Þjóðgarðurinn umkringir
Jostedalsjökulinn, sem er stærsti hveljökull meginlands
Evrópu. Út frá honum skríða margir skriðjöklar.
Í þjóðgarðinum eru einnig margir smájöklar. Jöklar og
vatn hafa mótað landslagið og þar er fjöldi jökulaldna auk
margra jarðfræðilegra fyrirbæra. Fåbergstøls-grandane
er stærsta aurasvæði Noregs. Landslagið umhverfis
jökulinn einkennist af andstæðum. Á litlu svæði er
útsýnið fjölbreytt yfir firði, gróna u-dali með bændabýlum
og hefðbundnum landbúnaði, auðnir fjallanna og jökla, sem rísa 2000 m.y.s. Straumharðar ár
og fossar falla í þrepum niður hlíðarnar. Stærstar þeirra eru
Stryn og Loen. Þjóðgarðurinn er eitt stærsta auðnarvíðerni
Suður-Noregs.
Nokkrir daljöklanna eru meðal vinsælustu ferðamannastaða landsins.
Friðland Nygardsjökuls er við mörk þjóðgarðsins.
Fyrrum lágu
alfaraleiðir yfir Jostedalsjökul milli vesturdalanna og Sogns og
suðausturhluta landsins. Nautgripir og hestar voru reknir yfir hann til
markaðanna í austurhlutanum. Slíkur rekstur væri hættulegur og erfiður
nú, því rýrnun hans hefur valdið fjölgun sprungna og gert jaðra hans
brattari. Hann hefur löngum laðað að sér göngufólk. Skíðaferðir um
hann verða vinsælli með árunum en án þekkingar og rétts útbúnaðar er
hann hættulegur skíðafólki. Gömlu leiðirnar
í dölunum umhverfis jökulinn, s.s. Oldeskarð, eru vinsælar gönguleiðir.
Sumir daljöklanna (Briksdalsjökull, Bøyajökull og Nigardsjölkull) eru
vinsælir ferðamannastaðir. Þjóðgarðurinn tilheyrir Luster, Sogndal,
Balestrand, Førde, Jølster, Gloppen og Stryn.
Vegir liggja að
þjóðgarðinum úr dölunum (Jostedal, Veitastrond, Fjærland, Stardal,
Oldedal og Lodal). Gestir nýta sér tjaldsvæði, gistihús og hótel í
dölunum utan þjóðgarðsins og smáhýsi í nokkurra klukkustunda
göngufjarlægð frá þjóðvegunum innan þjóðgarðsins.
Í grennd við
þjóðgarðin eru nokkrar gestastofur: Í þjónustumiðstöð þjóðgarðsins,
Norska jöklasafninu og Jöklaheimsmiðstöðinni. |