Panama íbúarnir,
Flag of Panama


PANAMA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Byggðaþróun.  Þéttbýlasta svæði landsins er í grennd við skipaskurðinn á breiðu belti hafa á milli, þar sem landið er lægst og mjóst.  Þetta svæði er þekkt sem Chagres eða „Ferðaleiðin”.  Innan þessa beltis er höfuðborgin Panamaborg og Colón í San Miguelitohéraði og borgirnar Balboa, La Chorrera, Gamboa og Cristóbal.  Panamaborg er við Kyrrahafið við Panamaflóa.  Hún er langfjölmennust og miðstöð iðnaðar, verzlunar, stjórnmála og menningar.  San Miguelito er næststærst og Colón í þriðja sæti.  Sveitirnar milli Azueroskaga og Tabasaráfjalla eru þéttbýlustu dreifbýlissvæði landsins.  Minnst er byggðin í austustu hlutunum, einkum í Dariénhéraði og í hlíðum Tabasaráfjalla, sem snúa að Karíbahafinu.

Íbúarnir og tungumálahópar.  Þegar Spánverjar komu til Panamaeiðisins á 16. öld, bjugg þar kuna-, guaymí-, chocó- og aðrir indíánaættbálkar.  Mestizos var útkoma blöndunar Spánverja og indíánanna.  Á nýlendutímanum voru negrar fluttir þangað frá Afríku sem þrælar og fleiri blöndur urðu til.  Frakka og kínverjar bættust í hópinn, þegar járnbrautin milli Panamaborgar og Colón var lögð á 19. öld.  Fjöldinn allur af fólki frá Vestur-Indíum kom til að vinna við gerð Panamaskurðarins (aðallega frá Brezku-Barbados, Jamaíka og Martinique) auk Bandaríkjamanna, Spánverja Ítala og Grikkja.

Hreinir indíánar eru víða í smáhópum, þótt þeir séu meðal minnstu þjóðfélagshópanna.  Þeir eru m.a. í regnskógunum.  Fjölmennastir eru guaymíindínánarnir, sem búa á vestustu svæðum Chiriquí-, Bocas del Toro- og Veraguashéruðanna.  Næstfjölmennastir eru kunaindíánar, sem eru aðallega á San Blaseyjum og nærliggjandi strandsvæðum.  Chocóindíánar eru aðallega í Dariénhéraði.  Þessir ættbálkar hafa varðveitt tungur sínar en margir þeirra tala líka spænsku.  Langflestir þeirra stunda sjálfsþurftarbúskap, ræktun og veiðar, en nokkrir kunaindíánar standa í viðskiptum, vinna sem farmenn eða stunda önnur föst störf.  Margir guaymíindíánar vinna á bananaplantekrunum í vesturhlutanum.

Mestizos eru stærsti þjóðfélagshópurinn.  Þeir búa á steppunum vestan skipaskurðarins og í miðhéruðunum, Panamá og Colón, þar sem þeir hafa blandast fólki frá Vestur-Indíum og Afríku.

Afrískir Panamabúar búa vítt og breitt um landið, s.s. á heitum og rökum láglendissvæðum Chagreárinnar, í Dariénhéraði, á láglendum við Karíbahafið.  Vestur-Indíar komu síðar til skjalanna og eru lítill minnihlutahópur.  Þeir búa aðallega í Panamaborg og Bocas del Torohéraði.

BNA hafa haft mikil áhrif á efnahag og menningu landsins.  Bandaríkjamenn búa aðallega í grennd við skipaskurðinn og í Panamaborg.  Kínverjar, Austur-Indíar, gyðingar (m.a. frá Hollenzku-Antilleyjum) og Miðasíubúar eru minnihlutahópar, sem leika oft stór hlutverk í viðskiptum, iðnaði, stjórnmálum og öðrum greinum atvinnulífsins.  Panama varð fyrst vestrænna ríkja til að kjósa gyðing sem forseta á áttunda áratugnum (Eric Arturo Del Valle).

Spænska er opinbert tungumál landsins og langflestir íbúanna tala hana.  Færri en 10% þjóðarinnar tala tungur indíána.  Flestir Panamabúar frá Vestur-Indíum tala ensku, sem er líka kennd í skólum.

Trúarbrögð.  Rómversk-katólska nær til u.þ.b. 80% landamanna.  Fjöldi mótmælenda jókst hratt á síðustu áratugum 20. aldar, einkum gyðungum.  Afrópanamar í Bocas del Torohéraði eru mótmælendur af gömlum merg og talsverður fjöldi indíána líka.  Nokkrir Panamar blanda saman katólskunni og vesturindískum hefðum og útkoman er Santeria.  Trúfrelsi er tryggt í stjórnarskrá.

Búsetuþróun.  Samkvæmt manntali árið 1911 voru Panamar 336.000.  Á tíunda áratugnum hafði þessi fjöldi meira en áttfaldast, þótt náttúruleg fjölgun væri nálægt meðaltali Mið-Ameríkuþjóða.  Í síðari heimsstyrjöldinni fluttist margt verkafólk til landsins tímabundið.

Á seinni hluta 20. aldar fjölgaði borgarbúum mjög í landinu.  Flestir íbúanna búa nú í þéttbýli en samt búa fleiri í dreifbýli þar en í flestum öðrum Mið-Ameríkulöndum.  U.þ.b. 40% landsmanna búa í þorpum eða á afskekktum landsvæðum og búa víða við sjálfsþurftarbúskap.  Frá miðri 20. öld hefur verið mikið um flótta úr sveitunum, einkum til Panamaborgar og Colón.  Þetta fólk er að leita að tryggari afkomu fyrir sig og sína.  Bændur, sem stunda skiptiræktun, hafa líka lagt land undir fót til að leita sér að betra ræktunarlandi.

Næstum 75% heildarþjóðarframleiðslunnar verður til í þjónustugeiranum, sem er mun hærra hlutfall en í öðrum löndum Latnesku-Ameríku.  Þjónustugeirinn hefur þanizt út vegna fjármálastarfsemi og umferðarþjónustu í Panamaskurðinum.  Stjórnsýsla og aðrar þjónustugreinar vega líka þungt.  Landbúnaður og fiskveiðar vega minna en 10% þjóðarframleiðslunnar en krefjast u.þ.b. fimmtungs vinnuaflsins.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM