Norður Kórea ýmsar borgir,
Flag of Korea, North


NORÐUR KÓREA
BORGIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

WONSAN
Wonsan er hafnarborg í suðausturhluta landsins við fjörð inn úr Kóreuflóa.  Hún hefur náttúrulega höfn og er viðskiptamiðstöð stórs landbúnaðarsvæðis og gullnámusvæðis.  Afkoma hennar byggist líka á fiskveiðum og vinnslu, járnbrautaverkstæðum, hrísgrjónavíngerð og olíuhreinsun.  Útflutningur byggist aðallega á hrísgrjónum, fiskafurðum, timbri, graffiti og sojabaunum.  Beinar flugsamgöngur eru við borgina og þar er líka verksmiðja, sem annast ýmiss konar tilraunaframleiðslu fyrir fiskiðnaðinn.  Japanar þróuðu borgina og hafnaraðstöðuna til þess nútímahorfs, sem þá gilti og umbætur hafa verið gerðar síðan.  Þarna var ein af stöðvum japanska sjóhersins í síðari heimsstyrjöldinni.  Borgin varð illa úti í Kóreustríðinu.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1984 var 350 þúsund.

NAMP’O
Namp’o er hafnarborg höfuðborgarinnar P’yongyang í vesturhluta landsins.  Afkoma hennar byggist líka á fiskveiðum og vinnslu og iðnaði.  Þar er stór skipasmíðastöð og verksmiðjur, sem framleiða rafskaut og gler.  Vöxtur borgarinnar hófst upp ur 1897, þegar höfn hennar var opnuð fyrir erlendum viðskiptum.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1984 var tæplega 700 þúsund.

SINUIJU
Sinuiju er höfuðborg Norður-P’yongan-héraðs við ósa Yalu-árinnar við Gulahaf.  Hún var mikilvæg samgöngumiðstöð, þegar brú var byggð yfir Yalu-ána til að tengja hana við Dandong í Kína árið 1910.  Núna er Sinuiju stór járnbrautamiðstöð milli Norður-Kóreu og Kína.  Meðal mikilvægra atvinnuvega er eiming áfengis, vinnsla sojabauna og framleiðsla efnavöru.  Borgin skemmdist mikið í Kóreustríðinu.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1984 var 500 þúsund.

CH’ONGJIN
Ch’ongjin er höfuðborg og miðstöð stálframleiðslu Hamgyong-héraðs í norðaustanverðu landinu.  Höfn hennar við Japanshaf er íslaus á veturna.  Meðal annarra iðnaðarvara borgarinnar eru, vefnaður, skip og efnavara.  Japan réði borginni 1910-45 og efldu hana sem miðstöð iðnaðar.  Sama þróun hélt áfram eftir síðari heimsstyrjöldina.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1984 var 755 þúsund. 

HOGNAM
Hognam er hafnarborg og iðnaðarmiðstöð í Suður-Hamgyong-héraði við Austur-Kóreuflóa og Japanshaf.  Mikið er framleitt af olíuvörum, hrámálmi, efnavöru og vefnaðarvöru.  Hongnam var lítið fiskiþorp fram til 1920, þegar Japanar hófu þar mikla uppbyggingu iðnaðar.  Það varð illa úti í Kóreustríðinu.  Áætlaður íbúafjöldi 260 þúsund.

KAESONG
Kaesong er borg í suðurhluta Norður-Kóreu, norðvestan Seoul í Suður-Kóreu.  Hún er miðstöð iðnaðar og viðskipta og þekkt fyrir postulínsframleiðslu.  Korn og ginseng er ræktað í umhverfi borgarinnar.  P’anmunjom, suðaustan Kaesong, var vettvangur vopnahléssamninganna, sem leiddu Kóreustríðið til lykta 1953.  Árið 1965 byggðu Suðurkóreumenn friðarhöll á staðnum, sunnan landamæranna til minningar um atburðinn.  Í Kaesong fundust fornar grafir kónga, enda var borgin miðstöð menningar og setur konunga frá 10.-14. aldar.  Hún var höfuðborg Koryo-ættarinnar til 1392 og mongólar eyðilögðu hana árið 1231.  Borgin var stundum kölluð Songdo og Kaijo á tímum Japana.  Áætlaður íbúafjöldi 1984 var 346 þúsund.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM