Stjórnsýslan
og efnahagsmálin í Norður-Kóreu eru miðstýrð.
Ríkið stjórnar framleiðslunni og reynir að stýra efnahagslífinu
með þessari stjórnun og áætlanagerð langt fram í tímann síðan
1954. Fyrstu áætlanirnar,
sem komu í röðum, voru ætlaðar til að styrkja efnahaginn eftir Kóreustríðið
með uppbygginguna og þungaiðnað sem markmið.
Síðari áætlanir beindust að nýtingu náttúrlegra auðlinda
og aukinni tækniþekkingu, vélvæðingu og styrkingu stjórnkerfisins.
Landbúnaðurinn fékk litla athygli í þessum áætlunum þar
til á áttunda áratugnum og átak í gæða- og magnstjórnun
neyzluvara sá ekki dagsins ljós fyrr en á níunda áratugnum.
Upplýsingar
um efnahagslíf Norður-Kóreu hafa verið af skornum skammti.
Erlendir „sérfræðingar” í málefnum landsins hafa komizt
að þeirri niðurstöðu, að þessar áætlanir hafi brugðizt og stórn
landsins hafi ævinlega gefið rangar upplýsingar um afkomuna.
Fyrsta áratuginn eftir Kóreustríðið var talsverður
uppgangur en síðan kom stöðnun eða hægari hagvöxtur.
Snemma á tíunda áratugnum hallaði hratt undan fæti eftir
hrun Sovétríkjanna og annarra kommúnistaríkja í Evrópu, sem höfðu
verið helzt viðskiptavinir landsins.
Eftir
síðari heimsstyrjöldina breyttist landið úr bændasamfélagi í iðnaðarþjóðfélag.
Markmið í efnahagsmálum hafa tengzt stefnu stjórnarinnar um
sjálfbært þjóðfélag (juche/chuch’e).
Erlendar fjárfestingar hafa ekki verið leyfðar en efnahagsaðstoð
var þegin frá fyrrum Sovétríkjunum, Kína og Austur-Evrópulöndum.
Norður-Kórea hefur ekki náð þessu markmiði og mikið var og
er flutt inn af eldsneyti, vélbúnaði og kornvöru, þegar uppskeran
hefur brugðizt. Snemma á
níunda áratugnum neyddist ríkisstjórnin til að opna fyrir takmarkaða
erlenda fjárfestingu vegna þessarar þróunar.
Reynt
hefur verið að auka framleiðni og síðla á sjötta áratugnum var
hleypt af stokkunum átaki (ch’ollima; Hesturin fljúgandi) í
efnahagsmálum líkt og í Kína (Stóra stökkið).
Þá var lögð áherzla á stjórnun landbúnaðar og iðnaðar
(ch’ongsan-ni- og Taean-kerfin).
Námuvinnsla. Stærstur hluti náttúruauðæfa Kóreuskagans er í Norður-Kóreu.
Líklega finnast þar u.þ.b. 200 tegundir verðmætra málma og
annarra náttúruefna í jörðu. Hinar mikilvægustu eru járngrýti og kol, þótt meiri áherzla
sé lögð á vinnslu gulls, magnesíts, blýs og sinks. Meðal annarra verðmæta eru tungsten, grafít, baríumsúlfat
og molybden (notað til herzlu stáls).
Í Norður- og Suður- Hwanghae, Suður- P’yongan og Suður
Hamgyong eru stórar námur með hágæðajárni.
Þrátt fyrir lakara járngrýti, hafa námurnar í Musan í Norður-Hamgyong
verið nýttar í áratugi. Gæðakol
(antrasít) eru grafin úr jörðu meðfram Taedong-ánni, s.s. við
Anju, norðan p’yongyang, og í grennd við Paegam í Yanggang-héraði.
Brúnkol (lignít) finnast í takmörkuðum mæli í norðaustustu
hlutum landsins og við Anju. Magnesítnámurnar
við Tanch’on í Suður-Hamgyong eru hinar stærstu í heimi.
