Managua Níkaragva,
Flag of Nicaragua


MANAGUA
NÍKARAGVA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Höfuðborg landsins stendur milli lítilla gígvatna á suðurbökkum Managuavatns.  Hún er ein heitasta höfuðborg Mið-Ameríku og aðeins 50 m yfir sjó.  Allan nýlendutímann var hún indíánaborg og spænsku borgirnar León og Granada voru í miklu meiri metum.  Árið 1857 varð hún höfuðborg eftir að blóðug samkeppni hinna tveggja borganna leiddi til örmögnunar íbúa þeirra í baráttunni.

Gríðarlegir jarðskjálftar og eldsvoðar eyddu mestum hluta borgarinnar, sem var endurbyggð eftir 1931.  Eftir jarðskjálftana 1972 var viðskiptahverfið endurbyggt 10 km sunnan og vestan miðborgarinnar.  Þar voru haldnir mótmælafundir gegn Somozastjórninni í kjölfar allsherjarverkfalls 1978-79.  Miklir bardagar urðu í fátækrahverfunum, sem voru á valdi sandinista, og víðar.

Meðal áhugaverðra staða í borginni er Darío almenningsgarðurinn, þar sem stytta þjóðarskáldsins stendur, Þjóðarhöllin og 20. aldar dómkirkjan.  Árið 1952 varð Managuaháskóli þjóðarháskóli landsins.  Miðameríkuháskólinn var stofnaður 1961 og listaskólinn 1968 (varð að listaháskóla 1978).

Managua er stærsta borg landsins og miðstöð viðskipta og menningar.  Þar er fjöldi smáiðnfyrirtækja, sem framleiða matvæli, húsgögn, málmvöru og vefnaðarvöru.  Þar er líka olíuhreinsunarstöð.  Á landbúnaðarsvæðunum umhverfis borgina er aðallega ræktað kaffi, maís og baðmull.  Járnbrautir og vegakerfi tengja borgina við Kyrrahafshöfnina í Corinto og borgirnar León og Granada.  Pan-America hraðbrautin og alþjóðaflugvöllurinn tengja hana við aðrar borgir í Mið-Ameríku.  Áætlaður íbúafjöldi 1985 var 682.111. 

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM