Búseta.
Við nána athugun kemur í ljós sérstakt búsetumunstur,
sem fer aðallega eftir náttúrlegum aðstæðum og menningu. Héruð landsins voru þrjú á dögum
Chonson-ættarinnar (Yi) á tímabilinu 1392-1910, þegar Japanar
komu til skjalanna lögðu landið undir sig til 1945.
Þessi héruð voru P’yongan, Hwanghae og Hamgyong og norðurhlutar
héraðanna Kangwon og Kyonggi. Hvert
hérað hefur sitt pólitíska og menningarlega yfirbragð, mállýzkur,
lífsmunstur og siði. Landfræðilega
skiptist landið um Nangnim-fjöll í Kwanso í vestri og Kwanbuk í
austri. Kwanso skiptist síðan í Norður-P’yongan, Suður-P’yongan,
Norður-Hwanghae, Suður-Hwanghae og Chagang en Kwanbuk í Norður-Hamgyong,
Suður-Hamgyong, Yanggang og Kangwon.
Flest
dreifbýli landsins eru með austur- og vesturströndunum og í árdölum
þess. Chagang- og
Yanggang-héruð eru inni í landi og mjög strjálbýl vegna skorts á
ræktanlegu landi og kalds loftslagsins, sem gerir hrísgrjónarækt ómögulega.
Þorpin á láglendinu og í dölunum eru víðast við suðurhlíðar
fjalla og hæða, sem skýla þeim fyrir kaldri norðanáttinni.
Uppi á Kaema-hásléttunir stunda fáir bændur ræktun á dreifðum
ökrum. Í Efri-Yalu- og
Tumen-dölunum stunda bændur skógarhögg og með ströndunum er fjöldi
fiskiþorpa, einkum á austurströndinni.
Borgirnar,
sem þróuðust, þegar landið var undir stjórn Japana (1910-45),
tengust helzt námugreftri, iðnaði og samgöngum.
Mikil áherzla kommúnistastjórnanna á framleiðslu olli líka
útþenslu borganna og flótta úr dreifbýlinu.
Flestar borganna urðu illa úti í Kóreustríðinu (1950-53) og
hafa verið endurbyggðar. Íbúum
þeirra fjölgaði hratt eftir stríðið, sérstaklega á árunum
1953-60. P’yongyang er
langstærsta borgin, a.m.k. þrisvar sinnum stærri en Hamhung, sem er
önnur í röðinni. Aðrar
helztu borgir eru Ch’ongjin, Namp’o og Sunch’on.
Íbúarnir.
Kóreuskaginn er eitthvert kynþáttahreinasta svæði jarðar.
Íbúar Norður-Kóreu, sem hefur verið alleinangruð síðan
1945, eru næstum eingöngu af sama uppruna.
Tiltölulega fámennur hópur kínverja er eini aðkomukynþátturinn,
sem um er talandi. Allir Kóreumenn
tala eigin tungumál, sem er skylt japönsku og er skotið kínverskum tökuorðum.
Ritmálið, sem er kallað „Choson muntcha” í Norður-Kóreu
og „Hangul” í Suður-Kóreu, er samsett úr hljóðtáknum fyrir
hina tíu sérhljóða og 14 samhljóða. Í Norður-Kóreu hefur verið lögð áherzla á að hreinsa
út kínversk og önnur erlend tökuorð auk orða, sem skutust inn í málið
á japanska tímanum. Kóreskan
hefur verið notuð án kínverskra tákna í dagblöðum og öðrum
ritum síðan 1945.
Búsetuþróun.
Íbúum landsins fjölgaði fremur hratt eftir Kóreustríðið
og tvöfaldaðist frá 1953-80. Þrátt
fyrir mun hægari fólksfjölgun eftir 1970, er hún næstum tvöföld
miðað við Suður-Kóreu. Hvað
sem því líður er hægt að líta á Norður-Kóreu sem fámennt land
miðað við önnur Asíulönd. Barnadauði
er að minnka en er samt verulega tíðari en í Suður-Kóreu.
Íbúar
landsins dreifast mjög ójafnt um landið.
Mestu þéttbýlissvæðin eru með ströndum fram og innlandið
er mjög strjálbýlt. Þetta
ójafnvægi hefur aukizt allar götur síðan 1945, þegar ríkisstjórnir
landsins fóru að leggja ofurkapp á iðnvæðingu.
Mikill skortur er á vinnuafli í landbúnaði.
Mikill fjöldi landsmanna fluttist úr landi á fyrri hluta 20.
aldar, aðallega til Kína, Síberíu, Japans og BNA.
Á sjöunda og áttunda áratugnum var rekinn áróður fyrir
endurkomu þeirra, sem fluttust til Japans og u.þ.b. 90 þúsund manns
fluttust heim.
Trúarbrögð.
Lífsmunstur og gildismat Kóreumanna byggist að mestu á
kenningum Konfúsíusar. Búddisminn
kemur líka við sögu en í minna mæli.
Trúboðar katólikka og mótmælenda komu til landsins á 18. og
19. öld. Sunch’on og
P’yongyang voru aðalmiðstöðvar starfsemi þeirra.
Hernám Japana dró mjög úr starfsemi þeirra og útbreiðslu
kristninnar og í lok síðari heimsstyrjaldarinnar voru engir erlendir
trúboðar eftir í landinu.
Frumkvöðull
eingyðistrúarinnar ch’ondogyo árið 1860 (kenningar himnesku leiðarinnar),
sem var kunn undir nafninu tonghak (austræn speki), var Konfúsíuskennimaðurinn
Ch’oe Che-u. Ch’ondogyo,
sem er blanda margra trúarbragða, aðallega búddisma, kenninga Konfúsíusar
og kristni, var drifkraftur 1. marz-hreyfingarinnar 1919.
Shamanismi byggir á dýrkun guða, djöfla og anda forfeðranna,
sem voru í sambandi við presta hans.
Þessi trú var við lýði í Kóreu áður en búddisminn og
kenningar Konfúsíusar komu til sögunnar.
Þessi trúarbrögð eru næstum horfin af sjónarsviðinu í Norður-Kóreu.
Trúfrelsi
er eitt ákvæða stjórnarskrárinnar
en það er meira í orði en á borði.
Ch’ondogyo hefur engu að síður verið notuð í áróðursskyni
og frá síðari hluta níunda áratugar síðustu aldar hefur kristnin
verið notuð til að liðka fyrir sambandi við Suður-Kóreu og vestræn
ríki. Eftir Kóreustríðið voru kirkjur og búddahof gerð upptæk
og rænd. Mörgum þeirra
var breytt til annarrar starfsemi.
Starfsemi trúfélaga hefur að mestu verið í höndum ríkisins
en síðustu 10-15 ár 20. aldar var slakað á taumunum og sjálfstæð
trúfélög hafa litið dagsins ljós. |