Skógarhögg
og fiskveiðar.
Talsverðar skógarleifar eru á norðurhásléttunni.
Þar vex einkum lerki, greni og fura.
Víðast hafa fjallahlíðar með ströndum fram verið rúnar skógum. Þessi náttúruspjöll eru einkum verk Japana í síðari
heimsstyrjöldinni. Stjórn
landsins hefur hvatt landsmenn til skynsamlegrar nýtingar skóga og stuðlað
að talsverðri skógrækt, sem nægir þó ekki til að fylla í skörðin. Mestur hluti timbursins er notaður til eldiviðar.
Hafið
er aðaluppspretta proteins fyrir landsmenn og fiskveiðiflotinn hefur
verið í stöðugum vexti síða á sjötta áratugnum.
Mestur hluti hans stundar veiðar innan landhelgi en úthafsveiðar
hafa aukizt síðan á áttunda áratugnum.
Mikilvægustu fisktegundirnar eru lýr, sardínur, makríll, síld,
gedda, gulspyrðill og skelfiskur.
Fiskirækt hefur aukizt talsvert.
Landbúnaður. Í kringum 1958 voru sjálfseignarbú sameinuð rúmlega 3000
samyrkjubúum, hvert með 300 fjölskyldum á 500 hektara landi. Sérstakar
framkvæmdastjórnir annast hverja þessara eininga.
Þær skipuleggja vinnu verkafólksins, ákveða magn útsæðis
og áburðar og framleiðslukvóta.
Ríkisfyrirtæki tekur við framleiðslunni og dreifir henni í ríkisverzlunum.
Einnig eru rekin tilraunabú á vegum ríkis- og héraðsstjórna. Þrátt fyrir minnkandi hlut landbúnaðar í vergri þjóðarframleiðslu
(25% árið 1990), hefur ræktað land stækkað og fleiri áveitur hafa
verið reistar. Notkun áburðar
og vélvæðing hefur einnig aukizt verulega.
Bændur fá greiðslu í peningum eða vörum og þeir hafa leyfi
til að rækta hænsni, býflugur, ávexti og grænmeti á eigin
spildum. Umframframleiðsla
er seld á markaði með vissu millibili.
Helztu
ræktuðu fæðutegundirnar eru hrísgrjón, maís, hirsi, hveiti og
bygg. Kornuppskeran hefur
aukizt talsvert síðan á sjötta áratugnum og oftast dugar hrísgjónaframleiðslan
fyrir markaðinn innanlands. Hveitið
dugar ekki og talsvert er flutt inn af því.
Mikið er ræktað af kartöflum, sojabaunum, grænmeti og ávöxtum. Ræktun til iðnaðar byggist aðallega á tóbaki, baðmull,
hör og repju (matarolía). Kvikfjárrækt
er stunduð á svæðum, sem eru lítt fallin til ræktunar og hefur
aukizt verulega, einkum hænsnarækt.
Iðnaður
og orkuframleiðsla.
Iðnaðargeirinn er undir stjórn ríkisins og samvinnufélaga á
þess vegum. Mikilvægustu iðnfyrirtækin starfa við járn- og stálvinnslu,
véla-, efna- og vefnaðarframleiðslu.
Mesta járn- og stálvinnslan fór fram á svæðinu í kringum
Songnim og Ch’ongjin en hefur fest rætur í kringum Kangson og aðrar
borgir. Efnaframleiðslan
er aðallega norðan P’yongyang.
Vefnaðarverksmiðjur er líka í P’yongyang, Sinuiju og
Sunch’on. Landið framleiðir
mikið af vopnum, farartækjum, sementi, gleri, leirmunum og neyzluvörum
(fatnaður og matvæli).
Iðnþróunin
hefur haldizt í hendur við mikla rafmagnsframleiðslu.
Vatnsorkuver voru byggð í stórum stíl við Yalu-ána og efri
þverár hennar á yfirráðatíma Japana (1910-45).
