eru húsin í nýlendustíl, einnar hæðar með svölum, en í miðborginni
eru nútíma háhýsi. Dómkirkjan,
Forsetahöllin og Frægðarhofið (eftirliking af Les Invalides í París),
sem voru byggð á 19. öld og hið nýtízkulega Hótel Guarianí,
teiknað af brasilíska arkitektinum Oscar Neimeyer, eru meðal áhugaverðra
bygginga í borginni. Hún
er setur ríkisstjórnarinnar og erkibiskups landsins og er miðstöð
menningar og efnahagslífs landsins.
Þar eru margar menntastofnanir, s.s. Asunción-háskóli (1890)
og Katólski háskólinn (1960; Nuestra Senora).
Asunción
er aðalútflutnings- og verzlunarmiðstöð Paragvæ og er í miðju
þéttbýlasta héraðs landsins. Meðal
vinnslu- og útflutningsvöru eru baðmull, sykurreyr, maís, tóbak, ávextir
og nautgripaafurðir. Verksmiðjur
framleiða m.a. vefnaðarvörur, matarolíu, skó, hveiti, litla fljótabáta
og tóbaksvörur. Vatnsveita
borgarinnar var tekin í notkun 1955.
Fljótabátar, sem eru flestir í eigu erlendra fyrirtækja,
annast mestan hluta frakt- og farþegaflutinga.
Borgin er líka miðstöð járnbrauta (Ferrocarril Presidente
Carlos Antonio López), sem tengja hana við brautakerfi Argentínu með
ferju yfir Paragvæána við Encamación.
Önnur ferja tengir hana við aðalvegakerfið til Buenos Aires.
Millilandaflugvöllur er við borgina.
Áætlaður íbúafjöldi 1982 var tæplega 460 þúsund. |