Nú á dögum er byggist rafmagnsframleiðslan enn þá á
vatnsafli en kolin og olían sækja stöðugt á vegna þess að ódýrara
er að byggja slík orkuver og vatnsorkuverin eru ekki eins áreiðanleg
á þurrkatímum. Framleiðsla
rafmangs hefur aukizt stöðugt í tímans rás en nægir samt ekki
fyrir iðnaðinn. Þrátt
fyrir þennan rafmagnsskort, selja Norðurkóreumenn kínverjum rafmagn.
Fjármál
og viðskipti.
Seðlabandi alþýðulýðveldisins er eini alvörubanki
landsins. Hann tekur við
öllum tekjum þjóðarinnar og verðmætum málmum og deilir þeim til
ríkisstofnana. Nokkrir aðrir
ríkisreknir bankar undir stjórn seðlabankans annast erlend viðskipti.
Takmörkuð frjáls viðskipti hafa verið leyfð síðan á áttunda
áratugnum.
Viðskipti
við útlönd hafa þróast hægt.
Í fyrstunni voru aðalviðskiptalöndin Sovétríkin og Kína en
á sjötta áratugnum bættust önnur lönd í hópinn.
Eftir hrun Sovétríkjanna minnkuðu viðskiptin við Rússland
en eru samt mikilvæg enn þá. Auk
Kína eru Japan og Þýzkaland meðal mikilvægustu viðskiptalandanna. Viðskipti við Suður-Kóreu hafa aukizt síðan 1990.
Mest er flutt inn af eldsneyti, vélabúnaði, efnavöru, garni
til vefnaðar og korni. Mikilvægustu
útflutningsvörurnar eru blý, magnesít, sink, stál, járn og sement.
Samgöngur. Járnbrautirnar eru aðalsamgöngukerfi landsins.
Þetta kerfi liggur aðallega með ströndum fram frá norðri
til suðurs og hliðargreinar inn í dalina.
Vegna hálendisins liggur aðeins ein leið frá austri til
vesturs milli P’yongyang og Wonsan.
Vesturbrautin liggur á milli Kaesong við landamæri Suður-Kóreu
og Sinuiju við kínversku landamærin og tengir aðalborgirnar á leiðinni.
Suðvesturleiðin frá P’yongyang liggur til aðalverksmiðjuborganna
á leiðinni. Önnur járnbraut
tengir P’yongyang við Manp’o við Yalu-ána og norðausturhéruð Kína.
Aðalkerfið á austurströndinni tengir Wonsan við Najin og
heldur áfram til Namyang við kínversku landamærin.
Nokkur hliðarspor þjóna stöðum inni í landi, þ.m.t.
nokkrum námuborgum.
Hraðbrautakerfið
er ekki stórt vegna þess hve fá ökutæki eru í landinu.
Aðalvegirnir liggja meðfram járnbrautunum.
Meðal þeirra er hraðbrautin milli P’yongyang og Wonsan,
Namp’o og Kaesong. Lítið
er um þjóðvegi með slitlagi.
Flutningar
á ám landsins eru mikilvægir fyrir landbúnaðar- og námusvæðin og
mikið er um farþegaflutninga. Helztu
skipgengu ár landsins eru Yalu, Taedong og Chaeyong.
Namp’o er hafnarborg P’yongyang og Haeju og Tasa eru aðalhafnarborgirnar
á vesturströndinni. Á
austurströndinni eru aðalhafnarborgirnar Wonsan, Hungnam, Chongjin og
Najin.
Flugumferð
er undir stjórn flughersins. Haldið
er uppi áætlunarflugi milli aðalborga landsins og alþjóðaflugvöllurinn
við P’yongyang tengir landið við Peking og Moskvu.
Sunan-flugvöllurinn norðvestan P’yongyang er líka alþjóðaflugvöllur,
sem er einnig notaður fyrir innanlandsflugið. |